Innherji

Útlánavöxtur í hæstu hæðum, sýnir að hagkerfið „þolir hærra vaxtastig“

Hörður Ægisson skrifar
Ný útlán til atvinnulífsins, að frádregnum uppgreiðslum, eru meira en fjórfalt hærri á fyrstu sjö mánuðum ársins heldur en þau voru á öllu árinu 2021.
Ný útlán til atvinnulífsins, að frádregnum uppgreiðslum, eru meira en fjórfalt hærri á fyrstu sjö mánuðum ársins heldur en þau voru á öllu árinu 2021. Vísir/Vilhelm

Mikið útlánaskrið hjá bönkunum, einkum drifið áfram af nýjum lánum til fyrirtækja síðustu mánuði, er til marks um mikinn þrótt í hagkerfinu og ætti að treysta þá skoðun peningastefnunefndar að vextirnir þurfi að hækka enn meira, að mati hagfræðinga.

Hrein ný útlán innlánsstofnana námu 57 milljörðum í júlí – aðeins tvisvar áður, í bæði skiptin á þessu ári, hefur aukningin verið meiri frá því að Seðlabankinn byrjaði að halda utan um tölurnar 2013 – og frá áramótum er lánavöxturinn samtals um 346 milljarðar.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir við Innherja að þessar tölur um útlán bankanna sýni meðal annars að það sé góður gangur í atvinnuvegafjárfestingu.

„Peningastefnunefnd Seðlabankans, sem mun tilkynna um vaxtaákvörðun sína á morgun, mun vafalaust líta á þessu þróun jákvæðum augum, þar sem hún bendir til þess að hagkerfið þolir hærra vaxtastig,“ útskýrir Erna, og bætir við:

„Ég velti hins vegar fyrir mér hvort áhrifin af fyrri hækkunum, sem hafa verið mjög brattar að undanförnu, séu að fullu komnar fram. Þó tölurnar breyti því eflaust ekki hver endanleg vaxtahækkun verður tel ég að þær styðji við skoðun peningastefnunefndarinnar um að hækka þurfi vexti frekar, og að hagkerfið geti staðið undir þessu vaxtastigi.“

Meirihluti markaðsaðila gerir ráð fyrir því, samkvæmt könnun Innherja sem var gerð dagana 17. til 19. ágúst og sagt frá í fyrradag, að Seðlabankinn hækki vexti um 75 punkta eða meira á fundi nefndarinnar. Skiptar skoðanir eru á því hvort Seðlabankinn vilji eiga inni vaxtahækkanir fyrir komandi kjaraviðræður eða senda skýr skilaboð áður en viðræðurnar hefjast.

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun vafalaust líta á þessu þróun jákvæðum augum, þar sem hún bendir til þess að hagkerfið þolir hærra vaxtastig.

Nýjar tölur Seðlabanka Íslands um bankakerfið fyrir júlí, sem birtust í morgun, sýna áframhaldandi kraftmikinn vöxt í hreinum nýjum útlánum til atvinnufyrirtækja – mestu munaði þar um lán til iðnaðar, þjónustu og byggingastarfsemi – sem námu tæplega 30 milljörðum borið saman við 38 milljarða í mánuðinum þar á undan. Lánavöxturinn í júní var þá sá mesti sem mælst hefur hjá Seðlabankanum í einum mánuði.

Frá áramótum nemur uppsafnaðar útlánavöxtur bankanna til fyrirtækja samtals um 184 milljörðum króna. Ný útlán til atvinnulífsins, að frádregnum uppgreiðslum, eru meira en fjórfalt hærri á þessum sjö mánuðum heldur en þau voru á öllu árinu 2021.

Erna segir þetta vera áhugaverða þróun þótt hún þurfi ekki endilega að koma mjög á óvart.

„Atvinnuvegafjárfesting hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og má því segja að það sé uppsöfnuð fjárfestingarþörf í hagkerfinu til staðar. Þá héldu mörg fyrirtæki að sér höndum í heimsfaraldrinum, enda óvissan algjör á þeim tíma, sem þýðir að einhverjar fjárfestingar gætu hafa flust milli ára,“ bendir hún á.

