Innherji

Út­lána­skrið gæti hvatt Seðla­bankann enn frekar til að grípa fast í taumana

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. 
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.  vísir/vilhelm

Kraftmikill útlánavöxtur bankanna í mars er enn eitt merkið um að efnahagsumsvif séu meiri en áður var búist við og því eru auknar líkur á því að Seðlabanki Íslands bregðist harkalega við aukinni verðbólgu á vaxtaákvörðunarfundi bankans í næstu viku. Þetta segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.

„Það verður að viðurkennast að þeir hlutar hagkerfisins sem Seðlabankinn hefur áhrif á eru á ansi hraðri siglingu og þess vegna bregst Seðlabankinn líklega harkalega við í næstu viku,“ segir Stefán Broddi.

Nýjar tölur Seðlabanka Íslands fyrir marsmánuð sýna að hrein ný útlán íslenskra innlánsstofnana hafa aldrei verið jafnmikil í einum mánuði frá því að Seðlabankinn byrjaði að halda utan um tölurnar í byrjun árs 2013.

Ný útlán fjármálastofnana, að frádregnum uppgreiðslum, námu tæplega 61 milljarði króna í mars samanborið við nærri 35 milljarða í febrúar. Sundurliðun á tölunum sýnir að hrein ný útlán til atvinnufyrirtækja námu 28 milljörðum króna í mars samanborið við 16 milljarða í febrúar. Hefur vöxturinn í fyrirtækjalánum ekki verið meiri frá því í ágúst 2018.

Því miður er hætt við að Seðlabankinn túlki þetta sem svo að núverandi peningalegt aðhald dugi ekki til, heldur þurfi að herða skrúfuna enn meira

Stefán Broddi segir að tölur fyrir einn mánuð segi takmarkaða sögu en bendir jafnframt á að mikill kraftur hafi verið í útlánum síðustu mánuði.

„Ég álykta þess vegna að fjárfesting fyrirtækja sé að taka við sér nú þegar við erum að komast í gegnum COVID-skaflinn, bókanastaða í ferðaþjónustu að styrkjast og vel gengur í öðrum útflutningsgreinum,“ segir Stefán Broddi.

„Flestar hagstærðir að undanförnu bera með sér mikil umsvif og meiri heldur en reiknað var með. Þannig hafa spár um atvinnuvegafjárfestingu hækkað, kortanotkun landsmanna bendir til mikillar einkaneyslu og fleira í þeim dúr.“

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka. 

Kraftmikill útlánavöxtur í bankakerfinu kemur á sama tíma og hið opinbera er rekið með halla en Stefán Broddi segir að hallareksturinn sé til þess fallinn að auka þensluna enn frekar og um leið samkeppni um lánsfjármagn.

„Ég held að þetta sé frekar viðkvæmt ástand og hætt við að frekara peningalegt aðhald og hækkun á ávöxtunarkröfu á markaði vegna samkeppni um krónurnar leiði til minni fjárfestingar og einkaneyslu en ella. Því miður er hætt við að Seðlabankinn túlki þetta sem svo að núverandi peningalegt aðhald dugi ekki til, heldur þurfi að herða skrúfuna enn meira,“ segir hann.

Fleiri viðskipti og hærra verð gætu skýrt íbúðalánavöxtinn

Seðlabanki Íslands hefur brugðist við hækkandi verðbólgu og versnandi verðbólguhorfum með því að hækka vexti úr 0,75 prósentum í 2,75 prósent frá því um vorið 2021. Verðbólgan, sem mælist nú 6,7 prósent, hefur einkum verið drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði sem er upp um 22,5 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Samkvæmt tölum Seðlabankans námu hrein ný íbúðalán 16 milljörðum króna í mars samanborið við tæpa 10 milljarða króna í febrúar. Karlotta Halldórsdóttir, samskiptastjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, segir að töluverð hækkun á fasteignaverði í mars eigi líklega sinn þátt í auknum útlánavexti milli mánaða.

„Það eru líka vísbendingar um að það hafi verið aukning í kaupsamningnum milli febrúar og mars. Við sjáum að það var töluvert stökk milli mánaða í fjölda íbúða sem voru teknar úr birtingu af fasteignavefnum – það bendir til að fasteign hafi verið seld – þannig það gæti verið möguleg skýring, að það séu fleiri kaupsamningar í mars,“ segir Karlotta.

Útlánavöxtur til fasteignakaupa í mars var hins vegar ekki mikill ef hann er settur í samhengi við þróunina síðustu tvö ár. Karlotta bendir á vöxturinn hafi verið meiri í hverjum einasta mánuði síðasta árs og einnig megnið af árinu 2020. „Mars í fyrra var til að mynda mjög stór mánuður, þar voru íbúðalán bankastofnanna til heimilanna næstum því 70 prósentum hærri en núna í mars.“

Staðan er þó enn slík að langmest er hlutfallslega tekið af óverðtryggðum lánum.

Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, bendir á að tölur Seðlabankans sýni lítillega aukningu í veitingu verðtryggðra lána á föstum vöxtum. Hrein ný útlán af því tagi námu um 3,5 milljörðum króna, sem er mesti vöxturinn í einum mánuði frá því í desember 2016.

„Það gæti verið því slík lán henta mörgum betur, greiðslubyrði er almennt lægri en á óverðtryggðum lánum. Staðan er þó enn slík að langmest er hlutfallslega tekið af óverðtryggðum lánum. Yfir helmingur af öllum útistandandi íbúðalánum eru nú óverðtryggð sem er mikil breyting frá því sem var áður en Seðlabankinn hóf að lækka vexti við upphaf faraldursins. Fyrir faraldurinn var hlutfallið innan við 30 prósent,“ segir Una.


Tengdar fréttir

Seðlabankinn „full bjartsýnn“ á þróun fasteignaverðs

Efasemdir eru um hvort hertar kröfur Seðlabanka Íslands um veðsetningu og greiðslubyrði lántaka muni hafa afgerandi áhrif á þróun fasteignaverðs. Viðmælendur Innherja benda á að heimilin geti hæglega breytt lánaformi úr óverðtryggðu í verðtryggt til að minnka greiðslubyrðina og þannig dregið úr tilætlaðri virkni aðgerðanna. Auk þess sé framboðsskortur á húsnæði svo alvarlegur að hertar kröfur dugi skammt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×