Viðskipti innlent

Ekki hægt að breyta skoðun sinni á Bitcoin þótt verðið fari upp eða niður

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kristján Ingi Mikaelsson er eigandi Visku Digital Assets sem sérhæfir sig í rafmyntum.
Kristján Ingi Mikaelsson er eigandi Visku Digital Assets sem sérhæfir sig í rafmyntum. Vísir/Bjarni

Rafmyntir hafa tekið mikinn skell síðustu vikur í takt við hefðbundna hlutabréfamarkaði. Dæmi eru um að virði margra minni rafmynta sé orðið að engu en stærsta rafmyntin, Bitcoin, stendur nú í rúmum 22 þúsund dollurum. Bitcoin fór hæst í 69 þúsund dollara í nóvember á síðasta ári.

Kristján Ingi Mikaelsson er meðeigandi í Visku Digital Assets en samkvæmt heimasíðu Visku er sjóðurinn fyrsti fjárfestingasjóður á Íslandi sem einblínir á rafmyntir. Hann ræddi stöðuna í Reykjavík síðdegis í dag.

Ekki í bullandi vandræðum

Þrátt fyrir mikla lækkun segir Kristján að skoða verði stöðuna í stærra samhengi. Hann bendir á að Bitcoin kostaði það sama fyrir 18 mánuðum síðan, rétt eins og Nasdaq vísitalan, stærsta vísitalan í Bandaríkjunum, var á sama stað fyrir 18 mánuðum.

Þá sé einnig mismunandi á hvaða forsendum fólk fjárfesti í rafmyntum.

„Það má kannski skipta þessu fólki í tvo hópa, annars vegar fólk sem kemur inn á forsendunum í kringum Bitcoin og þessar stærstu myntir sem trúa því að það sé verið að byggja upp tækni og þetta séu einhvers konar geymsluverðmæti. Svo eru aðrir sem eru að kaupa einhver hundatákn og eitthvað slíkt sem meika bara engan sense.“ Báðir hóparnir séu á þó á flæðiskeri staddir eins og staðan er í dag.

„Við erum ekki í einhverjum bullandi vandræðum. Maður hefur séð þetta miklu svartara en auðvitað er þetta mjög vond staða fyrir þá sem komu seint inn á markaðinn. Það þýðir samt ekki að breyta skoðun sinni á Bitcoin þótt verðið fari upp eða niður.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Kristján í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×