„Okkur tókst vel að milda áhrif faraldursins á hagkerfið og þar af leiðandi var staða margra fyrirtækja góð, sem hefur lagt grunninn að kröftugri atvinnuvegafjárfestingu undanfarin misseri. Hins vegar hefur vaxtastig hækkað nokkuð skarpt að undanförnu og velti ég því fyrir mér hvort áhrifin eigi enn eftir að koma fram í útlánatölum og þar af leiðandi fjárfestingu,“ segir Erna.

Þá hefur stór hluti fyrirtækja, eins og Innherji fjallaði um í liðnum mánuði, komið út úr faraldrinum með afar sterka lausafjárstöðu eftir að hafa haldið að sér höndum í lántökum og fjárfestingu vegna óvissu í hagkerfinu á sama tíma og það varð mikil aukning í veltu í nær öllum atvinnugreinum.

Þessi staða, sem gæti núna verið grunnur að kröftugri atvinnuvegafjárfestingu og stutt þannig við hagvöxt að mati hagfræðinga, birtist í miklum vexti í innlánum atvinnufyrirtækja, annarra en fjármálafyrirtækja, einkum frá því á vormánuðum síðasta árs. Innlán fyrirtækja stóðu í 668 milljörðum króna í lok júlí og höfðu þá vaxið um liðlega 200 milljarða frá því í apríl 2021.

Aukningin í innlánum fyrirtækja, að stærstum hluta er um að ræða óbundin óverðtryggð innlán, á tímabilinu nemur því um 42 prósent, eða meira en 30 prósent að raunvirði.

Á sama tíma og bankarnir hafa verið að auka verulega við útlán sín til atvinnulífsins hefur hægt mjög á lánavextinum til fasteignakaupa hjá heimilum á síðustu mánuðum. Þar spilar bæði inn í að lífeyrissjóðirnir eru farnir að gera sig gildandi á íbúðalánamarkaði á nýjan leik, með því að bjóða oft og tíðum hagstæðari lánakjör en bankarnir, og þá hafa hækkandi vextir og þrengri lánaskilyrði gert heimilum erfiðara um vik að skuldsetja sig fyrir íbúðakaupum.

Hrein ný lán bankanna með veði í íbúð námu tæplega 17,6 milljörðum í júlí og stóðu nánast í stað á milli mánaða. Útlánavöxturinn, sem hefur verið fremur stöðugur síðustu mánuði, er einkum í óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum á meðan heimilin hafa á sama tíma verið að greiðu niður slík lán á breytilegum vaxtakjörum.

Í könnun Seðlabankans á fjárfestingaráformum fyrirtækja sem framkvæmd var í febrúar og mars á þessu ári benti til þess að þau áformi að auka við fjárfestingu sína í ár um liðlega 30 prósent að nafnvirði frá fyrra ári. Það er mun meiri aukning fjárfestingarútgjalda en kom fram í samsvarandi könnun bankans frá því í september. Niðurstöðurnar gefa til kynna að vöxtur verði í flestum atvinnugreinum en framlag fjármunamyndunar í ferðaþjónustu og flutningastarfsemi vegur þar hvað þyngst.

Þá virðist mönnunarvandi fyrirtækja og geta þeirra til að auka afköst sín hafa haldið áfram að versna. Samkvæmt sumarkönnun Gallup var hlutfall stjórnenda sem töldu fyrirtæki sitt skorta starfsfólk komið yfir helming og var það aðeins 0,1 prósentu lægra en hæsta gildi könnunarinnar árið 2007.

Í síðustu þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir tæplega fimm prósenta hagvexti í ár og að atvinnuvegafjárfesting muni aukast um nærri tíu prósent.

Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti úr 2 prósentum upp í 4,75 prósent það sem af er ári en næsta vaxtaákvörðun bankans er í lok ágúst. Í fundargerð peningastefnunefndar frá síðustu vaxtaákvörðun í júní kom fram að nefndin teldi líklegt að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga, sem mælist nú 9,9 prósent, hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.


Tengdar fréttir

Út­lána­skrið gæti hvatt Seðla­bankann enn frekar til að grípa fast í taumana

Kraftmikill útlánavöxtur bankanna í mars er enn eitt merkið um að efnahagsumsvif séu meiri en áður var búist við og því eru auknar líkur á því að Seðlabanki Íslands bregðist harkalega við aukinni verðbólgu á vaxtaákvörðunarfundi bankans í næstu viku. Þetta segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.