Innherji

Fjármálastjóri Kviku kaupir í bankanum fyrir um 10 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Ragnar Páll Dyer, fjármálastjóri Kviku banka.
Ragnar Páll Dyer, fjármálastjóri Kviku banka.

Ragnar Páll Dyer, fjármálastjóri Kviku, keypti í morgun hlutabréf í bankanum fyrir tæplega 10 milljónir króna. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar keypti hann samtals 500 þúsund hluti á genginu 19,7 krónur á hlut.

Kaup Ragnars koma aðeins þremur dögum eftir að forstjóri Kviku, Marinó Örn Tryggvason, seldi bréf í bankanum fyrir um 67 milljónir króna. Í tilkynningu til Kauphallarinnar síðastliðinn föstudag var greint frá því að Marinó hefði selt 3,3 milljónir hluta á genginu 20,4 krónur á hlut.

Fyrr í þeirri viku hafði hann nýtt sér áskriftarréttindi að bréfum í Kviku þar sem Marinó keypti 5 milljón bréf á genginu 7,57. Nam kaupverðið því um 38 milljónum króna.

Þá seldi Thomas Skov Jensen, framkvæmdastjóri áhættustýringar Kviku, einnig í sömu viku 1,4 milljónir hluta í bankanum á genginu 20,65 krónur á hlut, eða fyrir samtals um 29 milljónir króna.

Sala stjórnenda í bankanum kemur á sama tíma og Kvika stendur að kaupum á eigin bréfum. Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í gærkvöldi kom fram að Kvika hefði í síðustu viku keypt samtals 8 milljónir eigin hluti fyrir rúmlega 164 milljónir króna.

Hlutabréfaverð Kviku hefur lækkað um 0,25 prósent í um 75 milljóna króna veltu í Kauphöllinni það sem af er degi. Gengi bréfa bankans féll um tæplega 3 prósent síðastliðinn föstudag, en sú lækkun kom að stórum hluta í kjölfar þess að tilkynnt var um sölu forstjórans á bréfum í Kviku.

Hlutabréfaverð Kviku stendur núna í 19,75 krónum á hlut og hefur lækkað um rúmlega 26 prósent frá áramótum. Það hefur fallið um meira en 30 prósent frá þeim tíma þegar það stóð hvað hæst um miðjan nóvember.

Hagnaður Kviku banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1.740 milljónum króna, sem var í samræmi við áætlanir á fjórðungnum, og arðsemi af efnislegu eigin fé félagsins fyrir skatta var 16,1 prósent.

Þá var fyrr í maí tilkynnt um að alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s hefði í fyrsta sinn úthlutað Kviku banka Baa2 langtíma- og Prime-2 skammtíma- lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki fyrir móttöku innstæða og útgáfu skuldabréfa.

Lánshæfiseinkunn Kviku, sem er sú fyrsta sem bankinn fær frá einu af alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum, er sambærileg þeim sem stóru viðskiptabankarnir þrír eru með hjá hinum matsfyrirtækjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×