Viðskipti innlent

Vinna að því að draga úr kol­efnislosun um 43 prósent fyrir 2030

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Byggingaframkvæmdir í Smáranum
Byggingaframkvæmdir í Smáranum Vísir/Vilhelm

Byggingariðnaðurinn og stjórnvöld taka höndum saman og vinna að því að draga úr kolefnislosun bygginga á Íslandi um 43 prósent fyrir 2030. Samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs, Byggjum grænni framtíð (BGF) greinir frá þessu ásamt fleiri aðgerðum í nýjum vegvísi um vistvæna mannvirkjagerð.

Aðgerðirnar sem kynntar eru í vegvísinum eru 74 talsins, sem dæmi má nefna eflingu hringrásarkerfisins, samræmda aðferðarfræði við útreikninga á kolefnisspori bygginga og vistvæna steypu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Í tilkynningunni segir að samstarfsvettvangurinn sé mikilvægur í ljósi þess að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á 30 til 40 prósent af losun á heimsvísu. Í vegvísinum kemur fram að 45 prósent af kolefnisspori íslenskra bygginga komi frá byggingarefnum svo sem steypu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun skipa nýja verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að fylgja innleiðingu verkefnisins eftir. Stefnt er að því að endurmeta losun mannvirkjageirans fyrir lok ársins 2024.

Hátt í 200 einstaklingar innan mannvirkjageirans tóku þátt í gerð vegvísisins og eru 23 aðgerðir af 74 komnar í ferli eða þeim lokið nú þegar. Allir hagaðilar munu hafa tækifæri til þess að koma með athugasemdir hvað vegvísinn varðar og verður svo unnið úr þeim. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.