Innherji

Með „töluvert bolmagn til fjárfestinga“ eftir að innlánin ruku upp í faraldrinum

Stór hluti fyrirtækja virðist hafa komið út úr faraldrinum með afar sterka lausafjárstöðu eftir að hafa haldið að sér höndum í lántökum og fjárfestingu vegna óvissu í hagkerfinu á sama tíma og það varð mikil aukning í veltu í nær öllum atvinnugreinum.

Hörður Ægisson skrifar
Frá júní 2019 til júní 2022 hafa innlán fyrirtækja almennt aukist um 58 prósent en um 117 prósent í samgöngum og flutningum. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Stór hluti fyrirtækja virðist hafa komið út úr faraldrinum með afar sterka lausafjárstöðu eftir að hafa haldið að sér höndum í lántökum og fjárfestingu vegna óvissu í hagkerfinu á sama tíma og það varð mikil aukning í veltu í nær öllum atvinnugreinum.

Þessi staða, sem gæti núna verið grunnur að kröftugri atvinnuvegafjárfestingu og stutt þannig við hagvöxt að mati hagfræðinga, birtist í miklum vexti í innlánum atvinnufyrirtækja, annarra en fjármálafyrirtækja, einkum frá því á vormánuðum síðasta árs. Innlán fyrirtækja stóðu í 660 milljörðum króna í lok júní og höfðu þá vaxið um liðlega 192 milljarða frá því í apríl 2021.

Aukningin í innlánum fyrirtækja, að stærstum hluta er um að ræða óbundin óverðtryggð innlán, á tímabilinu nemur því um 41 prósent, eða meira en 30 prósent að raunvirði. Til samanburðar hafa innlán heimila, sem nema nú um 1.188 milljörðum króna, aukist um tæplega átta prósent að nafnvirði yfir sama skeið.

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, segir erfitt að álykta með afgerandi hætti hvað skýri þessa þróun.

„Að einhverju marki virðist þetta hins vegar endurspegla viðsnúning í hagkerfinu þar sem heimilin eru farin að ganga á sparnað sinn – sem jókst mikið fyrst í upphafi faraldursins – og fyrirtæki hafa tekið að fjárfesta í auknum mæli. Þá höfum við einnig séð fyrirtæki taka við keflinu af heimilum í útlánavexti að undanförnu sem að óbreyttu eykur um leið innlán þeirra til skamms tíma,“ útskýrir Konráð í samtali við Innherja.

Útlán banka til atvinnufyrirtækja í júní síðastliðnum námu ríflega 38 milljörðum króna og hafa aldrei verið meiri í einum mánuði frá því að Seðlabanki Íslands byrjaði að halda utan um tölurnar í byrjun árs 2013. Vöxturinn í nýjum útlánum, að frádregnum uppgreiðslum, til fyrirtækja hefur verið umtalsverður allt frá áramótum. Á seinni helmingi ársins 2021 námu þannig hrein ný útlán til fyrirtækja einungis 4 milljörðum króna samanborið við 154 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

„Hafa meira vaðið fyrir neðan sig“

Konráð rifjar upp að það hafi orðið hliðstæð þróun við upphaf síðustu efnahagsuppsveiflu þegar innlán fyrirtækja jukust hraðar en innlán heimila á árunum 2009 til 2013.

„Í kjölfarið kom svo aukin atvinnuvegafjárfesting og mikill hagvöxtur. Staðan nú er um margt gjörólík en það virðist að minnsta kosti víða vera töluvert bolmagn til fjárfestinga sem getur stutt við hagvöxt á næstu árum,“ að sögn Konráðs, sem veltir einnig upp þeim möguleika að stóraukin þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hafi átt sinn þátt í þessari þróun.

Samtímis lágu vaxtastigi á tímum farsóttarinnar – vextir Seðlabankans voru lækkaðir niður í 0,75 prósent – fóru heimilin að beina sparnaði sínum í auknum mæli til fjárfestinga í hlutabréfasjóðum og eins beint í skráðum félögum í Kauphöllinni, meðal annars með þátttöku í frumútboðum margra fyrirtækja. Þar má nefna Icelandair, Íslandsbanka, Síldarvinnsluna, Play, Ölgerðina og Nova en fjöldi einstaklinga sem eiga skráð hlutabréf hefur margfaldast frá árinu 2020.

Að einhverju marki virðist þetta endurspegla viðsnúning í hagkerfinu þar sem heimilin eru farin að ganga á sparnað sinn og fyrirtæki hafa tekið að fjárfesta í auknum mæli.

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Analytica, segist telja þann mikla vöxt sem hefur verið í innlánum fyrirtækja á síðustu misserum vera birtingarmynd uppgangs í atvinnulífinu frá því á síðasta ári.

„Ef við lítum á innlán einstakra atvinnugreina þá hafa þau til dæmis verið að aukast mikið í verslun en hún fór mjög vel út úr „kófinu“. Ferðaþjónustan gæti leynst í annarri þjónustu, að minnsta kosti að hluta, en líklega einnig sumpart í samgöngum og flutningum þar sem innlán hafa aukist mikið, bæði í fjárhæð og hlutfallslega. Innlán hafa einnig aukist mikið í iðnaði, sérstaklega fiskvinnslu þar sem gæti verið áhrif stórrar loðnuvertíðar og hás afurðaverðs,“ útskýrir Yngvi í samtali við Innherja.

