Innherji

Stjórnendakapall í Kauphöllinni: Ásgeir og Magnús taka við stjórn SKEL

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason og Magnús Ingi Einarsson.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason og Magnús Ingi Einarsson.

Fjárfestingafélagið SKEL hefur ráðið Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóra Arion banka, í starf forstjóra og Magnús Inga Einarsson, framkvæmdastjóra bankasviðs Kviku banka, í starf fjármálastjóra félagsins. Þetta kemur fram í tilkynning fjárfestingafélagsins til Kauphallarinnar. 

Ásgeir hefur gegnt starfi aðstoðarbankastjóra Arion banka og framkvæmdastjóra fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs frá árinu 2019. Hann lætur af störfum á næstu dögum og mun hefja störf hjá SKEL um mitt sumar. Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, mun nú jafnframt gegna starfi aðstoðarbankastjóra. 

Magnús Ingi, sem mun hefja störf sem fjármálastjóri SKEL seinni part sumars, hefur starfað hjá Kviku banka og forverum hans frá árinu 2006, og setið í framkvæmdastjórn frá árinu 2015. Ólöf Jónsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs Kviku frá apríl 2021, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri bankasviðs í hans stað.

Samhliða ráðningunum lætur Ólafur Þór Jóhannesson af störfum sem forstjóri SKEL en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2019, þar af sem forstjóri frá því í febrúar árið 2022.

Í tilkynningu frá SKEL er haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni stjórnarformanni að Ásgeir og Magnús muni „hrinda í framkvæmd áframhaldandi umbreytingu félagsins, þar sem lögð verður áhersla á fjárfestingar í fyrirtækjum og þróun fyrirtækja.“

Iða Brá Benediktsdóttir er nýr aðstoðarbankastjóri Arion banka.

Þá mun Margrét Sveinsdóttir einnig láta af störfum hjá Arion banka eftir að hafa sinnt starfi framkvæmdastjóra eignastýringar, síðar markaða, frá árinu 2009. Margrét mun láta af störfum á næstu vikum. Jóhann Möller, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Stefnis undanfarin ár, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaða og mun taka sæti í framkvæmdastjórn Arion banka á næstu vikum.

Hákon Hrafn Gröndal, lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði Arion banka, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs bankans og hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn.

Anna Rut Ágústsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar- og þróunarsviðs Kviku banka, en hún hefur gegnt starfi forstöðumanns fjármála- og rekstrarsviðs hjá Kviku eignastýringu, dótturfélagi Kviku, frá ársbyrjun 2020. Anna Rut hefur starfað hjá samstæðu Kviku og forverum frá árinu 2007, m.a. sem forstöðumaður útlánaáhættu hjá Straumi fjárfestingarbanka hf. á árunum 2012 til 2015.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.