Umfjöllun og viðtöl: FH-Valur 28-33 | Ís­lands­meistararnir á­fram á sigur­braut

Hjörvar Ólafsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Vísir/Diego

Íslandsmeistarar Vals unnu fimm marka sigur á FH í Olís deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur 33-28 gestunum í vil sem byrja mótið á þremur sigrum. FH er á sama tíma án sigurs.

Valsmenn settu tóninn strax í upphafi leiks með firnasterkri vörn sem lagði grunninn að því að liðið náði fljótlega fimm marka forskoti. FH-ingar lögðu hins vegar ekki árar í bát og náðu að minnka muninn í tvö mörk fyrir lok fyrri háfleiks. Staðan var 15-17 fyrir Val í hálfleik. 

Jafnræði var með liðunum framan af seinni hálfeik og FH náði að jafna metin í 19-19 þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. 

Þá kom annar góður kafli hjá Val sem náði mest sjö marka forystu. Niðurstaðan fimm marka sigur Vals sem er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. FH hefur hins vegar eitt stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í deildinni. 

Snorri Steinn á hliðarlínunni í Krikanum í kvöld. Vísir/Diego

Snorri Steinn: Meiri kraftur í okkur en í fyrstu tveimur leikjunum 

„Mér fannst við kraftmeiri í þessum leik en í fyrstu tveimur leikjunum og náðu upp góðri vörn. Við spiluðum þéttan varnarleik lungann úr leiknum og vorum agaðir í sóknarleiknum fyrir utan kannski lokin í fyrri hálfleik þar sem við gerðum nokkra tæknifeila í röð sem hleyptu þeim inn í leikinn," sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, að leik loknum. 

„Þetta var okkkar besta frammistaða í deildinni sem er reyndar bara nýfarin af stað. Það er gott að við náðum að dreifa álaginu vel og margir leikmenn lögðu í púkkinn. Það mun skipta máli þegar leikjaálagið verður meira á næstu vikum að hafa marga leikmenn klára í slaginn," sagði Snorri Steinn enn fremur. 

„Ég er ánægður með að hafa náð að sýna stöðugleika í góðri spilamennsku nánast allan leikinn og að við náðum að setja aftur í næsta gír eftir að þeir komust inn í leikinn. Það er sterkt að koma í Kaplakrika og vinna nokkuð sannfærandi sigur gegn jafn öflugu liði og FH hefur á að skipa," sagði þjálfari Vals. 

Sigursteinn Arndal brúnaþungur á bekk FH-ingaVísir/Diego

Sigursteinn Arndal: Tveir slæmir kaflar verða okkur að falli

„Það eru tveir slæmir kaflar, annars vegar í upphafi leiks og hins vegar um miðjan seinni hálfleik, sem verða okkur að falli í þessum leik. Við komum mjög flatir inn í þennan leik, vorum passívir í varnarleiknum og ekki nógu aggressívir í sóknarleiknum," sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, um tap sinna manna. 

„Við sýndum hvað í okkur býr undir lok fyrri hálfleiks og komum okkur inn í leikinn. Svo sýndum við ekki nógu mikinn aga þegar mest á reyndi og því fór sem fór. Þó svo að við getum vissulega tekið margt jákvætt út úr þessum leik þá erum við ekki sáttir við stigasöfnunina og við þurfum að bæta okkur í næstu leikjum," sagði Sigursteinn um þróun leiksins. 

„Nú er bara að fara yfir það sem við gerðum illa og bæta þá hluti á æfingunum fram að næsta leik. Það er vissulega stígandi í okkar leik en við þurfum að fara að safna fleiri stigum," segir hann en FH og Afturelding hafa hvort um sig eitt stig í 10. og 11. sæti deildarinnar. 

Róbert Aron Hostert freistar þess að komast framhjá Jóni Bjarna Ólafssyni. Visir/Diego

Af hverju vann Valur?

Það var geysilega sterk vörn Vals sem skóp þennan sigur en þá voru ferskari fætur inni á vellinum þegar á hólminn var komið hjá gestunum. 

Hvað gekk illa?

Tæknifeilarnir voru of margir hjá FH til þess að geta fengið eitthvað út úr þessum leik. Eftir að hafa lagt mikla orku í að koma sér inn í leikinn fóru heimamenn illa af ráði sínu á ögurstundu. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir voru góðir í þessum leik en auk markanna sem þeir skoruðu áttu þeir fjölmargar stoðsendingar og Benedikt Gunnar fiskaði tvö víti. Björgvin Páll Gústavsson varði svo vel fyrir aftan sterka vörn Vals. 

Phil Döhler hélt FH inni í leiknum með górði markvörslu sinni og þá var Jakob Martin Ásgeirsson öflugur á báðum endum vallarins. Jón Bjarni Ólafsson átti einnig fínan leik. 

Hvað gerist næst?

Valur fær KA í heimsókn í Origo-höllina að Hlíðarenda á fimmtudagskvöldið kemur en sama kvöld etur FH kappi við Fram í Kaplakrika. 

Benedikt Gunnar Óskarsson stýrði sóknarleik Vals vel í þessum leik. Vísir/Diego

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira