Viðskipti innlent

Deila Íslands og Iceland Foods brýtur blað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sviss styður Ísland gegn Iceland Foods.
Sviss styður Ísland gegn Iceland Foods. Vísir

Fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins hefur fyrirskipað að haldinn verði munnlegur málflutningur í deilu íslenskra yfirvalda og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods um yfirráð yfir orðinu Iceland. Deilan brýtur blað í sögu hinnar fjölskipuðu áfrýjunarnefndar þar sem þetta verður í fyrsta sinn sem nefndin hlýðir á munnlegan málflutning í áfrýjunarmáli.

Líkt og Vísir fjallaði um á síðasta ári er áralangri deilu íslenskra yfirvalda og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods ekki lokið. Í afar stuttu máli snýst deilan um það hvort að fyrirtæki geti slegið eign sinni á nafn fullvalda ríkis.

Árið 2019 ógilti Hugverkastofa Evrópusambandisns (EUIPO) vörumerkjaskráningu bresku verslunarkeðjunnar á orðinu Iceland innan Evrópusambandsins. Verslunarkeðjan áfrýjaði úrskurðinum til kærunefndar EUIPO. Hún vísaði málinu til sérstakrar fjölskipaðrar áfrýjunarnefndar stofnunarinnar. Krefst verslunarkeðjan þess að úrskurði EUIPO í málinu frá 2019 verði vísað frá.

Besta leiðin fyrir deiluaðila til að kynna sín sjónarmið

Bæði íslensk yfirvöld og Iceland Foods hafa skilað inn greinargerðum og gögnum vegna málsins. Í vor tók fjölskipaða áfrýjunarnefndin fyrir beiðni Iceland Foods um að munnlegur málflutningur færi fram í málinu. Íslensk yfirvöld höfðu einnig tekið undir beiðni Iceland Foods.

Í niðurstöðu fjölskipuðu áfrýjunarnefndarinnar segir að nefndin telji að með munnlegum málflutningi megi betur ná utan um staðreyndir málsins og þau sjónarmið sem deiluaðilar telji að eigi við. Báðir aðilar fái með því gott svigrúm til að kynna röksemdir sínar sem og spyrja þá sérfræðinga sem kallaðir verða til spjörunum úr.

Málflutningurinn fer fram í höfuðstöðvum EUIPO í Alicante á Spáni þann 9. september næstkomandi.

Í tilkynningu á vef EUIPO segir að þetta sé í fyrsta skipti sem munnlegur málflutningur verður haldinn í áfrýjunarmáli sem hin fjölskipaða áfrýjunarnefnd tekur fyrir.


Tengdar fréttir

Íslandi barst liðsauki frá Sviss í deilunni gegn Iceland Foods

Svissnesk samtök sem hafa það hlutverk að vernda orðspor þarlendrar framleiðslu hafa komið Íslandi til stuðnings í deilunni við bresku verslunarkeðjuna Iceland Foods. Framkvæmdastjóri samtakanna telur líklegt að deilan muni á endanum fara fyrir Evrópudómstólinn.

Er hægt að eignast vörumerkið Jamaíka og selja ís undir því nafni?

Eitt af þeim álitaefnum sem fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) þarf að taka afstöðu til í deilu Íslands og verslunarkeðjunnar Iceland Foods er hvort að ásættanlegt sé að selja banana undir nafni Íslands eða ís undir nafni Jamaíku.

Deilu Íslands og Iceland Foods ekki lokið

Deilu íslenskra yfirvalda og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods um yfirráð yfir orðinu Iceland er ekki lokið. Fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) er með málið til umfjöllunar eftir að breska verslunarkeðjan áfrýjaði á síðasta ári úrskurði sem féll Íslandi í vil árið 2019.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.