Innherji

Síldarvinnslan bindur miklar vonir við uppganginn í fiskeldi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. 
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.  Aðsend mynd

„Við bindum vonir við að fiskeldi komi til með að verða ein af undirstöðuatvinnugreinum okkar í framtíðinni,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, í samtali við Innherja um 15 milljarða króna fjárfestingu íslenska sjávarútvegsfélagsins í Arctic Fish.

Síldarvinnslan greindi í síðustu viku frá því að fyrirtækið hefði komist að samkomulagi um kaup á 34,2 prósenta hlut í norska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish Holding AS fyrir um 15 milljarða króna. Síldarvinnslan náði samkomulagi við Bremesco Holding Limited, sem átti tæplega 29 prósenta hlut, ásamt hópi hluthafa og verður kaupverðið greitt með reiðufé sem verður að hluta til fjármagnað með öflun lánsfjár.

„Aukið fjármagn og þekking hefur komið inn í greinina á síðustu árum og það stefnir í að frekari fjárfestingar verði í greininni á Vestfjörðum sem við teljum jákvætt. Við sjáum tækifæri í auknu samstarfi fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum,“ segir Gunnþór en bréf Síldarvinnslunnar hækkuðu um 5 prósent eftir að greint var frá kaupunum.

Arctic Fish Holding er skráð á Euronext Growth Market í Osló og á félagið 100 prósent hlutafjár í Arctic Fish ehf. sem er eitt af leiðandi laxeldisfyrirtækjum á Íslandi. Félagið rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum og er með leyfi fyrir 27 þúsund tonna eldi í sjó.

Í lok maí tilkynntu Norwegian Royal Salmon (NRS), stærsti hluthafi Arctic Fish, og SalMar, stærsti hluthafi Arnarlax, um áform sín um að sameinast. Í tilkynningunni kom meðal annars fram að mikil tækifæri fælust í sameiginlegri uppbyggingu á seiðaeldi, vinnslu og sölu á Íslandi.

„Við teljum að það séu verðmæti fyrir fiskeldið á Íslandi að njóta þekkingar og reynslu frá Noregi," segir Gunnþór.

Í fyrsta ársfjórðungi seldi Arctic Fish 4.221 tonn af afurðum, sem er 11 prósentum meira magn en á sama tímabili í fyrra. Veltan rúmlegan tvöfaldaðist en tekjurnar í fjórðungnum námu 4,1 milljarði króna.

Síldarvinnslan hefur mikla snertifleti við fiskeldi. Stærsti hlutinn af mjöl- og lýsisframleiðslu félagsins hefur um árabil farið í fiskeldi sem fóður

Félagið lenti hins vegar í umtalsverðu tjóni í fjórðungnum þar sem ófyrirséð afföll af laxi námu um 2.512 tonnum á tveimur staðsetningum í Dýrafirði. Afföllin leiddu til niðurfærslu á lífmassa og einskiptiskostnaði sem nam um 1,9 milljarði króna. Rekstrarniðurstaðan var því neikvæð og tapið um 180 milljónir króna.

Arctic Fish fjárfesti fyrir 1,4 milljarða á fjórðungnum, bæði í stækkun seiðaeldistöðvarinnar í Tálknafirði og svo í sláturhúsinu sem félagið keypti í Bolungarvík. Námu heildareignir félagsins 21,2 milljörðum króna í lok fjórðungsins.

Teljið þið að fiskeldi verði meiri mæli samtvinnað útgerðarfyrirtækjum?

„Of snemmt er að segja hvort starfsemi útgerðarfyrirtækja verði samtvinnað fiskeldisfyrirtækjum. Í eðli sínu eru fiskeldi og hefðbundin útgerð ólíkar atvinnugreinar en vissulega eru báðar greinar að selja fisk að hluta til á sömu markaðssvæðum og til sömu kaupenda,“ segir Gunnþór og bendir að Síldarvinnslan hafi sérstaka tengingu við fiskeldi sem framleiðandi mjöls og lýsis.

„Síldarvinnslan hefur mikla snertifleti við fiskeldi. Stærsti hlutinn af mjöl- og lýsisframleiðslu félagsins hefur um árabil farið í fiskeldi sem fóður“.

Síldarvinnslan er stærsti framleiðandi mjöls og lýsis á Íslandi en fyrirtækið rekur í dag tvær fiskimjölsverksmiðjur, eina í Neskaupstað og aðra á Seyðisfirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×