Innherji

Síldarvinnslan kaupir útgerðarfyrirtækið Vísi fyrir meira en 30 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Síldarvinnslan mun greiða fyrir hlutinn í Vísi með reiðufé og eins hlutabréfum í útgerðarfélaginu í Neskaupstað.
Síldarvinnslan mun greiða fyrir hlutinn í Vísi með reiðufé og eins hlutabréfum í útgerðarfélaginu í Neskaupstað.

Síldarvinnslan í Neskaupstað, eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, hefur náð samkomulagi um að kaupa allt hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis í Grindavík. Kaupverð hlutafjár er 20 milljarðar króna en að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda Vísis, sem nema um 11 milljörðum, er heildarkaupverðið um 31 milljarður króna.

Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar fyrr í kvöld en greitt verður fyrir hlutinn með bréfum í Síldarvinnslunni, sem var skráð á hlutabréfamarkað fyrir rétt rúmu ári, og reiðufé. Þannig er greitt með reiðufé vegna 30 prósent kaupverðs og með hlutabréfum í Síldarvinnslunni vegna 70 prósent. Miðað er við meðaltalsgengi félagsins síðustu fjögurra vikna sem er 95,93 krónur á hlut.

Markaðsvirði Síldarvinnslunnar, sem er að stærstum hluta í eigu Samherja og fjárfestingafélagsins Kjálkanes, er í dag um 164 milljarðar króna en hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um liðlega 65 prósent frá útboðsgenginu í maí 2021.

Kaupin á Vísi koma aðeins nokkrum vikum eftir að tilkynnt var um að Síldarvinnslan hefði fest kaup á rúmlega 34 prósenta hlut í norska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish Holding AS fyrir um 15 milljarða króna. Þau kaup eru fjármögnuð með reiðufé og eins að hluta með öflun lánsfjár.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að kaupandi og seljandi séu sammála um að með þessum viðskiptum sé verið að styrkja bæði félögin til framtíðar.

„Starfsemin verður öflugri og tryggir samkeppnishæfni til lengri tíma litið. Höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar verða hjá Vísi í Grindavík, enda þar starfrækt hátæknivinnsla og mikil þekking og mannauður til staðar. Við sjáum fyrir okkur mikil tækifæri á vinnslu sjávarafurða í Grindavík, meðal annars vegna aukins fiskeldis á svæðinu á komandi árum. Ég tel að þessi viðskipti séu til mikilla hagsbóta fyrir alla aðila enda er sjávarútvegurinn alþjóðleg atvinnugrein sem þarf að standast harða samkeppni. Til lengri tíma litið ættu viðskiptin því að efla samkeppnisstöðu sjávarútvegs og þjónustu í Grindavík.“

Ég tel að þessi viðskipti séu til mikilla hagsbóta fyrir alla aðila enda er sjávarútvegurinn alþjóðleg atvinnugrein sem þarf að standast harða samkeppni.

Í tengslum við viðskiptin verður lagt til við hluthafafund Síldarvinnslunnar að stjórn félagsins fái heimild til að auka hlutafé og hluthafar muni falla frá áskriftarrétti sínum.

Pétur Hafsteinn Pálsson verður áfram framkvæmdastjóri Vísis en fyrirtækið, sem er í eigu sömu fjölskyldunnar, verður rekið sem dótturfélag og, að því er segir í tilkynningunni, mun starfsemin í Grindavík verða öflugri og framsæknari og ýta undir samkeppnishæfni til lengri tíma.

Vísir gerir út fjögur skip í aflamarkskerfinu og tvo báta í krókaaflamarki auk þess að reka einnig saltfiskvinnslu og hátækni bolfiskvinnslu í Grindavík. Á fiskveiðiárinu 2022-2023 eru væntar aflaheimildir félagsins um 15 þúsund þorskígildistonn. Ársverk á síðasta ári voru um 250 en ársrsveltan var rúmlega 10 milljarðar króna og hagnaður ársins liðlega 800 milljónir króna.

Síldarvinnslan er hins vegar með væntar aflaheimildir á núverandi fiskveiðiári sem jafngildir 36 þúsund þorskígildistonnum. Ársveltan var yfir 30 milljarðar í fyrra og og hagnaðurinn um 11 milljarðar króna.

Verði viðskiptin staðfest af hluthafafundi Síldarvinnslunnar og Samkeppniseftirlitinu er útlit fyrir að núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar verði lítillega yfir gildandi viðmiðunarmörkum. Komi til þess hefur félagið sex mánuði til að laga sig að þessum viðmiðum, að því er segir í tilkynningunni.

Við erum þess fullviss að forsendur þess að byggja upp bolfiskvinnsluna í Grindavík eru réttar og munu standast tímans tönn.

Pétur Hafsteinn að með þessum viðskiptum muni eigendur Vísis færa hlutabréf sín yfir í annað sjávarútvegsfélag sem er á almennum hlutabréfamarkaði og verða um leið á meðal kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni.

„Við erum þess fullviss að forsendur þess að byggja upp bolfiskvinnsluna í Grindavík eru réttar og munu standast tímans tönn. Þegar við bætast svo allir möguleikarnir sem tengjast laxeldinu getum við ekki annað en verið bjartsýn og þakklát fyrir að vera þátttakendur í þessari vegferð og þeirri framtíðarsýn sem hér er lögð til grundvallar í okkar heimabyggð. Við erum einnig stolt af starfsfólki Vísis sem fær með þessu enn frekari tækifæri til þess að takast á við þessa öflugu atvinnusköpun í Grindavík. Þessi atriði gera þessa stóru ákvörðun okkar léttari,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Ætla að sameina Þorbjörn og Vísi

Eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf. og Þorbjarnar hf. hafa hafið viðræður um að leggja eignir félaganna inn í nýtt fyrirtæki og standa saman að rekstri nýs sjávarútvegsfyrirtækis í GrindavíkAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×