Viðskipti innlent

At­vinnu­leysi 3,9 prósent í maí

Atli Ísleifsson skrifar
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/Sigurjón

Skráð atvinnuleysi var 3,9 prósent í síðasta mánuði og minnkaði úr 4,5 prósent í apríl. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 812 frá aprílmánuði.

Frá þessu segir á vef Vinnumálastofnunar. Fram kemur að 7.717 hafi að meðaltali verið atvinnulausir í maí, 4.233 karlar og 3.484 konur.

„Alls staðar dró úr atvinnuleysi í maí mest hlutfallslega á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum og að meðaltali fækkaði atvinnulausum á bilinu 10% til 14% annars staðar.

Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í maí eða 6,6% og minnkaði úr 7,6% í apríl. Næst mest var atvinnuleysið 4,2% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 4,7% í apríl.

Í maí 2022 gaf Vinnumálastofnun út 381 atvinnuleyfi til erlendra ríkisborgara til að starfa hér á landi þar af 283 á höfuðborgarsvæðinu. Af útgefnum leyfum voru 267 til nýrra erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði og 114 leyfi voru framlengd.“

Ennfremur segir að Vinnumálastofnun spái því að atvinnuleysi muni minnka í júní og verða á bilinu 3,5 til 3,8 prósent.

„Alls voru 643 atvinnuleitendur á aldrinum 18-24 ára án atvinnu í lok maí og hefur þeim fækkað um 249 frá apríllokum.

Lengd á skrá

Alls höfðu 2.713 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok maí og fækkaði um 374 frá apríl. Hins vegar voru þeir 6.430 í maílok 2021. Þeim sem hafa verið atvinnulausir í 6-12 mánuði fækkaði frá apríl um 77 og voru 1.722 í lok maí. Í maí 2021 var þessi fjöldi hins vegar 6.089,“ segir á vef Vinnumálastofunar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.