Umræðan

Borgin sýpur seyðið af lausatökum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Reykjavíkurborg var í fararbroddi sveitarfélaga þegar kom að því að skapa störf í heimsfaraldrinum. Á milli áranna 2019 og 2021 fjölgaði stöðugildum hjá borginni um tæplega eitt þúsund að meðaltali – hlutfallsleg aukning var um 13,5 prósent – sem var mun meiri fjölgun en greina mátti í rekstri annarra sveitarfélaga. Samfylkingin, sem gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir að gera ekki nóg til að ná niður atvinnuleysi í faraldrinum, átti án efa stóran þátt í því að marka metnaðarfulla stefnu borgarinnar í þessum efnum.

Eftir tilkomu kórónuveirunnar kallaði Ágúst Ólafur Ágústsson, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, eftir fjölgun ríkisstarfsmanna til að bregðast við auknu atvinnuleysi og þegar það náði hámarki í byrjun árs 2021 talaði Kristrún Frostadóttir, þingmaður og tilvonandi formaður, fyrir því að ríkissjóður skuldsetti sig enn frekar til setja meiri kraft í vinnumarkaðsaðgerðir. Má því segja að flokkurinn hafi komið hagstjórnaráherslum sínum í gegn í Reykjavík.

Ekki verður betur séð en að borgin hafi í kjölfarið misst stjórn á kostnaði. Á síðustu 18 mánuðum hefur framúrkeyrsla launakostnaðar numið nærri 7 milljörðum króna og launahlutfall A-hlutans, þ.e. launagjöld í hlutfalli við tekjur, hækkaði úr 55 prósentum upp í 60 prósent milli áranna 2019 og 2021. Hin fyrirsjáanlega afleiðing af því að ráðast í atvinnuátak á sama tíma og miklar launahækkanir og stytting vinnuvikunnar gengu í gegn er sú að reksturinn er „í járnum“, eins og það var orðað í síðustu uppgjörskynningu borgarinnar.

Svo gæti jafnvel farið að grunnreksturinn verði „rjúkandi rúst“ eins og borgarstjóri lýsti búinu sem hann tók við árið 2010.

Tap af rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar nam um 8,9 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og var afkoman rúmlega fjórum milljörðum lakari en gert var ráð fyrir. En hingað til hefur meirihlutinn ekki viljað kannast við neinn rekstrarvanda. Nú síðast í apríl sögðu meirihlutaflokkarnir í tilefni af birtingu ársuppgjörs að borgin hefði skilað „gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður“. Fimm mánuðum síðar er reksturinn í járnum.

Rekstrarvandinn ætti þó að koma fáum á óvart. Ein vísbending um aðsteðjandi vanda var sú að veltufé frá rekstri A-hlutans hvarf á örfáum árum. Þessi mikilvægi mælikvarði í rekstri sveitarfélaga segir til um það hversu miklir fjármunir eru að myndast í rekstrinum og þar af leiðandi hversu miklu er hægt að ráðstafa í afborganir skulda eða fjárfestingar. Í lok árs 2021 var staðan orðin svo slæm að einungis tvö af tíu stærstu sveitarfélögum landsins skiluðu minna veltufé frá rekstri en Reykjavíkurborg þrátt fyrir að borgin væri langstærsta sveitarfélagið. Tölurnar tala sínu máli.

Yfirstjórn borgarinnar hefur sagt versnandi ytra umhverfi, svo sem bresti í aðfangakeðjum og mikla verðbólgu, lita rekstrarniðurstöðuna á fyrsta árshelmingi. Jafnframt sagði í tilkynningu borgarinnar að „stóra áskorunin“ væri kostnaður vegna málefna fatlaðs fólks en málaflokkurinn var rekinn með 5,4 milljarða króna halla á fyrstu sex mánuðum ársins.

Allt er þetta rétt en vandinn ristir dýpra. Jafnvel þó að málefni fatlaðs fólks væru tekin út fyrir sviga hefði A-hluti borgarinnar verið rekinn með 3,4 milljarða króna halla. Markviss útgjaldaaukning hefur komið borginni í þá stöðu að lítið má út af bera svo að grunnreksturinn verði ekki röngum megin við núllið. Hann er berskjaldaður fyrir breytingum í ytra umhverfi.

Kæruleysi meirihlutans birtist í viðtali RÚV við borgarstóra í nóvember 2021 þar sem hann var spurður hvort borgin ætlaði að bregðast við hallarekstri með niðurskurði eða gjaldskrárhækkunum. Aldeilis ekki, gaf borgarstjóri í skyn, og vísaði hann til þess að þétting og uppbygging nýrra hverfa myndi skila ágóða á komandi árum. „Við ætlum að vaxa út úr þessum vanda,“ sagði hann.

Vinnumarkaðsátak borgarinnar sýnir hversu óskilvirkt hið opinbera er þegar kemur að sveiflujöfnun.

Í síðasta árshlutauppgjöri kvað við annan tón þegar borgarráð greindi frá rammaúthlutun fyrir árið 2023 þar sem svið borgarinnar eru hvött til aðhalds í rekstri. Gert er ráð fyrir hagræðingu sem nemur 1 prósenti af launakostnaði og jafnframt verður unnið að nýjum reglum sem ætlað er að draga úr eða fresta ráðningum.

Vinnumarkaðsátak borgarinnar sýnir hversu óskilvirkt hið opinbera er þegar kemur að sveiflujöfnun. Í besta falli var átakið orðið gagnslaust í september 2021 þegar atvinnuleysi var komið niður í 5 prósent – efnahagslífið tók við sér mun hraðar en spár gerðu ráð fyrir – og það er ekki fyrr en nú, eftir heilt ár og afleitt uppgjör, að meirihlutanum dettur í hug að byrja að hægja á ráðningum.

Niðurstaðan, eins og gildir jafnan um tímabundnar ráðstafanir hins opinbera, er varanleg og ósjálfbær aukning í kostnaði sem meirihlutanum mun reynast erfitt að vinda ofan af. Svo gæti jafnvel farið að grunnreksturinn verði „rjúkandi rúst“ eins og borgarstjóri lýsti búinu sem hann tók við árið 2010.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×