Körfubolti

Allur ágóði fyrsta heimaleiks Álftaness rennur óskertur til Ljóssins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Körfuknattleiksdeild Álftaness og Ljósið hafa tekið hönsum saman. Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness og Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins, eru fremst fyrir miðju.
Körfuknattleiksdeild Álftaness og Ljósið hafa tekið hönsum saman. Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness og Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins, eru fremst fyrir miðju. Mynd/Körfyknattleiksdeild Álftaness

Körfuknattleiksdeild Álftaness og Ljósið hafa undirritað samstarfssamning sem felur í sér kynningu á starfsemi Ljóssins í gegnum körfuboltastarf félagsins.

Markmiðið með samstarfinu er að auka vitund um starfsemi Ljóssins og fjölga þeim sem styðja við bakið á því, en Ljósið er endurhæfingardeild fyrir krabbameinsgreinda sem upphaflega hófst sem tilraunaverkefni á vegum Landsspítala Háskólasjúkrahúss árið 2002.

Í þessu skyni mun lið Álftaness spila í búningum merktum Ljósinu og auka sýnileika Ljóssins í tengslum við viðburði félagsins.

Þá mun allur ágóði af fyrsta heimaleik Álftaness renna óskertur til Ljóssins en fyrsti leikurinn verður á móti Þór Akureyri þann 23. september kl. 19:15. Til að styðja við framtakið á föstudaginn hefur Halldór Kristmansson, einn af bakhjörlum körfuknattleiksdeildarinnar í vetur, heitið einni milljón króna til styrktar Ljósinu.

„Ég þekki vel til starfsemi Ljóssins sem og uppbyggingarinnar á körfunni á Álftanesi og vil því leggja mitt að mörkum til að styðja við þetta samstarf,“ sagði Halldór.

Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness, segir að samstarfið gangi út á að lyfta starfsemi Ljóssins í gegnum körfubolta, ensa vinni Ljósið ómetanlegt starf í íslensku samfélagi.

„Ljósið vinnur ómetanlegt starf í íslensku samfélagi,“ sagði Huginn við undirritun samningsins. 

“Samstarf okkar við Ljósið gengur út á það að lyfta þessu starfi í gegnum körfubolta og þakka fyrir það. Við viljum svo auðvitað fylla húsið í fyrsta heimaleik þannig að sem mest renni til þessa frábæra starfs.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×