Umræðan

Verðbólgan verður ekki sigruð fyrr en allir róa í sömu átt

Hörður Ægisson skrifar

Hagkerfið er komið á yfirsnúning. Viðvörunarljósin blikka víða, nema hjá þeim sem kjósa að setja kíkinn fyrir blinda augað. Blússandi gangur er í einkaneyslu, sem hefur aukist um fjórtán prósent á milli ára, hlutfall fyrirtækja sem skortir starfsfólk hefur aðeins einu sinni mælst hærra, vísbendingar eru um bólu á húsnæðismarkaði, mikill vöxtur er í nýjum útlánum til atvinnulífsins og væntingar eru um að verðbólgan kunni að fara í tveggja stafa tölu áður en árið er liðið. Seðlabankinn gerir ráð fyrir tæplega sex prósenta hagvexti í ár, en fáum kæmi á óvart þótt hann ætti eftir að reynast enn meiri með hliðsjón af þeirri miklu framleiðsluspennu sem hefur myndast í hagkerfinu.

Sá aukni hagvöxtur sem Seðlabankinn er að spá grundvallast einkum á meiri neyslu landsmanna. Jafnvel þótt það sé góður gangur í öllum útflutningsgreinum landsins þá vegur vöxturinn í innflutningi enn þyngra. Birtingarmynd þess kemur fram í því að sparnaðarstigið, sem hefur verið hæstu hæðum frá fjármálahruninu, er að lækka hratt og þá um leið brýst það fram í væntingum um viðvarandi mikinn viðskiptahalla – meira en þrjú prósent af landsframleiðslu – á komandi árum þrátt fyrir að ferðaþjónustan sé að nálgast sama styrk og fyrir faraldurinn. Það er áhyggjuefni.

Þetta er með öðrum orðum tæplega sjálfbær hagvöxtur til lengri tíma í litlu, opnu hagkerfi, þar sem mestu máli skiptir fyrir stöðugleika kerfisins að viðhalda jafnvægi á greiðslujöfnuði þjóðarbúsins við útlönd. Miklar og almennar launahækkanir á pari við verðbólguna, í hagkerfi sem er fyrir með eitt hæsta launahlutfall meðal aðildarríkja OECD, munu auka enn á ofþensluna með þeim fyrirsjáanlegu afleiðingum – sem Íslendingar ættu að þekkja vel en sumir hafa kosið að gleyma eftir tímabil verðstöðugleika – að gengi krónunnar fellur samtímis versnandi samkeppnishæfni Íslands og við missum verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja úr böndunum.

Miklar og almennar launahækkanir á pari við verðbólguna, í hagkerfi sem er fyrir með eitt hæsta launahlutfall meðal aðildarríkja OECD, munu auka enn á ofþensluna með fyrirsjáanlegu afleiðingum.

Þetta er sá efnahagslegi raunveruleiki sem Seðlabankinn þarf að taka mið af við óvinsælar – en nauðsynlegar – ákvarðanir um að hækka vexti til að slá á þensluna í þjóðarbúskapnum og kæla fasteignamarkaðinn. Vextir hafa verið hækkaðir um 350 punkta frá áramótum, úr 2 prósentum í 5,5 prósent og ekki verið hærri í sex ár, og lánþegaskilyrði hafa vert til að vinna gegn lánabólu og aftra því að heimilin skuldsetji sig um of á yfirspenntum íbúðamarkaði. Vísbendingar eru um að þær aðgerðir bankans séu byrjaðar að skila sýnilegum árangri. Mjög er farið að draga úr verðhækkunum á fasteignum og nýjar verðbólgutölur í morgun sýndu, þvert á spár greinenda, að verðbólgan lækkaði – í fyrsta sinn á milli mánaða frá því sumarið 2021 – úr 9,9 prósentum í 9,7 prósent. Engin ástæða er hins vegar til að hrósa sigri, og vandséð að verðbólgan muni nálgast 2,5 prósenta markmið á allra næstu árum.

Eigum við að feta í fótspor Erdogans?

