Innherji

Hluthafar stundum „fullfljótir að taka eigið fé út úr félögum,“ segir forstjóri Brims

Hörður Ægisson skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir að lykillinn að sterku sjávarútvegsfélagi sé að vera mikið eigið fé.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir að lykillinn að sterku sjávarútvegsfélagi sé að vera mikið eigið fé. Vísir/Vilhelm

Forstjóri og langsamlega stærsti eigandi Brims segist ekki vera fylgjandi því að nýta sterka fjárhagsstöðu sjávarútvegsrisans með því að ráðast í sérstakar aðgerðir til að greiða út umfram eigið fé félagsins til hluthafa. Skuldahlutfall Brims hefur sjaldan eða aldrei verið lægra en nú og handbært fé fyrirtækisins var um 20 milljarðar króna um mitt þetta ár.

„Mér finnst ekki óeðlilegt að fyrirtæki eins og Brim eigi stundum einhverja peninga og ég hef ekki verið hrifinn af svona endurkaupaáætlunum eða borga út [sérstakar arðgreiðslur] til hluthafa nema ef við sjáum enga möguleika á því að fyrirtækið geti vaxið frekar,“ sagði Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, á uppgjörsfundi félagsins sem fór fram eftir lokun markaða síðasta fimmtudag.

Á fundinum var Guðmundur spurður að því af hluthöfum hvort slíkar ráðstafanir kæmu til greina með hliðsjón af sterkum efnahagsreikningi félagsins. Bókfært eigið fé þess nemur um 422 milljónum evra, jafnvirði um 60 milljarða króna, og hefur hækkað um tæplega 85 milljónir evra frá því í ársbyrjun 2021.

Guðmundur sagðist vilja halda sig við þá arðgreiðslustefnu sem hefur verið rekin í félaginu í liðlega þrjátíu ár að greiða út á bilinu um 40 til 50 prósent af hagnaði hvers árs eftir skatta til hluthafa. Það væri þá hluthafa félagsins að breyta þeirri stefnu á aðalfundi ef vilji stæði til þess.

„Það er lykillinn að sterku sjávarútvegsfélagi,“ útskýrði Guðmundur jafnframt, að „hafa mikið eigið fé,“ og benti á að frystitogarar Brims væru um 30 ára gamlir og að nýr slíkur togari myndi kosta um 50 milljónir evra. Þá hafi félagið verið að skoða að ráðast í fjárfestingu á nýrri vinnslu á Vopnafirði, þar sem Brim rekur í dag uppsjávarvinnslu, og það myndi aldrei kosta undir 50 til 70 milljónum evra.

Mér finnst ekki óeðlilegt að fyrirtæki eins og Brim eigi stundum einhverja peninga og ég hef ekki verið hrifinn af svona endurkaupaáætlunum.

Þá sagðist Guðmundur einnig vera þeirrar skoðunar að honum þætti hluthafar á Íslandi um þessar mundir vera stundum „fullfljótir á sér að taka eigið fé út úr félögum. Þau verði að hafa sterkt eigið fé til að geta tekist á við hið óvænta. Mér finnst Brim vera vel tilbúið undir það,“ fullyrti Guðmundur, en hann fer með um 44 prósenta hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu í gegnum félögin ÚR og RE-13.

Markaðsvirði Brims, sem hefur hækkað um 73 prósent á undanförnum tólf mánuðum, nemur nú um 192 milljörðum króna. Gengi bréfa félagsins, sem stendur í 98 krónum á hlut, hækkaði verulega eftir að Hafrannsóknarstofnun ráðlagði síðasta haust veiðar á allt að 904 þúsund tonnum af loðnu fyrir komandi vertíð. Þá hefur félagið einnig notið góðs af háu afurðaverði á mörkuðum erlendis á undanförnum mánuðum.

Hlutabréfaverð Brims hefur hækkað um 73 prósent á síðustu tólf mánuðum. Heimild: Landsbankinn.

Tekjur Brims jukust um 42 milljónir evra á fyrri árshelmingi ársins og námu samtals 242 milljónum evra. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var 68 milljónir og jókst hann um 72 prósent frá sama tímabili árið 2021.

Fram kom í uppgjörstilkynningu félagsins að ástæða aukinna tekna og bættrar afkomu væri „umfangsmikil og góð loðnuvertíð, hagstæð verð á alþjóðamörkuðum og aukinn ávinningur af fjárfestingum félagsins undanfarin ár í skipum og aflaheimildum, hátæknibúnaði við vinnslu og sölufélögum.“

Guðmundur sagði reksturinn á fyrri hluta ársins hafa verið í samræmi við væntingar.

„Við sem störfum í sjávarútvegi vitum að sveiflur geta verið verulegar, bæði lýtur náttúran sínum lögmálum og þá breytast aðstæður á alþjóðamörkuðum hratt eins og við höfum séð á undanförnum árum. Loðnuvertíðin á árinu var góð sem hafði jákvæð áhrif á rekstur félagsins en á móti kemur að dregið var úr veiðiheimildum á þorski. Þá hefur stríð í Evrópu sem hófst í upphafi árs aukið kostnað í rekstri og haft áhrif á markaði fyrir afurðir okkar og aukið á óvissu.“

Þá nefndi Guðmundur að Brimi hefði brotið „gæfa til þess undanfarin ár að fjárfesta í skipum, aflaheimildum, hátæknibúnaði í vinnslu og í sölufélögum en þær fjárfestingar hafa gert okkur betur kleift að takast á við sveiflur og nýta tækifærin sem felast í breytingum.“

Úr fjárfestakynningu Brims fyrir uppgjör annars fjórðungs 2022.

Hann sagði góða eiginfjárstöðu gera Brim fært að halda áfram á þeirri leið að „fjárfesta til framtíðar í mikilvægustu hlekkjum í virðiskeðju félagsins.“ Eiginfjárhlutfall Brims stóð í 50,4 prósentum um mitt árið borið saman við 44 prósent í árslok 2020. Frá árinu 2015 hefur það að jafnaði verið á bilinu 42 til 62 prósent.

Handbært fé Brims hækkaði um 66 milljónir evra á fyrstu sex mánuðum ársins og var því um 143 milljónir evra í lok annars fjórðungs. Vaxtaberandi skuldir sjávarútvegsfyrirtækisins hafa lækkað verulega á undanförnum árum samhliða bættri afkomu. Það þýðir að skuldahlutfall félagsins – hreinar vaxtaberandi skuldir sem hlutfall af EBITDA – var aðeins 1,2 um mitt árið borið saman við 5,2 í árslok 2020.


Tengdar fréttir

Metár í útgreiðslum gæti skilað fjárfestum nálægt 200 milljörðum

Útlit er fyrir að arðgreiðslur og kaup íslenskra fyrirtækja í Kauphöllinni á eigin bréfum á næsta ári verði sögulega háar og geti samanlagt nálgast hátt í 200 milljarða króna. Það yrði þá tvöfalt meira en áætlað er að slíkar útgreiðslur til hluthafa félaganna hafi numið á árinu 2021, eða rúmlega 80 milljarðar, sem eru engu að síður þær mestu sem sést hafa frá endurreisn hlutabréfamarkaðarins eftir fjármálahrunið 2008.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×