Innherji

Origo selur hlut sinn í Tempo á 28 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Áætlaður söluhagnaður Origo vegna viðskiptanna er um 22 milljarðar króna.
Áætlaður söluhagnaður Origo vegna viðskiptanna er um 22 milljarðar króna. Vísir/Vilhelm

Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur gengið frá skuldbindandi samkomulagi um sölu á öllum 40 prósenta hlut sínum í Tempo fyrir 195 milljónir Bandaríkjadala í reiðufé, jafnvirði um 28 milljarða króna. Kaupandinn er bandaríski tæknifjárfestingarsjóðurinn Diversis Capital en söluandvirði hlutarins er næstum jafn mikið og núverandi markaðsvirði allrar Origo-samstæðunnar í Kauphöllinni.

Áætlaður söluhagnaður Origo er um 156 milljónir dala að teknu tilliti til bókfærðs virðis og kostnaðar vegna viðskiptanna, að því er kom fram í tilkynningu til Kauphallarinnar fyrr í kvöld. Heildarvirði Tempo í viðskiptunum er því samtals um 600 milljónir dala.

Salan á Tempo, sem er í grunninn íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað árið 2009 af starfsfólki TM Software, er sögð hafa umtalsverð jákvæð áhrif á efnahagsreikning Origo þar sem lausafjárstaða styrkist og geta til innri og ytri vaxtar verður umtalsverð. Stjórn og framkvæmdastjórn Origo munu vinna að tillögu um ráðstöfun söluandvirðisins sem verður kynnt hluthöfum í framhaldinu.

Sú vegferð sem Origo lagði upp með hefur að fullu gengið eftir og rúmlega það, og hefur virði Tempo áttfaldast frá því haustið 2018.

Hjalti Þórarinsson, stjórnarformaður Origo, rifjar upp sölu á meirihluta í Tempo seint á árinu 2018 til Diversis Capital í því skyni að fá meðfjárfesta með alþjóðlega reynslu til að hraða vexti félagsins og auka virði fyrir hluthafa Origo. Var heildarvirði Tempo í þeim viðskiptum 62,5 milljónir dala.

„Sú vegferð sem Origo lagði upp með þá hefur að fullu gengið eftir og rúmlega það, og hefur virði Tempo áttfaldast frá því haustið 2018. Arðsemi Origo af þessum viðskiptum er frábær og hluthafar Origo innleysa hér mikil verðmæti,“ segir Hjalti.

Þá er haft eftir Jóni Björnssyni, forstóra Origo, að árangur Diversis eftir að það eignaðist fyrst meirihluta í Tempo fyrir fjórum árum hafi farið fram úr væntingum. „Tempo stendur nú á ákveðnum krossgötum í sinni vegferð eftir kaup á tveimur nýjum félögum sem meira en tvöfaldar stærð félagsins,“ segir Jón, og vísar þar til kaupa Tempo á félögunum Roadmunk og ALM Works á síðasta ársfjórðungi 2021.

Sameinuð velta félaganna þriggja var yfir 80 milljónum dala í fyrra en þar af nam velta Tempo um 45 milljónum dala.

Í uppgjöri Origo fyrir annan ársfjórðung á þessu ári kom fram að eftir sameiningu þeirra undir hatti Tempo hafi félagið skilað 25 prósenta tekjuvexti og heildartekjum upp á um 46 milljónir dala á fyrri árshelmingi. Leiðrétt EBITDA hlutfall félagsins var um 28 prósent á því tímabili.

Miðað við áætlaða ársveltu Tempo á þessu ári nemur heildarvirði félagsins í viðskiptunum, sé litið til tekjumargfaldara líkt og algengt er með slík vaxtarfyrirtæki, því nálægt sjö sinnum tekjur fyrirtækisins.

Hlutabréfaverð Origo hækkaði um 3 prósent í rúmlega 70 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Markaðsvirði félagsins er nú um 30 milljarða króna en frá áramótum hefur það lækkað um tæplega 3 prósent.

Stærstu hluthafar Origo eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta, Stapi, Lífsverk og sjóðir í stýringu Stefnis.

Ráðgjafar Origo í viðskiptunum voru LOGOS, AGC Partners og McGuireWoods. Þá var fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka ráðgjafi Diversis í kaupunum, samkvæmt upplýsingum Innherja.


Tengdar fréttir

Væntingar um virði Tempo ýta gengi Origo upp í hæstu hæðir

Hlutabréfaverð Origo hefur rokið upp um 23 prósent eftir að upplýsingatæknifyrirtækið birti ársuppgjör sitt fyrir aðeins tveimur vikum síðan. Markaðsvirði félagsins, sem er á meðal þeirra minnstu á aðalmarkaði Kauphallarinnar, hefur á þeim tíma hækkað um nærri 7 milljarða króna og nemur nú rúmlega 35 milljörðum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.