Seðlabankanum ber sú skylda að beita þeim tækjum og tólum sem hann hefur yfir að ráða til að ná niður verðbólgunni að hinu lögbundna markmiði sínu. Vaxtatækið er þar óumdeilanlega árangursríkast. Eðlilega eru skiptar skoðanir hversu langt eigi að ganga í þeim efnum hverju sinni – hvort vextir eiga að hækka eða lækka um 25 punkta til eða frá – en það er síðra þegar því er ítrekað haldið fram af fólki í valda- og ábyrgðarstöðum að vaxtahækkanir séu einfaldlega gagnslausar við þessar aðstæður, og geri jafnvel meira ógagn en hitt í baráttunni við verðbólgu. Slíkur málflutningur er fjarstæðukenndur. Nærtækast er að líta þar til reynslunnar í Tyrklandi sem hefur fylgt þeirri peningastefnu sem formaður VR og fleiri af sama sauðahúsi hafa boðað – með þeim árangri að verðbólgan þar í landi mælist nú um 80 prósent og gengi tyrknesku lírunnar hefur um langt skeið verið í frjálsu falli.

Verðbólgan hér á landi var vissulega framan af drifin áfram af verðhækkunum á húsnæðismarkaði og síðar alþjóðlegri verðbólgu vegna stríðsreksturs í Evrópu og fordæmalausra hnökra í aðfangakeðjum heimsins. Það er hins vegar mikil einföldun, og beinlínis rangt, að halda því fram að aðrir þættir séu ekki einnig að verki. Þótt húsnæðisliðurinn sé undanskilinn úr vísitölunni þá mælist verðbólgan samt 7,5 prósent og sé litið til svonefndrar undirliggjandi verðbólgu þá er hún um 6,5 prósent.

Þá hlýtur það að vera Seðlabankanum, rétt eins og öllum öðrum, mikið áhyggjuefni að sjá verðbólguvæntingar heimilanna rjúka upp á síðustu misserum. Yfir 60 prósent heimila vænta þess nú að verðbólgan muni reynast yfir átta prósent að meðaltali næstu fimm árin. Þegar verðbólgan er eins há og raun ber vitni, einkum í aðdraganda kjarasamninga, þá fer fólk að búast við launahækkunum á sama stigi. „Það er þess vegna mjög hættulegt,“ útskýrði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali Innherja eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund, „ef verðbólgunni verður leyft að vaða óhindrað áfram með þeim afleiðingum að væntingar heimilanna breytast til þess hvað verðbólgan verður í framtíðinni.“

Það er síðra þegar því er ítrekað haldið fram af fólki í valda- og ábyrgðarstöðum að vaxtahækkanir séu einfaldlega gagnslausar við þessar aðstæður, og geri jafnvel meira ógagn en hitt í baráttunni við verðbólgu. Slíkur málflutningur er fjarstæðukenndur.

Seðlabankinn metur það því réttilega sem svo að ávinningurinn af því að taka stærri nú skref en minni við hækkun vaxta sé meiri til lengri tíma í stað þess að gera of lítið. Það er gert einmitt í þeim tilgangi að tryggja að sú staða, þar sem fólk og fyrirtæki fer að taka ákvarðanir á grundvelli þess að vænta hárrar verðbólgu langt fram í tímann, nái hér ekki fótfestu – nokkuð sem gæti reynst erfitt og langvinnt verkefni að vinda ofan af.

Það er afar mikilvægt, rétt eins og forstjóri Alþjóðagreiðslubankans (BIS) sagði í viðtali við Financial Times um liðna helgi, að forsvarsmenn seðlabanka heimsins útskýri fyrir almenningi hvað veldur því að verðlag sé að hækka skarpt og mikil spenna að myndast á vinnumarkaði – og af hverju þurfi þess vegna að grípa til sársaukafullra aðgerða til að snúa við þeirri þróun. Það hefur seðlabankastjóri reynt að gera, jafnan við litlar vinsældir úr ýmsum áttum, en árangurinn verður engu að síður takmarkaður nema aðrir armar hagstjórnarinnar rói einnig í sömu átt.

Að ná niður verðbólgunni, eins og peningastefnunefnd þreytist ekki á að ítreka, er samstarfsverkefni ríkisstjórnarinnar, atvinnulífsins, verkalýðsfélaga og Seðlabankans. Atvinnurekendur og forstjórar stærstu fyrirtækjanna þurfa að taka til sín skilaboð Seðlabankans. Þolinmæði fyrir óhóflegum launahækkunum til einstakra stjórnenda við þessar aðstæður er engin og fyrirtækin þurfa að leita allra leiða, sem er vissulega ekki alltaf auðvelt, til að halda niðri verðlagi, jafnvel þótt það kunni að bitna á framlegðinni um skamma stund.

