Innherji

Ás­geir: Krónan töluð niður ef hún sveiflaðist jafn­mikið og evran

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir gerði grein fyrir 75 punkta vaxtahækkun peningastefnunefndar í morgun. 
Ásgeir gerði grein fyrir 75 punkta vaxtahækkun peningastefnunefndar í morgun.  Vísir/Vilhelm

Ef gengi íslensku krónunnar sveiflaðist jafn mikið og gengi evru gagnvart Bandaríkjadal hefur gert yrði eflaust skrifað um það í íslenskum fjölmiðlum og bent á hversu slæmur gjaldmiðill krónan væri. Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun.

Spurður um krónuna sagði seðlabankastjóri að hún hefði verið í mjög góðu jafnvægi allt þetta ár eftir smá óróa þegar Úkraínustríðið byrjaði. Hann benti jafnframt á að Seðlabankinn hefði ekki gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn svo mánuðum skiptir.

„Þótt hún hreyfist 1-2 prósent á mánuði myndu það ekki teljast stórar fréttir. Ef þú skoðar evru-dollarkrossinn, þar eru einhverjar hreyfingar,“ sagði Ásgeir og vísaði þar til þess hvernig gengi evrunnar hefur þróast gagnvart gengi Bandaríkjadals. Það hefur ekki verið lægra í um tuttugu ár.

„Ef það væru álíka hreyfingar á krónunni eins og eru á evrunni og dollar þá er ég ansi hræddur um að það væri skrifað um það í íslensk blöð hvað krónan væri slæmur gjaldmiðill, héldi ekki virði og svo framvegis.“

Í Peningamálum sem Seðlabankinn birti samhliða vaxtaákvörðuninni í morgun kom fram að gengi krónunnar hefði lækkað um 3 prósent gagnvart meðaltali gjaldmiðla helstu viðskiptalanda frá því maí en væri 3 prósent hærra en það var í upphafi árs.

„Gjaldeyrisviðskipti í tengslum við nýfjárfestingu hafa verið fremur lítil á síðustu mánuðum en kaup lífeyrissjóða á gjaldeyri hafa aukist. Hreint innflæði gjaldeyris vegna greiðslukortanotkunar hefur verið meira það sem af er sumri en það var á sama tíma í fyrra og framvirk sala á gjaldeyri er enn mikil,“ segir í Peningamálum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákvað í morgun að hækka vexti bankans um 0,75 prósentur og verða meginvextir bankans því 5,5 prósent. Þetta er fjórða vaxtahækkun bankans frá áramótum og hafa vextirnir það sem af er ári verið hækkaðir um samanlagt 3,5 prósentur. Meginvextir Seðlabankans hafa ekki verið hærri frá því í ágústmánuði árið 2016.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×