Innherji

Controlant fengið 24 milljarða greidda fyrirfram frá lyfjarisanum Pfizer

Hörður Ægisson skrifar
Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður félagsins, og Gísli Herjólfsson forstjóri Controlant.
Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður félagsins, og Gísli Herjólfsson forstjóri Controlant.

Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant, sem hefur gegnt lykilhlutverki í dreifingu og geymslu bóluefnaskammta gegn Covid-19 fyrir Pfizer, er með samkomulag við bandaríska lyfjarisann sem hefur tryggt félaginu verulegar fyrirfram innheimtar tekjur. Í árslok 2021 námu slíkar tekjur tengdar samningum við Pfizer um 174 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 24 milljarða íslenskra króna, og koma þær að mestu inn í reksturinn á þessu ári og því næsta.

Þetta var á meðal þess sem kom fram á aðalfundi Controlant í lok síðasta mánaðar en tekjur félagsins, sem tífölduðust í fyrra og námu 68 milljónum dala, munu halda áfram að vaxa mikið og verða nálægt 180 milljónum dala á árinu 2023. Ef einskiptistekjur vegna samningsins við Pfizer eru einnig teknar með í reikninginn þá munu tekjurnar, samkvæmt áætlunum Controlant, hins vegar nema vel yfir 250 milljónum dala á næsta ári.

Gert er ráð fyrir aðlagaður rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) verði um 120 milljónir dala á árinu 2022 sem er fimmföld aukning frá því á liðnu ári þegar EBITDA félagsins var um 24 milljónir dala.

Fyrirfram innheimtar tekjur Controlant í tengslum við samkomulagið við Pfizer eru bókfærðar sem skammtímaskuld í nýbirtum ársreikningi félagsins. Þar segir einnig að samningarnir fela í sér að Pfizer greiðir Controlant fyrirfram fyrir þjónustu sem félagið nýtir til að fjárfesta í rekstrarfjármunum til að tryggt sé að það geti alltaf verið í stakk búið til að veita þá þjónustu sem bandaríska lyfjafyrirtækið fer fram á á hverjum tíma. Í fyrra kom Controlant að dreifingu og geymslu um 3,5 milljarða bóluefnaskammta frá Pfizer.

Gengi í viðskiptum með óskráð bréf í Controlant, sem er að miklum meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta, hækkaði talsvert eftir að hluthafafundi félagsins lauk 22. júní síðastliðinn. Samkvæmt heimildum Innherja voru þannig dæmi um nokkuð umfangsmikil viðskipti með bréf félagsins á gengi í kringum 13.500 krónur á hlut – hlutafé Controlant er núna rúmir 6.050 milljónir hluta að nafnvirði – sem verðmetur fyrirtækið því á samtals um 82 milljarða króna.

Miklar verðhækkanir voru á gengi bréfa félagsins á liðnu ári. Markaðsvirði félagsins hækkaði þá um nærri fimmfalt – var komið í nálægt 100 milljarða um tíma – og dæmi voru um viðskipti með bréf á genginu 15 þúsund krónur á hlut í desember í fyrra. Hlutabréfaverð félagsins lækkaði hins vegar skarpt á fyrstu mánuðum þessa árs, samhliða miklum óróa á verðbréfamörkuðum hér heima og erlendis sem hafði einkum áhrif á vaxtar- og tæknifyrirtækja á borð við Controlant, og fór lægst niður í um 9 þúsund krónur á hlut, eftir því sem Innherji kemst næst.

Á aðalfundi Controlant kom einnig fram, eins og sagt var frá í tilkynningu sem félagið sendi frá sér eftir fundinn, að erlendir fjárfestar hafi í auknum mæli sýnt því áhuga. Það væri mat stjórnar og stjórnenda Controlant að aðkoma sérhæfðra fjárfesta geti stutt enn frekar við framtíðaruppbyggingu félagsins og skapað ávinning til framtíðar fyrir alla hluthafa þess. Stjórn Controlant muni því áfram meta þá möguleika sem eru fyrir hendi á hverjum tíma.

Vöxtur Controlant hefur verið ævintýralegur á síðustu misserum en fyrirtækið þróaði hugbúnað og vélbúnað til veita þjónustu með sérstaka áherslu á alþjóðleg lyfjafyrirtæki til að minnka áhættu og sóun í aðfangakeðjunni. Starfsemi félagsins fer að stærstum hluta fram á Íslandi – um 300 af 370 starfsmönnum Controlant eru staðsettir hér á landi – en tekjurnar koma nánast einvörðungu frá alþjóðlegum viðskiptavinum.

Auk Pfizer eru mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims meðal viðskiptavina Controlant og hafa gert langtímasamninga um innleiðingu á lausnum félagins. Controlant þjónustar einnig fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum, meðal annars matvælaiðnaði og flutningum, auk fjölda viðskiptavina á Íslandi.

Controlant varði yfir 15 prósentum af tekjum síðasta árs í rannsóknir og þróun eða um 1,4 milljörðum króna.

Hluthöfum Controlant fjölgaði um eitt hundrað á síðasta ári og eru nú um 250 talsins.

Í árslok 2021 var sjóðurinn Frumtak II stærsti eigandi Controlant með 8,7 prósenta hlut en aðrir helstu hluthafar félagsins eru meðal annars fjárfestingafélagið Stormtré, sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar, eignarhaldsfélagið Líra, sem er í eigu hjónanna Halldóru Baldvinsdóttur og Valdimars Bergstað, og félagið Kaskur, sem er í eigu Inga Guðjónssonar. Þá fóru sjóðir Akta með um þriggja prósenta hlut í lok síðasta árs auk þess sem tryggingafélögin Sjóvá og VÍS áttu bæði hvor um sig tæplega 1,4 prósenta hlut.

Fram kemur í skýrslu stjórnar með nýbirtum ársreikningi Controlant að félagið hafi í fyrra greitt upp breytanleg skuldabréf sem voru gefin út í mars 2020. Endurgreiðslan var að helmingi í formi reiðufjár en restin var greidd út til fjárfesta með útgáfu nýs hlutafjár upp á tæplega 406 þúsund hluti að nafnverði. Gengið í þeirri hlutfjárútgáfu var 1.250 krónur á hlut en á meðal þeirra sem fengu greitt til baka með bréfum í Controlant var Arion, sem hafði tekið þátt í skuldabréfaútboði félagsins árið 2020, en bankinn átti í árslok tæplega 133 þúsund hlut í fyrirtækinu, jafnvirði 2,2 prósenta hlut á þeim tíma, sem er í dag metinn á nærri 1,8 milljarða króna.


Tengdar fréttir

Markaðsvirði Controlant nálgast óðum 100 milljarða

Ekkert lát er á verðhækkunum á gengi óskráðra hlutabréfa íslenska hátæknifyrirtækisins Controlant, sem hefur meðal annars verið í lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 fyrir lyfjarisann Pfizer, en markaðsvirði félagsins hefur hækkað um nærri fimmfalt á aðeins um einu ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×