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis.

Ef innlán eftir atvinnugreinum eru skoðuð nánar þá virðist einnig mega mögulega álykta sem svo, að mati Konráðs hjá Stefni, að fyrirtæki kjósi að halda á meira lausu fé en oft áður, með öðrum orðum að „hafa meira vaðið fyrir neðan sig,“ segir hann, og bætir við:

„Frá júní 2019 til júní 2022 hafa innlán fyrirtækja almennt aukist um 58 prósent en um 117 prósent í samgöngum og flutningum og 62 prósent í annarri þjónustu, sem er stærsti atvinnugreinaflokkurinn og inniheldur stóran hluta ferðaþjónustu. Það er því freistandi að álykta að fyrirtæki, einkum í ferðaþjónustu, hafi lært af faraldrinum og reyni að búa sig betur undir áföll,“ að sögn Konráðs.

Skuldir fyrirtækja aldrei verið minni

Yngvi bendir á að sé litið til útlána innlánsstofnana til atvinnufyrirtækja þá hafi þau verið að dragast saman að raungildi nánast samfellt frá árinu 2019 og skörp niðursveifla verður þegar faraldurinn skellur á í marsmánuði 2020. Þessi þróun verður á sama tíma og innlán fyrirtækja aukast stöðugt, einkum frá vorinu í fyrra þegar þau „taka mikinn kipp,“ segir Yngvi.

Skuldir atvinnufyrirtækja námu tæplega 82 prósentum sem hlutfall af landsframleiðslu í lok fyrsta ársfjórðungs á þessu ári og hafa á þann mælikvarða ekki verið lægri í að minnsta kosti nærri tvo áratugi.

Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem komu út í maí á þessu ári, er vikið að þessari stöðu og nefnt að þrátt fyrir efnahagssamdráttinn hafi skuldir fyrirtækja minnkað lítillega frá því fyrir faraldurinn og staða þeirra virðist betri en útlit var fyrir við upphaf farsóttarinnar. „Þótt þau fyrirtæki sem urðu fyrir mestum áhrifum af farsóttinni standi enn höllum fæti hefur rekstur fyrirtækja sem urðu fyrir minni áhrifum af faraldrinum í mörgum tilfellum gengið vel,“ segir í ritinu, og nefnt að innlán fyrirtækja hafi aukist í langflestum atvinnugreinum samhliða vaxandi veltu, einkum í þjónustufyrirtækjum.

Útlánavöxtur setur þrýsting á Seðlabankann

Útlánaaukning bankanna til atvinnulífsins á undanförnum mánuðum endurspeglar aukinn fjárfestingarvilja fyrirtækja eftir faraldurinn og þá segjast æ fleiri fyrirtæki skorta starfsfólk og erlendu vinnuafli fjölgar sömuleiðis hratt.

Í könnun Seðlabankans á fjárfestingaráformum fyrirtækja sem framkvæmd var í febrúar og mars á þessu ári benti til þess að þau áformi að auka við fjárfestingu sína í ár um liðlega 30 prósent að nafnvirði frá fyrra ári. Það er mun meiri aukning fjárfestingarútgjalda en kom fram í samsvarandi könnun bankans frá því í september. Niðurstöðurnar gefa til kynna að vöxtur verði í flestum atvinnugreinum en framlag fjármunamyndunar í ferðaþjónustu og flutningastarfsemi vegur þar hvað þyngst.

Ef innlán eftir atvinnugreinum eru skoðuð nánar þá virðist einnig mega mögulega álykta sem svo að fyrirtæki kjósi að halda á meira lausu fé en oft áður.

Þá virðist mönnunarvandi fyrirtækja og geta þeirra til að auka afköst sín hafa haldið áfram að versna. Samkvæmt sumarkönnun Gallup var hlutfall stjórnenda sem töldu fyrirtæki sitt skorta starfsfólk komið yfir helming og var það aðeins 0,1 prósentu lægra en hæsta gildi könnunarinnar árið 2007.

Í síðustu þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir tæplega fimm prósenta hagvexti í ár og að atvinnuvegafjárfesting muni aukast um nærri tíu prósent.

Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti úr 2 prósentum upp í 4,75 prósent það sem af er ári en næsta vaxtaákvörðun bankans er í lok ágúst. Í fundargerð peningastefnunefndar frá síðustu vaxtaákvörðun í júní kom fram að nefndin teldi líklegt að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga, sem mælist nú 9,9 prósent, hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.

Þegar bera fór á auknum útlánum til fyrirtækja í mars sagði sérfræðingur í markaðsviðskiptum Arion banka að útlánaskrið væri merki um að efnahagsumsvif væru meiri en áður var búist við. Þar af leiðandi væru auknar líkur á því að Seðlabankinn myndi bregðast harkalega við til að ná niður verðbólgu.


Tengdar fréttir

Hægt hefur á vexti peningamagns

Hægt hefur á vexti peningamagns það sem af er ári eftir kraftmikinn vöxt á seinni hluta síðasta árs. Þetta kom fram í nóvemberhefti Peningamála, sem er gefið út af Seðlabankanum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.