Innherji

Fjárfesting Origo í Tempo á „spennandi tímamótum,“ virði hlutarins gæti verið tugir milljarðar

Hörður Ægisson skrifar
Jón Björnsson, forstjóri Origo, sagði að það væri búið að vera „lærdómsríkt að fylgjast með Tempo í gegnum verulega stækkun“.
Jón Björnsson, forstjóri Origo, sagði að það væri búið að vera „lærdómsríkt að fylgjast með Tempo í gegnum verulega stækkun“.

Hugbúnaðarfyrirtækið Tempo, sem er að stórum hluta í eigu Origo, átti líklega „einn [sinn] mest spennandi ársfjórðung“ undir lok síðasta árs en rekstur félagsins „gekk frábærlega“ á árinu 2021.

Þetta kom meðal annars fram í máli Jóns Björnssonar, forstjóra Origo, á uppgjörsfundi félagsins síðastliðinn föstudag en tekjur Tempo jukust um 39 prósent í fyrra og voru samtals 45 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5,6 milljarðar íslenskra króna, en sú velta inniheldur ekki félögin Roadmunk og ALM Works sem Tempo keypti á síðasta ársfjórðungi 2021. Áætla má að sameinuð félög hafi velt yfir 80 milljónum dala í fyrra.

Hlutabréfaverð Origo, sem birti ársuppgjör sitt eftir lokun markaða á fimmtudag, hækkaði um tæplega 5,7 prósent í meira en 600 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni daginn eftir. Verðhækkun bréfanna kemur til vegna mikil vaxtar Tempo sem þýðir að eignarhlutur Origo í félaginu – hann nemur í dag 40,4 prósentum – kann að vera mun meira virði en áður var talið.

Jón nefndi að fjárfesting Origo í Tempo sé á „spennandi tímamótum“ og það væri búið að vera „lærdómsríkt að fylgjast með félaginu í gegnum verulega stækkun“ en starfsmannafjöldi Tempo er kominn hátt í 200 með starfsemi í fimm borgum. Fjöldi stærri viðskiptavina – sem eru með meira en þúsund notendur – jókst um 10 prósent á síðasta ársfjórðungi 2021. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) hækkaði um nærri 60 prósent í fyrra.

Tempo greiddi um 108 milljóna króna arð til Origo í fyrra.

Þá kom fram í máli Jóns, sem var ráðinn forstjóri Origo sumarið 2020, að framundan væri „stórt og mikið verkefni að ná verðmætum út úr samvinnu félaganna þriggja.“

Origo seldi sem kunnugt er 55 prósenta hlut í Tempo til bandaríska fjárfestingafélagsins Diversis Capital í nóvember árið 2018 en heildarvirði hugbúnaðarfyrirtækisins í þeim viðskiptum var um 62,5 milljónir dala. Tempo er í grunninn íslenskt fyrirtæki, sem var stofnað árið 2009 af starfsfólki TM Software. Vöxtur félagsins hefur numið tugum prósenta á hverju ári frá þeim tíma.

Í árslok 2021 var eignarhlutur Tempo bókfærður á tæplega 4 milljarða króna í reikningum Origo. Árið áður var 43 prósenta hlutur í félaginu bókfærður á 2,9 milljarða en eignarhluturinn þynntist lítillega út vegna hlutafjáraukningar Tempo þegar ráðist var í kaupin á Roadmunk og ALM.

Ljóst er að raunverulegt markaðsvirði þess eignarhlutar sem Origo fer í dag með í Tempo er umtalsvert meira en hann er bókfærður á í reikningum félagsins, ekki hvað síst eftir nýjustu tölur um tekjuvöxt Tempo í fyrra – en sé aðeins litið til fjórða ársfjórðungs þá nam hann 65 prósentum (með Roadmunk og ALM).

Samkvæmt viðmælendum Innherja á fjármálamarkaði má áætla hvert sé mögulegt virði eignarhlutar Origo í Tempo út frá tekjumargfaldara en algengt er að slík hugbúnaðarfyrirtæki, einkum þau sem eru farin að skila jákvæðri framlegð, sé metin á bilinu 8 til 12 sinnum tekjur þeirra.

Miðað við þær forsendur gæti Tempo verið verðmetið á samtals um 56 milljarða íslenskra króna ef notaður er tekjumargfaldari upp á 10 en félagið skilaði sem fyrr segir 5,6 milljörðum í tekjur í fyrra. Hlutur Origo væri þá samkvæmt þessari sviðsmynd metinn á 23 milljarða króna. Ef litið sé hins vegar til veltu sameinaðra þriggja félaga (Tempo, Roadmunk og ALM) – hún var samtals ríflega 80 milljónir dala í fyrra – með sama tekjumargfaldara þá gæti ríflega 40 prósenta hlutur Origo í Tempo verið yfir 40 milljarða króna virði.

Til samanburðar nemur markaðsvirði Origo í dag um 30 milljarðar króna en hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um liðlega 67 prósent á undanförnum tólf mánuðum.

Stærstu hluthafar Origo eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta og Akta sjóðir.


Tengdar fréttir

Tempo festir kaup á Roadmunk

Tempo, dótturfélag Origo, hefur fest kaup á hugbúnaðarfyrirtækinu Roadmunk Inc. Félagið þróar samnefndan hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að byggja upp, hanna og miðla stefnu fyrir hugbúnaðarvörur með sjónrænum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×