Innherji

SA segir sóttvarnafrumvarp ótímabært og gallað

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Upplýsingafundur almannavarna og Landlæknis.
Upplýsingafundur almannavarna og Landlæknis. Lögreglan/Júlíus

Samtök atvinnulífsins telja ótímabært að setja ný heildarlög á sviði sóttvarna sökum þess að ekki hefur farið fram ýtarleg rannsókn á afleiðingum Covid-faraldursins og sóttvarnaaðgerða. Auk þess séu ýmsir vankantar á sóttvarnafrumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um frumvarpið.

SA hefur áður kallað eftir óháðri rannsókn á sóttvörnum og afleiðingum þeirra. Telja samtökin mikilvægt að skoða afleiðingarnar á efnahag fólks og fyrirtækja, félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar og meta hvernig eigi að takast á við hliðstæða atburði sem síðar kunna að verða.

„Með þannig rannsókn er hægt að læra af faraldrinum til frambúðar en ekki er verið að leita sökudólga. SA lögðu áherslu á að heildarendurskoðun sóttvarnalaga biði heildarmats á faraldrinum. Rannsókn hefur ekki farið fram og er frumvarp til nýrra heildarlaga á sviði sóttvarna því ótímabært,“ segir í umsögn SA.

Um er að ræða nýja heildarlöggjöf um sóttvarnir en frumvarpið var unnið af starfshóp sem skipaður var af heilbrigðisráðherra. Starfshópurinn samanstóð af fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, landlæknis, sóttvarnalæknis, sóttvarnaráðs, Landspítala og ríkislögreglustjóra auk starfsmanns úr heilbrigðisráðuneytinu. 

Að mati SA er nauðsynlegt að sóttvarnalög innihaldi ákvæði um skyldu til að bæta fjárhagstap rekstraraðila vegna sóttvarnaráðstafana

„Að mati SA hefði verið mikilvægt að fulltrúi frá atvinnulífinu ætti aðkomu að starfshópnum svo að efnahagslegum sjónarmiðum væri komið á framfæri.“

Í frumvarpinu er kveðið á um skyldu ráðherra til að kynna ákvörðun um sóttvarnarráðstafanir vegna samfélagslega hættulegs sjúkdóms og opinberar sóttvarnarráðstafanir á landamærum Íslands, fyrir velferðarnefnd Alþingis án tafar auk forsendna ráðstafananna og röksemdir að baki. Það er ekki nóg að mati samtakanna.

„Sumar sóttvarnarráðstafanir eru þess eðlis að þær skerða grundvallarmannréttindi sem varin eru í stjórnarskrá. Þau réttindi má ekki skerða nema með lögum og ef almannahagsmunir krefjast þess. Eðli máls samkvæmt þarf oft að bregðast hratt við þegar svo háttar til að beita þurfi sóttvarnarráðstöfunum en meginreglan verður að vera sú að við ákvörðun um skerðingu mannréttinda hafi Alþingi lokaorðið,“ segir í umsögninni.

„Í dönsku sóttvarnalögunum, fyrirmynd frumvarpsins, er kveðið á um að reglur geti aðeins tekið gildi eftir að þær hafi verið lagðar fyrir viðeigandi nefnd og nefndin ekki talið tilefni til að mæla sérstaklega gegn gildistöku þeirra. Sóttvarnareglur taka því ekki gildi nema með samþykki þingnefndarinnar. Með öðrum orðum hefur löggjafinn ákvörðunarvaldið. Þar í landi telst sú aðferð nægilega skjótvirk til að bregðast við sóttvarnaaðstæðum sem kunna að koma upp. Ekkert bendir til þess að annað ætti að gilda hérlendis.“

Eftir því sem hætta af sjúkdómi telst minni [...] því meiri kröfur verður að gera til rannsóknar og mats stjórnvalds á því hvort brýn nauðsyn standi til skerðinga á stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna

Þá benda samtökin á að ákvörðun um stöðvun atvinnurekstrar sem beinist að tiltekinni starfsemi stöðvar tekjustreymi viðkomandi fyrirtækja og einstaklinga sem bera ábyrgð á rekstrinum.

„Hingað til hefur að nokkru leyti verið komið til móts við þá aðila sem verða fyrir tjóni vegna sóttvarnaráðstafana með mótvægisaðgerðum og styrkjum úr ríkissjóði. Að mati SA er nauðsynlegt að sóttvarnalög innihaldi ákvæði um skyldu til að bæta fjárhagstap rekstraraðila vegna sóttvarnaráðstafana og telja SA að eignarnámslög geti verið ákveðin fyrirmynd að því,“ segir í umsögninni.

„Úrræðin væru þá fyrirsjáanleg og til staðar áður en faraldrar bresta á þrátt fyrir að mögulegt væri að útfæra þau nánar með tilliti til þeirra sóttvarnaráðstafana sem ráðist er í. Athygli stjórnvalda þyrfti ekki að beinast að þessum þætti í viðbrögðum þeirra og væri þeim þá jafnframt hægara um vik að meta tjón ríkissjóðs af slíkum inngripum.“

Skortur á stöðluðum viðmiðum skapar óvissu

Einnig benda hagsmunasamtökin á að erfitt hafi reynst að sjá samhengi milli mælikvarða og sóttvarnaðgerða hverju sinni. Sem dæmi hafi sömu aðgerðum verið beitt í beitt í byrjun faraldurs 2020 og tveimur árum síðar þegar þjóðin var að mestu bólusett og vægara veiruafbrigði var ríkjandi.

„Beiting sömu íþyngjandi sóttvarnaraðgerða var að mestu órökstudd. Eftir því sem hætta af sjúkdómi telst minni og meiri upplýsingar liggja fyrir um eðli hans, því meiri kröfur verður að gera til rannsóknar og mats stjórnvalds á því hvort brýn nauðsyn standi til skerðinga á stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna,“ segir í umsögn SA sem hefur áður kallað eftir stöðluðum viðmiðum.

„Skortur á slíkum viðmiðum skapar óvissu í samfélaginu, skerðir getu almennings til að skilja nauðsyn aðgerða sem gripið er til og takmarkar faglega gagnrýni og þar með opinbera umræðu um aðgerðirnar. Þá eykur það hættu á að aðgerðir séu óþarflega háðar persónulegu mati og tilfinningu fárra einstaklinga fremur en samþykktum stöðlum, gagnreyndum viðmiðum og raungögnum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.