Innherji

Hlutabréfaverð Play komið undir útboðsgengi félagsins í fyrra

Hörður Ægisson skrifar
Gengi bréfa Play fór hæst upp í 29,2 krónur á hlut um miðjan október í fyrra. Frá þeim tíma hefur hlutabréfaverðið hins vegar lækkað um þriðjung.
Gengi bréfa Play fór hæst upp í 29,2 krónur á hlut um miðjan október í fyrra. Frá þeim tíma hefur hlutabréfaverðið hins vegar lækkað um þriðjung. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Hlutabréfaverð Play, sem hefur lækkað um nærri 16 prósent frá áramótum, er í fyrsta sinn komið undir það gengi sem stærri fjárfestar keyptu á í almennu hlutafjárútboði og í kjölfarið skráningu flugfélagsins á markað fyrir nærri einu ári síðan.

Gengi bréfa Play lækkaði um tæplega þrjú prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í gær og við lokun markaða stóð það í 19,55 krónum á hlut. Það er rúmlega tveimur prósentum lægra en útboðsgengið var hjá stærri fjárfestum – þeim sem skráðu sig fyrir 20 milljónum eða meira – í tilboðsbók B í hlutafjárútboði félagsins í lok júní í fyrra þar sem þeir tóku þátt á genginu 20 krónur á hlut. Almennir fjárfestar keyptu hins vegar í útboðinu á genginu 18 krónur á hlut.

Áttföld umframeftirspurn var í hlutafjárútboðinu þar sem flugfélagið sótti sér samtals 4,3 milljarða króna í nýtt hlutafé.

Markaðsvirði félagsins stendur nú í tæplega 14 milljörðum króna en fór hæst upp í 20,5 milljarða um miðjan október á síðasta ári þegar gengi bréfa Play stóð í 29,2 krónum á hlut. Frá þeim tíma hefur hlutabréfaverðið hins vegar lækkað um þriðjung.

Gengisþróunin hjá Icelandair, helsta keppinaut Play, hefur verið sambærileg en bréf þess félags hafa lækkað um 14 prósent frá áramótum og eru nú 1,57 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair stóð hvað hæst í 2,29 krónum á hlut um miðjan febrúar fyrr á árinu en frá þeim tíma hefur það lækkað um meira en 30 prósent.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er til samanburðar niður um 20 prósent það sem af er þessu ári.

Innrás Rússa í Úkraínu fyrir rétt rúmum þremur mánuðum hefur valdið enn frekari hækkunum á ýmsum hrávörum, meðal annars olíuverði, en tunnan af Brent hráolíu kostar nú 112 Bandaríkjadali og hefur hækkað í verði um 44 prósent frá áramótum. Þá hafa hlutabréfamarkaðir beggja vegna Atlantshafsins lækkað skarpt síðustu vikur vegna ótta fjárfesta um versnandi hagvaxtarhorfur samtímis því að helstu seðlabankar heimsins þurfa að hækka vexti hraðar og meira en áður var búist við til að stemma stigu við ört hækkandi verðbólgu.

Play birti uppgjör sitt fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða í gær en þar kom fram að rekstrartap fyrir fjármagnsliði (EBIT) hefði verið 13,3 milljónir dala, jafnvirði 1,7 milljarða króna. Í tilkynningu frá Play sagði að tapið væri viðbúið þar sem félagið hefði enn ekki náð tilætlaðri stærðarhagkvæmni. Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar hafði áhrif á tekjur á ársfjórðungnum og stríðið í Úkraínu hafði þau áhrif að olíuverð hækkaði undir lok fjórðungsins, sem hvort tveggja hafði neikvæð áhrif á fjárhagslega afkomu félagsins.

Félagið flutti samtals um 60 þúsund farþega á fyrsta fjórðungi ársins og heildartekjur námu um 9,6 milljónum dala. Í útboðslýsingu flugfélagsins sem var gefin út í aðdraganda skráningar á markað í fyrra var ráðgert að tekjur félagsins á öllu árinu 2022 yrðu um 170 milljónir dala.

Fjárhagsstaða Play er sögð sterk en handbært fé þann 31. mars var 42,12 milljónir Bandaríkjadala og eiginfjárhlutfallið stóð í 22 prósentum. Félagið er með engar ytri vaxtaberandi skuldir. Þá sagði í tilkynningunni að félagið hafi náð góðum árangri við að halda kostnaði niðri og að einingarkostnaður fari lækkandi með auknum umsvifum. Play áætlar að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs, þar sem einingakostnaður, að frátöldum eldsneytiskostnaði, minnki jafnt og þétt. Gert sé ráð fyrir einingarkostnaði undir fjórum sentum sumarið 2022.

Í tilkynningunni frá Play í gær sagði að félagið hafi nú hafið innleiðingu á olíuvörnum. Búið sé að gera samkomulag við Skeljung sem samræmist stefnu félagsins um olíuvarnir.

„Fyrsta varfærna skrefið hefur verið stigið í innleiðingu á stefnunni og fylgst verður áfram náið með sveiflum í efnahagsmálum í heiminum fyrir næstu skref. Olíugjaldið sem lagt var á flugfargjöld fyrirtækisins í mars hefur hins vegar mildað hluta af hækkun á olíuverði,“ að því er fram kom í tilkynningunni.

Í verðmati sem greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital gaf út í lok síðasta mánaðar, og Innherji hefur áður fjallað um, kom meðal annars fram að með olíuverð í hæstu hæðum og gengi krónunnar gagnvart evru að nálgast það gildi sem það var í fyrir upphaf farsóttarinnar þá væri „ljóst að það eru krefjandi tímar framundan hjá Play.“

Þrátt fyrir að ferðavilji Íslendinga sé mikill er meiri óvissa með erlendu ferðamennina. „Eftirspurn eftir flugferðum innanlands er mikil en kostnaðarliðir keyra fram úr áætlun og samkeppnisstaðan er þung sérstaklega gagnvart öðrum lággjaldaflugfélögum í Evrópu,“ sagði í greiningu Jakobsson.

Við þessar aðstæður sé erfitt að ná rekstrarhagnaði þótt að tekjur séu „oft þokkalegar“. Það séu þó ljósir punktar og átökin í Úkraínu virðast lítið hafa dregið úr ferðavilja til Íslands og veturinn í ferðaþjónustu hefur verið góður miðað við aðstæður. Tölur um fjölda farþega og nýtingu flugsæta lofa einnig góðu hjá Play en nýtingin var rúmlega 72 prósent í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir

Segir tenginguna marka þáttaskil í rekstri Play

Fyrsta ferð Play vestur um haf var flogin frá Keflavíkurflugvelli í dag. Að sögn forstjóra félagsins markar tenging á milli Bandaríkja og Evrópu í gegnum Ísland þáttaskil í rekstrinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.