Viðskipti innlent

Opin allan sólarhringinn og enginn á vaktinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
NÆR stendur við Urriðaholtsstræti í Garðabæ.
NÆR stendur við Urriðaholtsstræti í Garðabæ.

Fyrsta alsjálfvirka hverfisverslun landsins var opnuð í Garðabæ í morgun. Verslunin verður opin allan sólarhringinn, alla daga ársins. Framkvæmdastjóri segir opnunina marka upprisu gömlu hverfisverslananna.

Snjallar lausnir í innkaupum hafa rutt sér til rúms hér á landi síðustu ár. Krónan býður til að mynda upp á hið svokallaða Skannað og skundað. En verslun NÆR við Urriðaholtsstræti er sú fyrsta á Íslandi sem byggir eingöngu á snjalltækni.

Fyrirkomulagið er algjörlega rafrænt. Sérstöku smáforriti er hlaðið niður í símann og til að komast inn í búðina er QR-kóði skannaður. Viðskiptavinir komast þannig inn í búðina allan sólarhringinn með appið og QR-kóðann að vopni - en engir starfsmenn standa þar vaktina við afgreiðslustörf.

Reyndar verða starfsmenn til aðstoðar í búðinni fyrstu vikurnar og þá verður starfsmaður á vakt hluta úr degi til að sinna hefðbundinni umhirðu búðarinnar; taka á móti vörum og fylla á hillur. 

En þegar komið er inn í búðina er áfram smáforritið sem gildir. Eins og í Krónunni skannar viðskiptavinurinn strikamerkið á vörunum inni í appinu, greiðir þar fyrir vörurnar og yfirgefur svo búðina.

Þórður Örn Reynisson, framkvæmdastjóri NÆR.

Þórður Örn Reynisson framkvæmdastjóri NÆR segir þetta upprisu „hverfisverslunarinnar“, sem meðal annars eigi sér fyrirmynd í bandarísku keðjunni Amazon GO.

„Það var mjög dýrt að koma upp svoleiðis verslun á Íslandi, sérstaklega fyrir hverfisverslun þannig að við ákváðum að fara sambærilegar leiðir og aðrir á Norðurlöndum hafa verið að gera. Og það hefur reynst rosalega vel, bæði í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.“

En skilar tæknivæðingin og starfsmannaleysið sér í vasa neytenda? Erfitt að segja, segir Þórður.

„En verðlega séð erum við mjög vel verðlögð miðað við stærð á verslun og það að við stöndum ein á bak við þetta. Við erum ekki hluti af neinni keðju heldur er þetta bara ný keðja.“

Aðstandendur NÆR hafa jafnframt kortlagt höfuðborgarsvæðið - og ef allt gengur eftir munu fleiri snjallar verslanir spretta upp kollinum inni í hverfum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.