Formúla 1

Hómófóbía og kynþáttafordómar í F1

Atli Arason skrifar
Formúla eitt í Barein 
Formúla eitt í Barein  EPA-EFE

Lið Aston Martin í Formúlu 1 gaf út yfirlýsingu fyrir helgi þar liðið segist ekki hafa neina þolinmæði fyrir mismunun á vinnustað sínum. Kom yfirlýsingin í kjölfar lýsingu starfsmanns á andlegu ofbeldi sem hann varð fyrir.

Aidan Louw, fyrrum starfsmaður á verkstæði Aston Martin, greinir frá því í viðtali við Sky Sports hvernig hann varð fyrir fordómum bæði vegna samkynhneigðar og vegna kynþáttar.

„Áður en ég labbaði á vinnustaðinn þá var ég látin vita af því að menn töluðu með öðrum hætti á þessum vinnustað og ég ætti ekki að láta það vera vandamál,“ sagði Louw í viðtalinu.

Louw, sem hefur ættir að rekja til Suður-Afríku, lýsir því meðal annars að samstarfsaðilar sínir hafi ítrekað reynt að niðurlægja sig og brjóta sig niður.

„Ég sagði samstarfsmanni frá því að ég hefði átt kærasta á unglingsárum og það var nóg, á þessari sekúndu breyttist allt. Um leið og þau komust yfir þessar upplýsingar þá voru þau stanslaust að reyna að niðurlægja mig sem einstakling og manneskju,“ sagði Louw.

Aston Martin gaf út á föstudaginn að umræddir aðilar væru ekki lengur starfandi hjá liðinu. Forráðamenn Aston Martin sögðu jafnframt við The Race að Louw starfaði aðeins í fimm vikur fyrir liðið vegna lélegra mætingar í vinnu. Louw tekur undir þetta en segir lélega mætingu vera vegna slæms andrúmslofts á vinnustaðnum

Fordómar virðast algengir í akstursíþróttinni en Formúla 1 hefur undanfarið verið að reyna að eyða fordómum úr íþróttinni. ökuþórinn Lewis Hamilton hefur verið duglegur að láta í sér heyra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×