Innherji

BBA//Fjeldco varar við frum­varpi sem girðir fyrir er­lenda fjár­festingu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lögin ná einnig yfir félög sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað.
Lögin ná einnig yfir félög sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað. VÍSIR/VILHELM

Erlend fjárfesting mun dragast saman ef lagafrumvarp, sem gerir það að verkum að margir af stærstu hlutabréfafjárfestum heims geta ekki fjárfest í íslensku atvinnulífi, verður samþykkt í óbreyttri mynd. Þetta kemur fram í umsögn Einars Baldvins Árnasonar, meðeiganda lögmannastofunnar BBA//Fjeldco, um frumvarp til breytingar á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.

Lögunum var síðast breytt árið 2020 en þá var nýrri málsgrein bætt við sem kom í veg fyrir að erlendu ríki, stjórnvaldi, ríkisfyrirtæki eða öðrum erlendum opinberum aðila yrði veitt undanþága til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi.

„Framangreind breyting hefur þegar leitt til þess að aðilar sem falla undir framangreint bann hafa hætt við að fjárfesta á Íslandi, þótt slík fjárfesting hafi ekki falið í sér beina fjárfestingu í fasteign,“ segir í umsögninni.

Önnur viðskipti hafa þó gengið í gegn þar sem fjárfestir var félag sem nýtur réttar hér á landi samkvæmt reglum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eða samsvarandi ákvæða í stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Fari frumvarpið óbreytt í gegn er að minnsta kosti skýrt að erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi mun dragast saman, enda hefur mörgum af stærstu hlutabréfafjárfestum heimsins verið gert það óheimilt

Sú breyting á lögunum sem nú er til meðferðar hjá Allsherjar- og menntamálanefnd mun hins vegar koma í veg fyrir að slík viðskipti nái fram að ganga. Að sögn Einars er því fyrirséð að lagabreytingin mun hafa þær afleiðingar að fjölmargir aðilar munu ekki geta fjárfest á Íslandi og hafa aukinheldur enga möguleika á að afla undanþágu.

Lögunum hefur verið beitt með þeim hætti að gildissvið þeirra nær bæði til beinna kaupa og beins afnotaréttar á fasteignum og til kaupa á félögum sem njóta réttinda yfir fasteignum. Þannig koma ákvæði laganna til álita þegar erlendur aðili kaupir félag sem annað hvort á fasteign eða er með leigusamning um fasteign sem gildir til minnst 3 ára.

„Gildissvið laganna nær því til næstum allra erlendrar fjárfestingar í atvinnurekstri sökum þess að nær öll íslensk félög eiga slík réttindi til fasteigna,“ segir í umsögninni.

Auk þess er bent á að hugtakið „annar erlendur opinber aðili“ sé skilgreint með mjög víðtækum hætti og undir þá skilgreiningu falli margir af stærstu hlutabréfasjóðum heimsins, norski olíusjóðurinn, svokallaðir þjóðarsjóðir, opinberir lífeyrissjóðir og fjárfestingasjóðir.

Dæmi er um að slíkir sjóðir, eins og meðal annars norski olíusjóðurinn og þjóðarsjóður Kúveit, hafi fjárfest í skráðum félögum hér á landi á undanförnum árum.

Einar Baldvin Árnason, meðeigandi BBA//Fjeldco

Hin víðtæka skilgreining á öðrum erlendum opinberum aðila og sú lagabreyting sem lögð hefur verið til mun því að öllum líkindum, segir lögmannastofan, leiða til þess að aðilar, t.d. fjárfestingasjóðir sem afla meirihluta fjármagns frá aðilum utan EES, falli undir bannákvæðið án möguleika á undanþágu.

„Því [er] til staðar blátt bann við fjárfestingu slíkra aðila á Íslandi, hvort sem er um að ræða beina fjárfestingu í fasteign en einnig og öllu alvarlegra, í öllum íslenskum félögum sem njóta réttinda til fasteigna,“ segir jafnframt í umsögninni.

„Fari frumvarpið óbreytt í gegn er að minnsta kosti skýrt að erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi mun dragast saman, enda hefur mörgum af stærstu hlutabréfafjárfestum heimsins verið gert það óheimilt og enginn möguleiki á því að sækja um undanþágu frá þessu fortakslausa banni.“

Þá telur lögmannastastofan afar hæpið að takmarka heimild aðila sem njóta réttinda samkvæmt reglum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eða samsvarandi ákvæða í stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu með hliðsjón af skyldum Íslands.

Engin undanþága fyrir skráð fyrirtæki

Lögin ná einnig yfir félög sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað. „Eftir umrædda lagabreytingu verður aðilum sem eru undir yfirráðum annarra opinberra aðila óheimilt að eignast meira en 20 prósent hlutafjár í skráðu félagi og gildir þar einu hvort um einstakan fjárfesti sé að ræða eða marga fjárfesta, bannið mun gilda þegar að fjárfesting slíkra aðila er samanlagt komin umfram 20 prósent, og engin heimild er til staðar til að heimila slík viðskipti.“


Tengdar fréttir

Norski olíusjóðurinn með meira en 30 milljarða undir á Íslandi

Olíusjóður Noregs, stærsti fjárfestingasjóður í ríkiseigu í heiminum, jók talsvert við verðbréfaeign sína á Íslandi á síðasta ári. Eignir sjóðsins, sem eru einkum skuldabréf á ríkissjóð og íslensk félög, námu samtals 246 milljónum Bandaríkjadala í árslok 2021, jafnvirði um 32 milljarða króna, og hefur verðbréfaeign olíusjóðsins ekki verið meiri hér á landi í liðlega fimmtán ár.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×