Pólitískur óskalisti verkalýðsfélaga

Stærsti óvissuþátturinn í efnahagsmálum, líkt og svo oft áður, eru hins vegar komandi kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Fyrstu kröfugerðir stéttarfélaganna eru að berast á borð Samtaka atvinnulífsins. Kröfugerð stærsta félagsins, VR, má lýsa sem einhvers konar pólitískum óskalista hins popúlíska formanns fremur en raunhæfu innleggi inni í kjaraviðræður. Yfirlýsingar Eflingar að undanförnu gefa sömuleiðis ekki til kynna að þar megi vænta jarðtengingar í kröfum stéttarfélagsins. Á tímum þegar verðbólga hefur ekki mælst hærri í meira en áratug er það Íslendingum einstakt ólán að ganga til kjarasamningaviðræðna þar sem sumt forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, sem fer með mikið vald í krafti takmarkaðs umboðs, skynjar ekki ábyrgð sína við þessar erfiðu og krefjandi aðstæður.

Kröfugerð stærsta félagsins, VR, má lýsa sem einhvers konar pólitískum óskalista hins popúlíska formanns fremur en raunhæfu innleggi inni í kjaraviðræður. Yfirlýsingar Eflingar að undanförnu gefa sömuleiðis ekki til kynna að þar megi vænta einhvers konar jarðtengingar.

Almenningur er ekki fífl, og veit vel hvað þarf að gera til að koma böndum á verðbólguna – og ekki síst hvað þarf að varast í þeim efnum eins og að ráðast í skærur á vinnumarkaði. Nýlegar skoðanakannanir hafa enda sýnt að meirihluti fólks velur stöðugt efnahagsumhverfi og áherslu á aukinn kaupmátt fram yfir innistæðulausar launahækkanir.

Þrátt fyrir stórar áskoranir þá er mikilvægt að hafa í huga að Íslendingar standa efnahagslega mun betur að vígi en flestar aðrar þjóðir sem við viljum helst bera okkur saman. Á meðan útlit er fyrir kreppuverðbólgu í mörgum öðrum löndum, tímabil hárrar verðbólgu og efnahagssamdráttar, eru hagvaxtarhorfur hér á landi með besta móti. Í krafti meðal annars mikils óskuldsetts gjaldeyrisforða, sjálfstæðrar peningastefnu og sjálfbærrar endurnýjanlegar grænnar orku – á tímum þegar mörg önnur Evrópuríki glíma við meiriháttar orkukreppu – höfum við allar forsendur til að vinna smám saman bug á verðbólgunni.

Stundum vill gleymast sá mikli efnahagslegri árangur sem hefur náðst hér á landi á undanförnum áratug í öllum upphrópunum og upplýsingaóreiðunni. Kaupmáttur launafólks á Íslandi jókst um 57 prósent á árunum 2012 til 2021 en á hinum Norðurlöndunum var kaupmáttaraukningin aðeins á bilinu 2 til 10 prósent. Jafnvel þegar litið er til áranna frá því að Lífskjarasamningurinn var undirritaður í ársbyrjun 2019, tímabil sem hefur einkennst af heimsfaraldri og ört hækkandi verðbólgu, þá hefur kaupmáttur engu að síður aukist um liðlega sex prósent, árangur sem fá ríki í Evrópu geta státað sig af.

Stundum vill gleymast sá mikli efnahagslegri árangur sem hefur náðst hér á landi á undanförnum áratug í öllum upphrópunum og upplýsingaóreiðunni.

Það er stundum sagt að það sé erfiðara að stjórna þegar vel gengur. Með því að halda hins vegar rétt á málum við hagstjórnina á komandi mánuðum og misserum á getum við litið á þá kaupmáttarskerðingu sem óhjákvæmilega hefur orðið við þessar aðstæður sem tímabundið bakslag – kaupmáttur launa núna er á sama stað og hann var í árslok 2020 – og brátt verði á ný hægt að sækja fram og bæta lífskjör almennings enn frekar. Hinn valkosturinn er að knýja fram ríflegar launahækkanir umfram framleiðni sem valda annarrar umferðar verðlagshækkunum og viðhalda þannig þrálátari og hærri verðbólgu en ella sem mun brjótast fram í enn hærra vaxtastig hér á landi á næstu árum.

Það er mestanpart undir okkur sjálfum komið hvaða leið við kjósum að fara.

Höfundur er ritstjóri Innherja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×