Innherji

Engin áform uppi um hlutafjáraukningu, segir forstjóri Play

Hörður Ægisson skrifar
Birgir Jónsson forstjóri Play sagði á uppgjörsfundi í morgun að olíuvarnir væru „áhættusamt“ veðmál, sem mörg flugfélög hafi farið flatt á, og það myndi aðeins koma í ljós þegar samningarnir eru gerðir upp hver niðurstaðan af þeim yrði.
Birgir Jónsson forstjóri Play sagði á uppgjörsfundi í morgun að olíuvarnir væru „áhættusamt“ veðmál, sem mörg flugfélög hafi farið flatt á, og það myndi aðeins koma í ljós þegar samningarnir eru gerðir upp hver niðurstaðan af þeim yrði. Mynd/PLAY

Þrátt fyrir miklar hækkanir á olíuverði eftir innrás Rússa í Úkraínu þá segir forstjóri Play að engar breytingar séu á fyrri rekstraráætlunum flugfélagsins fyrir þetta ár. Enn sé búist við því að einingakostnaður Play, að frátöldum eldsneytiskostnaði, muni minnka jafnt og þétt undir fjögur sent í sumar og að félagið verði farið að skila rekstrarhagnaði á seinni hluta ársins.

Þetta kom fram í máli Birgis Jónssonar, forstjóra Play, á uppgjörskynningu í morgun en þar tók hann einnig sérstaklega fram að félagið væri ekki með neins konar áform uppi um að sækja aukið fjármagn í reksturinn, meðal annars með því að ráðast í hlutafjáraukningu, og að lausafjárstaðan væri sterk.

Tekjur Play námu 9,6 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi og rekstrartap fyrir fjármagnsliði (EBIT) var 13,3 milljónir dala. Í uppgjörstilkynningu í gær sagði að tapið væri viðbúið þar sem félagið væri ekki búið að ná tilætlaðri stærðarhagkvæmni. Þá hefði stríðið í Úkraínu og ómikrón-afbrigði kóróniveirunnar haft neikvæð áhrif á afkomuna undir lok fjórðungsins.

Úr fjárfestakynningu Play.

Handbært fé Play minnkaði um tæplega 10 milljónir tala á fyrstu þremur mánuðum ársins og var um 42 milljónir dala í lok fjórðungsins. Þá stóð eiginfjárhlutfallið í 22 prósentum en flugfélagið er með engar ytri vaxtaberandi skuldir.

Fram kom í máli Birgis á fundinum að stríðsátökin í Úkraínu hefðu ekki haft áhrif á sölu félagsins en hins vegar mikil áhrif á eldsneytiskostnaðinn. Play hefur núna ákveðið að innleiða olíuvarnir með samkomulagi við Skeljung en félagið hyggst þannig verja um 20 prósent af eldsneytiskostnaðinum til næstu þriggja mánaða og 10 prósent til næstu sex mánaða.

Með því að innleiða olíuvarnir í reksturinn er Play að skuldbinda sig til að kaupa tiltekið magn af þotueldsneyti á fyrirfram ákveðnu verði fram í tímann. Birgir viðurkenndi á fundinum að slíkar olíuvarnir væru í grunninn „áhættusamt“ veðmál, sem mörg flugfélög hafi farið flatt á, og það myndi aðeins koma í ljós þegar samningarnir eru gerðir upp síðar hver fjárhagslega niðurstaðan af þeim yrði.

Tunnan af Brent hráolíu stendur núna í 115 Bandaríkjadölum og hefur verðið hækkað um liðlega 45 prósent frá áramótum.

Úr fjárfestakynningu Play.

Stríðið í Úkraínu og hækkandi olíuverð hefur ekki breytt „stóru myndinni“ fyrir rekstrarhorfur Play, að sögn Birgis, og félagið mun starfrækja sex vélar í sumar og á næsta ári verður flotinn stækkaður í tíu vélar.

Vegna hækkandi olíuverðs hefur Play hins vegar ákveðið að gera breytingu á samsetningu flugvélaflotans með því að skipta fyrirhugaðri Airbus A321neo LR út fyrir Airbus 320neo, sem hentar betur fyrir styttri flug, á hagstæðari kjörum og þannig lækka rekstrarkostnað félagsins til lengri tíma litið. Við þessar breytingar þurfti Play að hætta við flug til Orlando, eins og til stóð að gera þrisvar í viku frá og með 30. september á þessu ári.

Í fjárfestakynningu Play kemur fram að einingatekjur félagsins (RASK) hafi aukist um meira en 40 prósent frá þriðja fjórðungi í fyrra – úr 2,9 sentum í 4 sent. Í apríl, þegar félagið flutti um 37 þúsund farþega og sætanýtingin var rúmlega 72 prósent, hækkuðu einingatekjurnar enn frekar og námu 5,4 sent.

Rekstrarkostnaður Play var samtals rúmlega 18,2 milljónir dala á fyrstu þremur mánuðum ársins og einingakostnaðurinn var 9,5 sent borið saman við 9,1 sent á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þar munar um aukinn eldsneytiskostnað, sem var um 4,2 milljónir dala á fjórðungnum, eða tæplega 19 prósent af öllum rekstrarkostnaði Play en til samanburðar var hann undir 15 prósentum á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Sé hins vegnar eldsneytiskostnaðurinn undanskilin þá hefur einingakostnaður Play farið ört lækkandi að undanförnu og var núna um 5,3 sent.

Hlutabréfaverð Play hefur lækkað í dag um tæplega 0,3 prósent í 4 milljóna króna veltu í Kauphöllinni og stendur í 19,5 krónum á hlut. Það er rúmlega tveimur prósentum lægra en útboðsgengið var hjá stærri fjárfestum – þeim sem skráðu sig fyrir 20 milljónum eða meira – í tilboðsbók B í hlutafjárútboði félagsins í lok júní í fyrra þar sem þeir tóku þátt á genginu 20 krónur á hlut. Almennir fjárfestar keyptu hins vegar í útboðinu á genginu 18 krónur á hlut.

Áttföld umframeftirspurn var í hlutafjárútboðinu fyrir um ári þar sem flugfélagið sótti sér samtals 4,3 milljarða króna í nýtt hlutafé. Áður höfðu fjárfestar lagt Play til um sex milljarða króna í hlutafé í lokuðu útboði sem fór fram vorið 2021. Sú fjármögnun fór fram á genginu 15,875 krónur á hlut.

Markaðsvirði félagsins stendur nú í 13,7 milljörðum króna en fór hæst upp í 20,5 milljarða um miðjan október á síðasta ári þegar gengi bréfa Play stóð í 29,2 krónum á hlut. Frá þeim tíma hefur hlutabréfaverðið hins vegar lækkað um þriðjung.

Stærstu hluthafar Play eru fjárfestingafélagið Fiskisund, sem er meðal annars í eigu Einars Arnar Ólafssonar, stjórnarformanns flugfélagsins, Birta lífeyrissjóður og Stoðir.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.