Innherji

Valitor komið á réttan kjöl eftir heljarinnar átak í miðjum heimsfaraldri

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Herdís Dröfn Fjeldsted, fráfarandi forstjóri Valitor. 
Herdís Dröfn Fjeldsted, fráfarandi forstjóri Valitor. 

Viðamikil endurskipulagning á Valitor kom greiðslumiðlunarfyrirtækinu á réttan kjöl eftir áralangan taprekstur. Herdís Dröfn Fjeldsted, sem lætur af störfum um næstu mánaðamót, segir að sala á erlendri starfsemi, veruleg hagræðing á öllum sviðum og markviss stefnumótun hafi lagt grunninn að farsælli umbreytingu á rekstrinum.

Þegar Herdís, þá varaformaður stjórnar Arion banka, eiganda Valitor, var skipuð stjórnarformaður greiðslumiðlunarfyrirtækisins í október 2019, hafði grunnreksturinn verið óarðbær um nokkurra ára skeið þótt sala á hlutabréfum í VISA Europe hafi skilað hagnaði á árinu 2016.

Herdís, sem hafði mikla reynslu af endurskipulagningu fyrirtækja eftir að hafa verið framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, var ráðin forstjóri í mars 2020.

„Þegar ég hóf störf unnu nánast allir starfsmenn að heiman vegna þeirra aðstæðna sem uppi voru í tengslum við heimsfaraldurinn. Ég hafði hins vegar tækifæri til að hitta starfsmenn á fjarfundum,“ segir Herdís.

„Á þeim tíma voru stöður fjármálastjóra og rekstrarstjóra ómannaðar. Ég kynntist fljótt öflugu starfsfólki innan Valitor og var ráðið í stöðurnar innanhús. Fyrstu verkefnin snérust um að mynda teymi í kringum endurskipulagninguna. Valitor bjó, og býr enn yfir, gríðarlega öflugu og faglegu starfsfólki.“

Nýir stjórnarmenn, þeirra á meðal Þór Hauksson stjórnarformaður sem hafði starfað með Herdísi hjá Framtakssjóði Íslands, og stjórnendur Valitor voru einhuga um að ráðast þyrfti í róttækar breytingar á stefnu félagsins. Það var, að hennar sögn, grundvallaratriði í því að snúa rekstri félagsins við á sama tíma og heimsfaraldurinn hafði veruleg áhrif.

Þegar ég hóf störf unnu nánast allir starfsmenn að heiman vegna þeirra aðstæðna sem uppi voru í tengslum við heimsfaraldurinn.

„Heimsfaraldurinn var að byrja, veltan var að dragast saman og við þurftum að vera snögg að snúa rekstrinum við,“ segir hún. Eitt stærsta og brýnasta verkefnið var að selja erlenda starfsemi Valitor í Danmörku og Bretlandi.

„Valitor tapaði 9,5 milljörðum króna á árinu 2019. Starfseminni fylgdi mikill rekstrarkostnaður og Valitor var ekki að sjá þann vöxt raungerast sem stefnt var að meðal annars í Danmörku og Bretlandi. Til viðbótar ákvað stór viðskiptavinur að verða eigin færsluhirðir með tilheyrandi áhrifum á veltu Valitor,“ segir Herdís.

„Við íhuguðum alvarlega að leggja starfsemina í Danmörku einfaldlega niður. Okkur tókst þó að selja – það hefði verið dýrara að leggja félagið niður en að afhenda það frá okkur – en við fengum engan hagnað út úr því. Sama með dótturfélagið í Bretlandi.“

Danska félagið var selt í byrjun maí 2020 og mánuði síðar náðust samningar um sölu á breska félaginu. Rekstrarvandi Valitor einskorðaðist þó ekki við erlendu starfsemina. Herdís segir að yfirbyggingin á félaginu hafi verið of mikil, boðleiðir innan fyrirtækisins of margar og stefna þess hvorki nógu skýr né arðbær.

„Samþættingu og einföldun var náð meðal annars með því að stytta boðleiðir, fækka umtalsvert kerfum í notkun á öllum sviðum fyrirtækisins og hagrætt verulega í aðkeyptri þjónustu við bæði þróun og rekstur. Til viðbótar þróaði Valitor lausnir til að þjónusta viðskiptavini í stað þess að vera háð þriðja aðila.“

Skrifstofuhúsnæðið á Íslandi var minnkað úr 4 þúsund fermetrum niður í 2 þúsund ásamt því að hagræða verulega í húsnæði erlendis.

Til marks um umfangið minnkuðu rekstrargjöld samstæðunnar úr 9 milljörðum króna í 4,7 milljarða á milli áranna 2019 og 2021, eða um 48 prósent, og starfsmönnum fækkaði úr 404 niður í 198.

Samhliða hagræðingunni var ráðist í stefnumótun sem fylgt var eftir með OKR markmiðasetningu fyrir hvern ársfjórðung. „Rekstur félagsins varð miklu einfaldari og skýrari, þ.e.a.s. hvert við stefndum, hvaða lausnir og þjónustu við erum að selja og svo framvegis,“ segir Herdís.

Árangur endurskipulagningarinnar endurspeglast meðal annars í því að Valitor hagnaðist um 627 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er tuttuguföldun frá sama árshelmingi í fyrra og megnið má rekja til annars ársfjórðungs. Þá jukust tekjur félagsins úr 2,4 milljörðum króna í 3,0 milljarða miðað við sama tímabil í fyrra.

Arion banki gekk frá sölu á Valitor til fjártæknifyrirtækisins Rapyd fyrir 14,6 milljarða króna í byrjun júlí. Ef kaupin hefðu gengið í gegn óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75 prósent fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum.

Samkvæmt samkomulagi við Samkeppniseftirlitið var safn viðskiptasamninga, sem saman mynda um 25 prósenta hlutdeild á markaðinum fyrir færsluhirðingu hér á landi, selt til Kviku banka sem ætlar að hasla sér völl á markaðinum.

„Sameinað félag verður áfram mjög sterkt á Íslandi en vaxtartækifærin eru ekki síður erlendis,“ segir Herdís.

Valitor á enn eitt dótturfélag í Bretlandi og þjónustar fyrirtæki í 33 Evrópulöndum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.