Körfubolti

Atlanta Hawks náði í stjörnuleikmann San Antonio Spurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dejounte Murray átti mjög gott tímabil með San Antonio Spurs og var valinn í Stjörnuleikinn í fyrsta sinn.
Dejounte Murray átti mjög gott tímabil með San Antonio Spurs og var valinn í Stjörnuleikinn í fyrsta sinn. Getty/Sean Gardner

Dejounte Murray er kominn til Atlanta Hawks í NBA-deildinni í körfubolta eftir leikmannaskipti Hawks og San Antonio Spurs. Þetta eru stærstu leikmannaskiptin í sumar.

Murray var allt annað en ókeypis fyrir Atlanta menn því Spurs tók til baka ítalska landsliðsmanninn Danilo Gallinari auk þriggja valrétta úr fyrstu umferð en þeir eru frá 2023, 2025 og 2027. Félögin skipta einnig á valrétti árið 2026.

Atlanta Hawks ætlar sér stóra hluti á næsta tímabili eftir að hafa dottið snemma út úr úrslitakeppninni á síðasta tímabili.

Dejounte Murray komst í stjörnuleikinn á síðasta tímabili eftir mjög gott tímabil með Spurs þar sem hann var með 21,1 stig, 9,2 stoðsendingar, 8,3 fráköst og 2,0 stolna bolta að meðaltali í leik. Hann var með þrettán þrennur sem var nýtt félagmet hjá San Antonio á einu tímabili.

Hinn 25 ára gamli Murray myndar nú mjög spennandi bakvarðartvíeyki með Trae Young sem hefur farið á kostum síðustu ár. Þetta verður í fyrsta sinn í sögu NBA þar sem tveir leikmenn spila saman eftir að hafa verið með að minnsta kosti 20 stig og 8 stoðsendingar í leik tímabilið á undan.

Murray fær 16,6 milljónir dollara fyrir komandi tímabili eða 2,2 milljarða króna en samningur hans rennur út árið 2024.

Hinn 33 ára gamli Gallinari var með 11,7 stig og 4,7 fráköst í leik á síðustu leiktíð. Hann fær 21,5 milljón dollara fyrir komandi tímabil eða 2,8 milljarða íslenskra króna.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.