Viðskipti innlent

Seðla­bankinn hækkar stýri­vexti um eina prósentu

Atli Ísleifsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um eina prósentu. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 4,75 prósent, en þetta er önnur ákvörðun nefndarinnar í röð þar sem stýrivextir eru hækkaðir um heila prósentu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum. Vefútsending með kynningu á yfirlýsingu nefndarinnar hefst klukkan 9:30 og verður hægt að fylgjast með útsendingunni hér á Vísi. Kynningin verður í höndum Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu.

Hagvöxtur nokkru meiri

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga hafi verið nokkru meiri hagvöxtur á fyrsta fjórðungi ársins en gert var ráð fyrir í maíspá Peningamála. 

„Vísbendingar eru jafnframt um að þróttur innlendra umsvifa verði áfram kröftugur og hlutfall fyrirtækja sem segjast skorta starfsfólk hefur ekki mælst hærra frá árinu 2007. Á móti vegur að væntingar bæði heimila og fyrirtækja um efnahagsframvinduna hafa heldur dalað og töluverð óvissa er um alþjóðlegar efnahagshorfur.

Verðbólga jókst í maí og mældist 7,6%. Enn sem fyrr vegur hækkun húsnæðisverðs og annarra innlendra kostnaðarliða þungt auk þess sem alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur hækkað mikið. Verðhækkanir eru á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur aukist. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað á flesta mælikvarða og eru yfir verðbólgumarkmiði.

Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara,“ segir í yfirlýsingunni.

Vextir verða því sem hér segir:

  1. Daglán 6,50%
  2. Lán gegn veði til 7 daga 5,50%
  3. Innlán bundin í 7 daga 4,75%
  4. Viðskiptareikningar 4,50%

Næsta ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður kynnt 24. ágúst næstkomandi.


Tengdar fréttir

Spá 0,75 prósenta hækkun stýrivaxta

Bæði hagfræðideild Landsbankans og Greining Íslandsbanka spá því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig í næstu viku. Gangi spárnar eftir fara meginvextir bankans úr 3,75 í 4,5 prósent.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×