Innherji

Nýir stjórnendur SKEL og Kristín Erla koma inn í stjórn Kaldalóns

Ritstjórn Innherja skrifar
Ásgeir Helgi Reykjörð Gylfason, Magnús Ingi Einarsson og Kristrín Erla Jóhannsdóttir.
Ásgeir Helgi Reykjörð Gylfason, Magnús Ingi Einarsson og Kristrín Erla Jóhannsdóttir.

Á hluthafafundi Kaldalóns síðar í vikunni, sem var boðað til að beiðni SKEL fjárfestingafélags, stærsta hlutahafans, verður stjórnarmönnum fasteignafélagsins fjölgað úr þremur í fimm. Nýráðnir stjórnendur SKEL, þeir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason og Magnús Ingi Einarsson, munu báðir koma inn í stjórn Kaldalóns en þeir hefja störf hjá fjárfestingafélaginu í byrjun júlí.

Þá mun Kristín Erla Jóhannsdóttir, sem var forstöðumaður eignastýringar hjá Landsbankanum á árunum 2015 til 2021, einnig taka sæti í stjórn Kaldalóns. Hún situr einnig í stjórn HS Veitna og nýjum innviðasjóði Summu rekstrarfélags sem kemur meðal annars að kaupunum á Mílu. 

Almar Þór Möller, sem kom inn í stjórn Kaldalóns í byrjun síðasta mánaðar, fer úr stjórninni eftir hluthafafundinn sem fer fram miðvikudaginn 25. maí. Aðrir sem skipa stjórn fasteignafélagsins, sem er skráð á First North-markaðinn í Kauphöllinni, eru Álfheiður Ágústsdóttir og Gunnar Henrik Gunnarsson.

Álfheiður, sem kom ný inn í stjórn Kaldalóns í liðnum mánuði, er forstjóri Elkem á Íslandi og Gunnar er eigandi Prooptik og Augað og á meðal hluthafa í fjárfestingafélaginu Strengur Holding, næst stærsta hluthafa Kaldalóns með tæplega 13 prósenta hlut.

Í síðasta mánuði var tilkynnt um að SKEL hefði ráðið Ásgeir Reykfjörð, aðstoðarbankastjóra Arion banka, í starf forstjóra fjárfestingafélagsins og hefur hann störf í sumar. Þá var Magnús Ingi, framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku banka, fenginn til að taka við sem fjármálastjóri SKEL. Fjárfestingafélagið fer með rúmlega 18 prósenta hlut í Kaldalón.

Aðrir helstu hluthafar Kaldalóns eru sjóðir í stýringu Stefnis, tryggingafélagið VÍS og félag í eigu Jonathan B. Rubini, eins ríkasta manns Alaska og meðal annars stór hluthafi í Nova og Keahótelum.

Á síðasta ári nam hagnaður Kaldalóns tæplega 1,4 milljörðum króna og var arðsemi á eigið fé um 20,6 prósent. Eftir kaup Kaldalóns á 13 þjónustustöðvum af Skeljungi munu heildareignir samstæðunnar, sem eru samtals um 64 þúsund fermetrar, nema um 27 milljörðum króna. Gangverð tekjuberandi eigna er tæplega 22 milljarðar en vaxtaberandi skuldir fasteignasafnsins eru um 12,5 milljarðar króna.

Frá áramótum hefur hlutabréfaverð Kaldalón lækkað um 10 prósent og nemur markaðsvirði félagsins tæplega 13 milljörðum í dag. Skráning á Aðalmarkað er áætluð næstkomandi haust.


Tengdar fréttir

Stjórnendakapall í Kauphöllinni: Ásgeir og Magnús taka við stjórn SKEL

Fjárfestingafélagið SKEL hefur ráðið Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóra Arion banka, í starf forstjóra og Magnús Inga Einarsson, framkvæmdastjóra bankasviðs Kviku banka, í starf fjármálastjóra félagsins. Þetta kemur fram í tilkynning fjárfestingafélagsins til Kauphallarinnar. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.