Viðskipti innlent

Átt­fætla fannst í víni

Árni Sæberg skrifar
Sancerre frá Franck Millet er að mati blaðamanns eðalvín, allavega þegar það er laust við áttfætlur.
Sancerre frá Franck Millet er að mati blaðamanns eðalvín, allavega þegar það er laust við áttfætlur. Vísir

Hvítvínið Sancerre af árganginum 2021 frá Domaine Franck Millet hefur verið innkallað eftir að áttfætla fannst í flösku af víninu.

Coca Cola Europacific Partners, sem flytur vínið inn, hefur ákveðið að stöðva sölu vínsins og innkalla það, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Einungis flöskur með lotunúmerið L4021 hafa verið innkallaðar. Númerið er að finna á bakhlið flöskunnar.

Neytendur sem keypt hafa vínið eru beðnir um að neyta þess ekki og farga því eða skila til verslunarinnar þar sem hún var keypt gegn endurgreiðslu.

Að sögn Áka Sveinssonar hjá CCEP hefur fyrirtækið hrundið af stað ítarlegri rannsókn á orsökum þessa tilviks meðal annars í samráði við framleiðanda vörunnar og með því að leita til Náttúrufræðistofnunar til að fá úr því skorið hvað þetta er og hver uppruninn er.

„Matvælaöryggi og gæði eru forgangsmál hjá Coca-Cola Europacific Partners (CCEP) og leggjum við ofurkapp á að uppfylla ströngustu gæðakröfur og gæðastaðla sem þekkjast í matvælaframleiðslu, bæði innalands og alþjóðlega, og viljum helst gera enn betur en þar er kveðið á um. CCEP er leiðandi á Íslandi hvað varðar gæðastaðala, úttektir og stefnur og vinnur undir ströngu eftirliti hvað varðar gæði og matvælaöryggi,“ segir hann í skriflegu erindi til Vísis.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.