Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum. Vefútsending með kynningu á yfirlýsingu nefndarinnar hefst klukkan 9:30 og verður hægt að fylgjast með útsendingunni hér á Vísi. Kynningin verður í höndum Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu.
Hagvöxtur nokkru meiri
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga hafi verið nokkru meiri hagvöxtur á fyrsta fjórðungi ársins en gert var ráð fyrir í maíspá Peningamála.
„Vísbendingar eru jafnframt um að þróttur innlendra umsvifa verði áfram kröftugur og hlutfall fyrirtækja sem segjast skorta starfsfólk hefur ekki mælst hærra frá árinu 2007. Á móti vegur að væntingar bæði heimila og fyrirtækja um efnahagsframvinduna hafa heldur dalað og töluverð óvissa er um alþjóðlegar efnahagshorfur.
Verðbólga jókst í maí og mældist 7,6%. Enn sem fyrr vegur hækkun húsnæðisverðs og annarra innlendra kostnaðarliða þungt auk þess sem alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur hækkað mikið. Verðhækkanir eru á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur aukist. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað á flesta mælikvarða og eru yfir verðbólgumarkmiði.
Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara,“ segir í yfirlýsingunni.
Vextir verða því sem hér segir:
- Daglán 6,50%
- Lán gegn veði til 7 daga 5,50%
- Innlán bundin í 7 daga 4,75%
- Viðskiptareikningar 4,50%
Næsta ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður kynnt 24. ágúst næstkomandi.