Innherji

Spá mesta hagvexti síðustu fimmtán ára

Þórður Gunnarsson skrifar
Ferðaþjónusta er megindrifkraftur útflutningsvaxtar íslenska hagkerfisins um þessar mundir.
Ferðaþjónusta er megindrifkraftur útflutningsvaxtar íslenska hagkerfisins um þessar mundir. Vísir/Eyþór

Hagvöxtur á Íslandi verður 7,3 prósent á árinu 2022 ef marka má spá greiningardeildar Íslandsbanka sem kynnt verður síðar í dag. Svo mikill hagvöxtur hefur ekki verið hér á landi í fimmtán ár.

Greiningardeildin bendir á að útflutningur og fjárfesting sé einn helsti drifkraftur hagvaxtar á þessu ári. 

„Eftir tvö erfið ár í ferðaþjónustu þar sem faraldurinn réði að stórum hluta ferðinni um komur ferðamanna hingað til lands hefur hagur greinarinnar vænkast hratt undanfarið. Erlendir ferðamenn hingað til lands voru ríflega 1,1 milljón á fyrstu átta mánuðum ársins ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Svo margt ferðafólk hefur ekki sótt landið heim á þessu tímabili frá árinu 2019. Þótt heimsóknir fólks frá Asíu séu mun færri nú en fyrir faraldur hefur fjölgun ferðafólks frá Bandaríkjunum og Evrópu bætt það upp,“ segir í umfjöllun Íslandsbanka.

2,2 milljónir ferðamanna árið 2024

Samkvæmt spánni verður fjöldi ferðamanna sem sækja landið heim um 1,7 milljón á þessu ári, en strax árið 2024 verður fjöldi ferðamanna kominn í 2,2 milljónir manna. „framhaldandi fjölgun ferðamanna er svo helsta ástæða tæplega 6% útflutningsvaxtar á næsta ári og tæplega 4% vaxtar árið 2024,“ segir greiningardeildin. Þar að auki þess gerir Íslandsbanki áfram ráð fyrir vaxandi útflutningi eldisfisks, áls og annarra iðnaðarvara ásamt auknum útflutningstekjum vegna hugverkaiðnaðar.

Áframhaldandi vöxtur fjárfestingar

Í kjölfar tveggja ára samdráttar í fjárfestingum atvinnuveganna mitt í heimsfaraldri bendir greiningardeild Íslandsbanka á sterkan viðsnúning í kjölfarið. Fjármunamyndun var að baki nærri fjórðungs vergrar landsframleiðslu á síðasta ári og hafði þá ekki verið hærri í 13 ár. „Í ár eru horfur á áframhaldandi vexti atvinnuvegafjárfestingar. Vöxturinn nam rúmum 12 prósent á fyrri helmingi ársins og hagvísar gefa tóninn um áframhaldandi vöxt út árið. Íbúðafjárfesting er einnig að taka við sér á ný eftir samdrátt á fyrri helmingi ársins og mun væntanlega mælast vöxtur í slíkri fjárfestingu á árinu í heild,“ segir Íslandsbanki.

Óverðtryggð fasteignalán styðja við miðlun peningastefnu

Verðhækkun fasteigna á landinu öllu nemur nú um 25 prósent það sem af er ári, sem er mesta hækkun innan árs frá 2006. Íslandsbanki bendir á að viðsnúningur sé hafinn á fasteignamarkaði, en lækkun mældist á fasteignaverði í ágúst síðastliðnum í fyrsta sinn frá nóvember 2019.

Fram kom í gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að fjöldi íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu hafi verið um þúsund í ágúst, sem er það mesta frá ársbyrjun 2021. „Framboð íbúða samanstendur að mestu af eldri eignum í endursölu en ekki nýbyggingum. Það gefur til kynna að markaðurinn er ekki að hægja á sér vegna aukins framboðs nýrra eigna heldur vegna minni eftirspurnar. Ástæða þess virðist fyrst og fremst aðgerðir Seðlabankans,“ segir í umfjöllun bankans.

Bendir greiningardeildin á að hærra hlutfall óverðtryggðra lána efli miðlun peningastefnu Seðlabankans. „Bæði hefur hann hækkað vexti svo um munar en einnig hert á lánaskilyrðum á nýjum íbúðalánum. Þessar aðgerðir hafa nú loks haft áhrif á markaðinn. Stór hluti íbúðalána er nú óverðtryggður sem hefur gert miðlun peningastefnunnar skilvirkari:“


Tengdar fréttir

Gefur Seðla­bankanum færi á að hægja á vaxta­hækkunar­taktinum

Lækkun íbúðaverðs í ágúst kom greinendum og fjárfestum á óvart, sem endurspeglaðist í skarpri lækkun óverðtryggðra ríkisbréfa í dag, en eftir þær tölur er ljóst að nýjasta spá Seðlabankans er að ofmeta verðbólguna talsvert næsta kastið. Þótt ástandið sé enn viðkvæmt þá þýðir kólnandi fasteignamarkaður að útlit er fyrir að lítið sé eftir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans, að sögn viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.