Viðskipti erlent

Króatía tekur upp evruna á næsta ári

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Króatía stefnir að því að taka upp evruna í byrjun næsta árs.
Króatía stefnir að því að taka upp evruna í byrjun næsta árs. GETTY/ Philipp von Ditfurth

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að Króatía uppfylli öll skilyrði til þess að taka upp evruna, strax á næsta ári. Minna en áratugur er liðinn síðan Króatía gekk í Evrópusambandið.

Króatía mun taka upp evruna strax í byrjun næsta árs. Þetta tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í dag. Með gjaldmiðilsbreytingunni verður Króatía tuttugasta landið til þess að nota evruna. 

„Í dag tók Króatía stórt skref í átt þess að taka upp evruna, sameiginlegan gjaldmiðil okkar,“ skrifar Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB á twitter. Hún sagði þá í yfirlýsingu að með því að taka upp gjaldmiðilinn muni efnahagur Króatíu styrkjast. 

Með breytingunni mun Króatía leggja gjaldmiðil sinn, kúnuna, á hilluna tæpum áratug eftir að ganga til liðs við ESB. 

Þó svo að aðildarríki ESB séu hvött til þess að taka upp evruna er það ekki sjálfgefið og þau fá ekki rétt til þess að taka hana upp einungis með því að ganga í sambandið. Fyrst þurfa þau að uppfylla bæði lagaleg- og efnahagsleg skilyrði. Þar á meðal er lítill halli í ríkissjóði og lítil verðbólga. 

Evrópuþingið og öll 27 aðildarríki ESB þurfa að samþykkja tillögu framkvæmdastjórnar ESB um að leyfa Króatíu að taka upp evruna. Endanleg niðurstaða í málinu gæti legið fyrir strax í júlí.

Króatía stefnir að því að skipta kúnunni út fyrir evruna 1. janúar næstkomandi. 

Búlgaría stefnir sömuleiðis að því að taka upp evruna og er markmiðið sett á að taka hana upp í janúar 2024. Aðildarríki ESB hafa hins vegar lýst áhyggjum af langtímastöðugleika efnahagsins í Búlgaríu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×