Innherji

Endurnýjaðir leigusamningar Ölmu ekki hækkaðir umfram verðbólgu

Hörður Ægisson skrifar
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1 prósent í apríl og hefur hún ekki hækkað meira á einum mánuði síðan í júní 2020.
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1 prósent í apríl og hefur hún ekki hækkað meira á einum mánuði síðan í júní 2020.

Stjórn Ölmu íbúðafélags hefur ákveðið að út þetta ár verði endurnýjaðir leigusamningar félagsins ekki hækkaðir umfram hækkun vísitölu neysluverðs en hún mælist núna 7,2 prósent.

„Mikil óvissa er uppi um þróun efnahagsmála á Íslandi og í heiminum öllum á næstu misserum. Með þessari aðgerð vill stjórn Ölmu íbúðafélags koma til móts við leigutaka fyrirtækisins og auka fyrirsjáanleika í útgjöldum þeirra á þessu og næsta ári,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Alma, sem hét áður Almenna leigufélagið, er eitt stærsta leigufélag landsins með um 1.100 íbúðir sem það á og rekur á höfuðborgarsvæðinu og víðsvegar um landið.

Þá segist stjórn Ölmu einnig binda vonir við að þessi „frysting leiguverðs“ muni verða til þess að stjórnvöld, sveitarfélög og lífeyrissjóðir geri það sem í þeirra valdi stendur til að jafna starfsumhverfi ólíkra tegunda leigufélaga.

„Á það meðal annars við um úthlutun lóða til frekari uppbygginga leiguíbúða, jöfnun niðurgreiðslu á leigu til viðskiptavina ólíkra leigufélaga og viðurkenningu á því að íbúðaleigufélög eiga að njóta betri kjara á skuldum sínum en félög sem leigja atvinnufasteignir. Einnig þurfa stjórnvöld að hækka húsnæðisbætur enn frekar til að mæta hækkun húsnæðiskostnaðar,“ að því er segir í tilkynningunni.

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1 prósent í apríl og hefur hún ekki hækkað meira á einum mánuði síðan í júní 2020. Á síðustu tólf mánuðum hefur leiguverð hækkað um rúmlega átta prósent en á sama tíma hefur húsnæðisverð hækkað um meira en 22 prósent.

Eftir vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans í febrúar síðastliðnum sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafa áhyggjur af því fólki sem kæmist ekki inn á fasteignamarkaðinn.

„Núna þegar við erum í reynd að takmarka möguleika fólks á því að kaupa fasteignir, með því að hækka vexti, er hætta á því að það sprengi um leið leigumarkaðinn og við munum sjá ungt fólk lenda í erfiðleikum með að standa undir hækkandi leiguverði. Þetta eru þættir sem þarf að huga að,“ að sögn Ásgeirs.

Í tilkynningu Ölmu er bent á að það sé „alkunna“ að leiguverð hafi ekki fylgt hækkun fasteignaverðs. Samkvæmt mælingum Þjóðskrár þá hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 60 prósent síðustu fimm árin en leiguverð hefur hækkað helmingi minna.

Alma segir hafa unnið eftir þeirri stefnu undanfarna mánuði að uppfæra leiguverð svo að það endurspegli betur markaðsvirði undirliggjandi eigna en einnig með það að markmiði að sambærilegar íbúðir skuli leigjast út á sambærilegu verði. „Það hefur leitt til þess að einstaka leigjendur hafa þurft að taka á sig þónokkrar hækkanir til að ná jafnvægi í leiguverði í eignasafninu,“ segir félagið.

Alma er í eigu fjárfestingafélagsins Langisjór. Það félag er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna sem meðal annars eru kennd við heildverslunina Mata en þau keyptu leigufélagið um mitt árið í fyrra fyrir um ellefu milljarða króna.


Tengdar fréttir

Kaupa leigufélagið Ölmu á ellefu milljarða

Eignarhaldsfélagið Langisjór, sem er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, hefur fest kaup á öllu hlutafé í leigufélaginu Ölmu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×