Frítíminn

Á bleiku skýi

Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson skrifar
Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson.
Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson. VÍSIR/VILHELM

Talið er að fyrstu rósavínin eigi rætur að rekja til sjöttu aldar fyrir Krist þegar Föníkumenn sigldu frá Grikklandi til Marseille í Frakklandi og hófu víngerð. Var afurðinni lýst sem ljósum að lit og má telja líklegt að um hafi verið að ræða þrúgur með þunnu hýði sem að jafnaði gefur af sér ljósari lit. 

Heimildir kveða svo á um að Rómverjar hafi aukið vinsældir rósavíns frá Suður-Frakklandi einhverjum öldum síðar.

En örlítið minnistæðara fyrir flesta er Mateus tímaskeiðið þegar hinar kúlulaga flöskur urðu að staðalbúnaði sem kertastjakar í sumarbústöðum landsmanna en fárið var ekki bundið við Ísland heldur er einnig umtalað bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Oscar Wilde sagði eitt sinn að vinnan væri bölvun hinna drekkandi stéttar en segja má að rósavínið sé vín gleðinnar, eða í öllu falli viðeigandi í besta vori í manna minnum á Íslandi. 

En engu að síður tókst okkur að slíta okkur frá skjánum þegar tækifæri bauðst að smakka nokkur rósavín sem í boði eru hér á landi í tengslum við væntanlega opnun á glæsilegum nýjum veitingastað, Akur sem mun brátt opna við Austurhöfn, sem mun meðal annars skarta stærsta vínlista landsins auk nýrra áherslna í matargerð.

Veitingastaðurinn Akur við Austurhöfn mun meðal annars skarta stærsta vínlista landsins.

Með hæfilegri einföldun má segja að rósavín geti verið það sem kallað er sérstæð/karakter og hentar sumum en ekki öðrum. Önnur vín geta svo verið minna krefjandi, svona meira fyrir alla. Svo eru það „verðlaunavínin“ - þessi með gull, silfur og brons merkimiða sem undantekningalítið eru keypt af framleiðendum og er því oftast rétt að forðast. 

Lesendum er bent á að áfengismagnið er nokkuð ráðandi þáttur í verðlagningu þessara vína. En niðurstaða dómnefndar var óvenju ótvíræð í þessu smakki (sem auðvitað var ekki tæmandi). Fyrir fróðleiksfúsa er rétt að benda á ráðgjöf sérmenntaðra vínráðgjafa sem vinna í einokunarverslunum hins opinbera, nú eða hjá hinum ófaglærðu vínáhugamönnum sem fært hafa landsmönnum viðskiptafrelsi í gegnum netverslun. 

Það skal tekið fram að dómnefnd tók ekki tillit til verðs á vínum og jafnframt að vínin voru ekki smökkuð blint:

Á Akur mun einnig gæta nýrra áherslna í matargerð.

1. Rosé de Leoube, kr. 3.200, 13%, Cinsault, Grenache, Frakkland / Sante. Lífrænt vín sem er afrakstur lífelfdrar (biodynamique) ræktunar frá Provance - rómatískasta svæði Frakklands og vann yfirburðasigur á öllum þeim vínum sem smökkuð voru. Ljúffengt vín með góða byggingu, kemur hreint fram enda gert án allra bætiefna eða inngripa.

2. Signac Rosé, kr. 2.500, 13,5%, Grenache, Syrah, Frakkland / Sante. Ljómandi gott, sér í lagi að teknu tilliti til verðs og gerir ekki miklar kröfur.

3. Gerard Bertrand Cote de Roses, kr. 2.799, 13,5%, Grenache, Syrah, Cinsault, Frakkland. Hér er um að ræða stóran en ágætlega virtan framleiðanda í Suður-Frakklandi, nokkuð meira afgerandi en næsta vín fyrir ofan sem þýðir að það kann að falla sumum betur í geð.

4. Bouchard Aine Pinot Noir Rosé, kr. 2.098, 12,5%, Pinot Noir, Frakkland. Þetta vín kemur frá Suður-Frakklandi en ekki Burgundy þó svo að höfuðstövarnar séu staðsettar í því rómaða héraði.

5. Barefoot White Zinfandel, kr. 1.498, 8%, Zinfandel, Bandaríkin / ÁTVR. Lágt áfengismagn heldur áfengisgjaldinu í skefjum sem gerir þetta eitt af ódýrustu vínum sem einokunarverslanirnar bjóða upp á og ætti að vera sérmerkt með varnaðarorðum um að vínið ætti alls ekki að innbyrða.

Rosé de Leoube og Signac Rosé.

6. Carlos Rossi California Rosé, kr. 1.498, 10,5%, ekki vitað um þrúgur, Bandaríkin. Hvernig er hægt að framleiða léttvín með jafn lágu áfengismagni frá sólríkasta vínræktarsvæði heims? Valmöguleikarnir eru einungis þrír; vatnsþynning, þynning með kemískum efnum eða hvoru tveggja.

7. Tommasi Rose Le Fornaci, kr. 2.799, 12,5%, Turbiana, Rondinella, Ítalía. Þegar hér var komið í smakkið var stemningin fyrir gleðivínunum á undanhaldi. Þó að Ítalía sé ekki þekkt fyrir rósavínsframleiðslu er líklega við undirbúningsnefnd að sakast en því verður vart trúað að þetta vín geti gefið réttmæta mynd af rósavínsframleiðslu Ítalíu.

8. Stemmari Rosé, kr. 1.999, 12%, Nero d’Avola, Ítalía. Það besta sem hægt er að segja um þetta vín er að það er 800 krónum ódýrara en næsta fyrir ofan. Vart hægt að hugsa sér meiri stemningsbrjót. Okkar ráðgjöf er að leita að næsta blómapotti ef þetta vín er í boði.

Oscar Wilde sagði eitt sinn að vinnan væri bölvun hinna drekkandi stéttar en segja má að rósavínið sé vín gleðinnar.

9. Adobe Reserva Rosé, kr. 2.299, 12%, Cabernet Sauvignon, Syrah, Merlot - lífrænt - Chile. Dómnefnd átti erfitt með að skilja af hverju þetta vín er flutt inn til landsins.

10. Mateus Rosé, kr. 1.799, 10%, Baga, Rufete, Tinta Barroca, Touriga Franca, Portúgal. „Gerjaður frostpinni.“ Eiginlega erfitt að ímynda sér að þetta vín hafi í raun einhvern tíman verið lystugra en líklega hafa flestir drukkið þetta vín til óminnis og því óhætt að stroka Mateus rósavínskaflan endanlega úr sögubókum héðan í frá. Ráðgjöf dómnefndar er að leita sér að nýjum vínum ef þetta vín er á boðstólum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér heim rósavína má benda á nokkrar ágætar bækur, meðal annars Rose All Day eftir Katherine Cole.


Eigendur Santé eru annálaðir nautnaseggir. Þeir verða með óreglulegar innkomur á Innherja þar sem þeir munu fjalla sérstaklega um vín og mat.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×