Umræðan

Hætta á grænþvotti víða í fjárfestingarkeðjunni

Eva Margrét Ævarsdóttir skrifar

Í lok síðasta mánaðar birtust fréttir í helstu viðskiptafréttamiðlum um að húsleit hafi verið gerð á skrifstofum þýska bankans Deutsche bank og eignastýringarfyrirtækisins DWS, dótturfyrirtækis bankans. Húsleitin var gerð á vegum saksóknara og þýska fjármálaeftirlitisins BaFin vegna grunsemda um að fullyrðingar DWS um hversu sjálfbærar og umhverfisvænar fjárfestingar þess væru stæðust ekki skoðun, þ.e. að um grænþvott væri að ræða. Haft var eftir saksóknara að nægilegra sönnunargagna hafi verið aflað sem sýndu að í fjölda fjárfestinga hafi ekki verið byggt á umhverfis-, samfélags og stjórnarháttum (ESG) að neinu leyti, þvert á fullyrðingar sem kæmu fram í lýsingum fjárfestingarsjóða DWS. Forstjóri DWS sagði upp störfum strax í kjölfar húsleitarinnar.

Ábending um grænþvott og eigin rannsókn

Málið á sér forsögu en á síðasta ári birtust fréttir um að fyrrum yfirmaður sjálfbærnimála hjá DWS hafi bent á að fullyrðingar um mat á fjárfestingum sem birtust í ársskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2020 stæðust ekki. Þar sagði að um helmingur fjárfestinga DWS væri byggður á ESG viðmiðum (ESG: environment, social, governance eða UFS á íslensku). Í kjölfarið á uppsögn gerðist hún uppljóstrari og kom ábendingunum á framfæri við yfirvöld. DWS lét utanaðkomandi endurskoðunarfyrirtæki framkvæma skoðun á ásökununum en niðurstaðan úr skoðuninni var að ekkert væri athugavert við framsetningu upplýsinganna. Í ársskýrslu DWS fyrir árið 2021 hafði hlutfall fjárfestinga sem byggðu á ESG viðmiðum hins vegar verið lækkað verulega.

Gríðarleg aukning í fjárfestingum sem byggja á sjálfbærniþáttum

Húsleitin hjá DWS kemur í kjölfar þess að eftirlitsaðilar hafa verið að beina sjónum sínum að hættunni á grænþvotti í fjármálageiranum. Áhugi fjárfesta á því að beina fjármagni sínu í farveg sem byggir á sjálfbærniþáttum hefur vaxið gríðarlega á síðustu misserum. Bloomberg Intelligence áætlaði nýverið að geirinn væri metinn á um 40 billjónir Bandaríkjadala. Ísland er ekki undanskilið í þessum efnum. Í kjölfar COP 26 síðastliðið haust var til dæmis tilkynnt að 13 af stærstu lífeyrissjóðum landsins ætli að setja 580 milljarða króna í fjárfestingar í hreinni orku og umhverfisvænum lausnum til ársins 2030. Flestir lífeyrissjóðir landsins hafa sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar á grundvelli ákvæða í lögum um að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum.

Áhugi fjárfesta á því að beina fjármagni sínu í farveg sem byggir á sjálfbærniþáttum hefur vaxið gríðarlega á síðustu misserum.

Ný lög um upplýsingagjöf fjárfesta tengd sjálfbærni

Á síðustu árum hafa fyrirtæki í fjármálageiranum innan ESB unnið hörðum höndum að innleiðingu nýrra laga um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (enskt heiti skammstöfunar reglugerðarinnar er SFDR). Reglugerðin öðlaðist gildi í mars 2021 innan ESB og er stefnt að því að hún taki gildi hér á landi um næstu áramót. Í stuttu máli má segja að hún geri kröfu um aukið gegnsæi á fjármálamarkaði um sjálfbærniþætti fjárfestinga, einkum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir grænþvott.

Aukinn kraftur í eftirlit með grænþvotti

Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið (ESMA) birti í febrúar síðastliðinn Sustainable Finance Roadmap 2022-2024 þar sem settar eru fram áherslur eftirlitsins í sjálfbærum fjármálum fyrir tímabilið og er meðal annars ætlað að tryggja samræmda innleiðingu eftirlits innan ESB. Samkvæmt vegvísinum er eitt af helstu forgangsatriðum ESMA að berjast gegn grænþvotti og efla gagnsæi með tímasettri aðgerðaráætlun til að fylgja vegvísinum eftir. Meðal aðgerða er að byggja upp hæfni og þekkingu hjá innlendum eftirlitsaðilum til að koma auga á grænþvott og má ætla að mál DWS sé einn prófsteinn í því.

Haft var eftir saksóknara í Þýskalandi sagði að nægilegra sönnunargagna hafi verið aflað sem sýndu að í fjölda fjárfestinga DWS hafi ekki verið byggt á umhverfis-, samfélags og stjórnarháttum (ESG) að neinu leyti, þvert á fullyrðingar sem kæmu fram í lýsingum fjárfestingarsjóða eignastýringarfyrirtækisins.

Innlent eftirlit með grænþvotti

Seðlabankinn mun hafa eftirlit með málum á fjármálamarkaði sem snúa að mögulegum grænþvotti og munu vafalaust fylgja þeim tón sem ESMA setur. Fjallað er um hættuna á grænþvotti í skýrslu Seðlabankans um Fjármálastöðugleika sem kom út vorið 2021 í tengslum við umfjöllun um loftslagsmál og stöðugleika. Einnig er bent á hættuna í skýrslu Seðlabankans um Fjármálaeftirlit2022 í tengslum við innleiðingu Evrópulöggjafar á þessu ári og þá hættu sem geti verið á grænþvotti við mat á fjárfestingum og að byggð sé upp nauðsynleg þekking innan fjármálafyrirtækja til að takast á við slíkt mat.

