Viðskipti erlent

Twitter í betri stöðu en samkomulag talið líklegt

Samúel Karl Ólason skrifar
Virði hlutabréfa Twitter hefur lækkað mikið í dag.
Virði hlutabréfa Twitter hefur lækkað mikið í dag. Getty/Michael M. Santiago

Lagasérfræðingar vestanhafs segja samfélagsmiðlafyrirtækið Twitter vera með yfirhöndina gegn auðjöfrinum Elon Musk. Hann tilkynnti fyrir helgi að hann ætlaði að hætta við að kaupa samfélagsmiðilinn, þrátt fyrir að hafa skrifað undir kaupsamning upp á 44 milljarða dala.

Það samsvarar rúmlega sex billjónum íslenskra króna.

Virði hlutabréfa Twitter hefur hríðfallið eftir tilkynningu Musks, samkvæmt frétt CNBC.

Kaupsamningurinn felur í sér að Musk greiði 54,2 dali fyrir hvern hlut í Twitter. Virði hlutabréfa Twitter stendur nú (klukkan þrjú) í 34,2 dölum á hlut. Þá hefur virði Twitter lækkað um tæplega sjö prósent.

Musk lýsti því yfir fyrir helgi að forsvarsmenn Twitter hefðu ekki orðið við kröfum hans um gögn og upplýsingar um raunverulegan fjölda falskra reikninga og svokallaða botta. Hann sagðist þurfa þær upplýsingar til að meta raunverulegt verðmæti Twitter.

Forsvarsmenn Twitter sögðust hins vegar hafa orðið við öllum hans kröfum og að þeir myndu höfða mál gegn Musk. Auðjöfurinn nefndi einnig að tveimur háttsettum starfsmönnum Twitter hefði verið sagt upp, án samráðs við sig eins og kaupsamningurinn segir til um.

Staða Twitter sögð sterk

Sérfræðingar sem ræddu við fréttaveituna Reuters segja Twitter í betri stöðu en Musk, lagalega séð. Deilur sem þessar endi samt oftar en ekki á samningum eða bótum. Það sé í flestum tilfellum metin betri laun sen langvarandi og kostnaðarsöm réttarhöld.

Washington Post segir forsvarsmenn Twitter þó tilbúna í réttarhöld og þeir hafi ráðið stóra lögmannastofu frá New York vegna málsins. Lögmenn stofunnar Wachtell, Lipton, Rosen & Katz LLP sérhæfa sig í lögum um samruna fyrirtækja og eru sagðir ætla að leggja fram kæru í Delaware og mögulega strax í þessari viku.

Stjórn Twitter barðist upprunalega gegn yfirtöku Musks en samþykkti svo kauptilboð hans í apríl. Skömmu eftir það gaf Musk í skyn óánægju sína með áðurnefnd gögn frá Twitter og voru uppi efasemdir um að hann ætlaði sér að standa við samninginn.


Tengdar fréttir

Musk vill hætta við en Twitter ætlar í mál

Auðjöfurinn Elon Musk segir að hann vilji hætta við að kaupa samfélagsmiðilinn Twitter á 44 milljarða dala. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast ætla að höfða mál gegn Musk og segjast vongóðir um að þeir muni bera sigur úr bítum.

Kaup Musks á Twitter sögð „í hættu“

Kaup auðjöfursins Elons Musk á samfélagsmiðlinum Twitter eru sögð í hættu. Musk heldur því fram að ekki sé hægt að sannreyna tölur Twitter um fjölda falskra reikninga og svokallaðra botta á samfélagsmiðlinum og er auðjöfurinn sagður vera hættur viðræðum um fjármögnun kaupanna.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.