Innherji

Heiðar veltir Gildi úr sessi sem stærsti hluthafi Sýnar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, er orðinn stærsti hluthafi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins eftir að hafa keypt bréf fyrir 115 milljónir í dag. 

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að Heiðar hafi keypt 2 milljónir bréfa á genginu 57,5 í gegnum fjárfestingafélagið Ursus. 

Fyrir viðskiptin var Gildi lífeyrissjóður stærsti hluthafi Sýnar með nærri 12,5 prósenta hlut og Ursus, fjárfestingafélag Heiðars, annar stærsti hluthafinn með um 10,1 prósents hlut. Auk þess átti Ursus fimm milljónir hluta, sem jafngildir um 1,8 prósenta hlut, í gegnum framvirka samninga. 

Eftir viðskipti dagsins og þegar framvirku samningarnir eru teknir með í reikninginn er eignarhlutur Heiðars kominn upp í 12,7 prósent.

Hlutabréfaverð Sýnar í Kauphöllinni stendur nú 59,5 krónum hefur hækkað um heil 13,3 prósent það sem af er degi. Þannig er gengislækkun bréfanna í maí gengin til baka og rúmlega það. 

Bréf Sýnar hækkuðu verulega í verði síðastliðinn vetur, úr 40 krónum í lok september upp í 67 krónur um miðjan febrúar, en síðan þá hafa stríðsátökin í Úkraínu og efnahagslegar afleiðingar þeirra litað verðþróun fjarskiptafélagsins og annarra skráðra félaga.

Á fyrsta ársfjórðungi námu tekju Sýnar 5.682 milljónum króna og jukust þær um 682 milljónir á milli ára. Hagnaður fjórðungsins nam 207 milljónum króna samanborið við tap upp á 231 milljón á sama fjórðungi í fyrra.

Í uppgjörstilkynningunni sagði Heiðar ánægjulegt að sjá 14 prósenta innri tekjuvöxt milli ára og að horfurnar væru góðar.

„Ofan á það bætist fyrirsjáanlegur vöxtur í starfseminni vegna bættrar þjónustu, nýs vöruframboðs og uppbyggingar 5G og tengdrar tækni,“ sagði Heiðar.

„Ýmsir þættir rekstrar sem fóru úr skorðum vegna COVID koma nú jákvæðir inn í rekstur þegar líða tekur á árið. Við sjáum strax aukningu tekna hjá Endor, aukningu í reiki, auk þess sem auglýsingasala er á góðri uppleið.“

Innherji er undir hatti Sýnar hf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.