Það er ekki óþekkt að ásakanir um grænþvott komi upp hér á landi. Neytendastofa hefur tekið mál til skoðunar í framhaldi af ábendingum um grænþvott og einnig má rifja upp mál Brúneggja. Ábendingar geta komið frá fjölbreyttum hópi, til dæmis viðskiptavinum, (fyrrum) starfsmönnum, samkeppnisaðilum og neytendum. Að sporna gegn grænþvotti er forgangsmál hjá ESB og er unnið að endurskoðun löggjafar á ýmsum sviðum í þeim tilgangi. Neytendastofa fylgist með þeirri vinnu og hefur haft hana til hliðsjónar við eftirlit með fullyrðingum fyrirtækja í tengslum við frammistöðu þeirra í umhverfismálum.

Það getur verið áskorun að koma upplýsingum um frammistöðu á sviði sjálfbærni á framfæri. Tilhneiging er að segja frekar frá sigrum en ósigrum og ákveðin hætta getur verið á að þær birtist sem hluti af markaðsefni fyrirtækis.

Sjálfbærniskýrslur félaga

Umgjörð sjálfbærnimála verður sífellt flóknari. Fjárfestar nota meðal annars ófjárhagslega upplýsingagjöf fyrirtækja til að greina sjálfbærniáherslur fyrirtækja sem þau fjárfesta í. Á Íslandi ber stærri fyrirtækjum, öllum skráðum félögum, lífeyrissjóðum, lánastofnunum og vátryggingafélögum að birta upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins á grundvelli ársreikningalaga. Í upplýsingagjöfinni, sem birtist til dæmis í sjálfbærniskýrslum, á að fjalla um sjálfbærniáherslur og áhættur og sem fjárfestar eiga að geta notað til að greina sjálfbærniáhættur við mat á fjárfestingarkostum. Fjöldi matsfyrirtækja er einnig að þróa stafrænar lausnir sem eiga að hjálpa til við að leggja mat á ESG viðmið við mat á fjárfestingarkostum. Þau nota einnig þessa upplýsingagjöf skráðra félaga í sínum greiningum. Mat skráðra félaga á því hvaða upplýsingar þau ákveða að birta til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins rata því gjarnan inn í þetta mat.

Áhættur tengdar upplýsingagjöf

Það getur verið áskorun að koma upplýsingum um frammistöðu á sviði sjálfbærni á framfæri. Tilhneiging er að segja frekar frá sigrum en ósigrum og ákveðin hætta getur verið á að þær birtist sem hluti af markaðsefni fyrirtækis. ESMA er vel meðvitað um þessa áhættu og bendir á að slík upplýsingagjöf geti, viljandi eða óviljandi, verið uppspretta grænþvottar sem birtist svo í ESG greiningu fjárfestis á fjárfestingarkostum þar sem viðkomandi félag er hluti af fjárfestingarmenginu. Í ýktustu tilvikum gæti verið um alvarlegt brot á lögum að ræða jafnvel þannig að fjársvikaákvæði almennra hegningarlaga eigi við ef um ásetning er að ræða. Í tilviki DWS lét forstjóri félagsins af störfum en enn á eftir að koma í ljós hverjar endanlegar lyktir málsins verða gagnvart stjórnvöldum.

Ekki þarf að fjölyrða um áhrif sem ásakanir um grænþvott hafa á orðspor fyrirtækis. Aðilar á markaði þurfa að fara varlega í fullyrðingar sem byggja á ætlaðri frammistöðu í sjálfbærnimálum og vera vissir um að þær standist skoðun á grundvelli viðurkenndra viðmiða og mælinga.

Aukið aðhald gegn grænþvotti

Aðhald og eftirlit vegna ætlaðs grænþvottar er að aukast mikið á flestum markaðssvæðum. Málssóknum vegna slíkra fullyrðinga fer fjölgandi. Bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) hefur sett upp aðgerðahóp til að rannsaka sérstaklega slík mál en í maí síðastliðinn birtust fréttir um að Bank of New York Mellon muni greiða 1,5 milljónir dala í sekt fyrir villandi upplýsingagjöf um mat á fjárfestingarkostum byggt á ESG viðmiðum. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif sem ásakanir um grænþvott hafa á orðspor fyrirtækis. Aðilar á markaði þurfa að fara varlega í fullyrðingar sem byggja á ætlaðri frammistöðu í sjálfbærnimálum og vera vissir um að þær standist skoðun á grundvelli viðurkenndra viðmiða og mælinga. Ábyrgð á framsetningu ófjárhagslegra upplýsinga liggur hjá stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækis og þarf að taka alvarlega. Byggja þarf upp aukna þekkingu á sjálfbærnimálum og samspili þeirra við fjármál og ábyrgar fjárfestingar. Eins þarf að bæta þekkingu á beitingu sjálfbærnistaðla og viðmiða sem þróast hafa í framkvæmd á síðustu árum hjá fjölda fyrirtækja og fjárfesta og þeim breytingum sem framundan eru. Áherslur á sjálfbærnimál fara ekki minnkandi með áhrifum loftslagsbreytinga og áríðandi að vera vakandi fyrir þeim áhættum sem því fylgja.

Höfundur er lögmaður hjá LEX lögmannsstofu og ráðgjafi í sjálfbærni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×