Innherji

Alfa framtak bætti við hlut sinn í Nox og hækkaði verðmatið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa framtaks. 
Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa framtaks.  Ljósmynd/Hulda Margrét

Framtakssjóðastýringin Alfa framtak verðmetur Nox Holding, sem heldur á um 76 prósenta hlut í heilsutæknisamstæðunni Nox Health, á nærri 12 milljarða króna og hækkaði verðmatið töluvert milli ára. Þetta má lesa úr ársreikningi framtakssjóðsins Umbreytingar.

Umbreyting, sem Alfa framtak setti á laggirnar árið 2018 og er 7 milljarðar króna að stærð, fjárfesti í Nox Holding árið 2019. Í árslok 2020 var 18,5 prósenta eignarhlutur framtakssjóðsins bókfærður á 1,3 milljarða króna sem þýddi að Nox Holding var verðmetið á ríflega 7 milljarða.

Þetta var fyrsta heila rekstrarárið eftir samruna Nox Medical og bandaríska systurfélagsins FusionHealth undir merkjum Nox Health. Samstæðan, sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á tækjum fyrir svefngreiningar, velti þá um 5,3 milljörðum króna.

Fram kemur í nýbirtum ársreikningi Umbreytingar að Alfa framtak hafi stækkað eignarhlutinn í 31,3 prósent og er hann bókfærður á tæplega 3,8 milljarða króna. Nox Holding, sem heldur á 76 prósenta hlut í Nox Health-samstæðunni eins og áður kom fram, er því verðmetið á um 12 milljarða króna í heild sinni samkvæmt Alfa framtaki.

Í nýlegri umfjöllun Innherja um fjárfestingar Alfa framtaks kom fram að velta Nox-samstæðunnar hefði numið um 6,6 milljörðum króna á síðasta ári.

Íslenskir framtakssjóðir hafa á síðustu misserum lagt aukna áherslu á fjárfestingar í vaxtarfyrirtækjum. VEX I, nýr 10 milljarða sjóður í stýringu VEX, hefur þannig fjárfest í þremur fyrirtækjum á sviði hugbúnaðarþróunar og upplýsingatækni á tæplega einu ári fyrir fimm milljarða króna.

SÍA IV, 16 milljarða sjóður í stýringu Stefnis, tók nýlega þátt í fjármögnun VAXA Technologies, sem ræktar smáþörunga til manneldis og stefnir á minnst 10 milljarða veltu innan fimm ára, og einnig Good Good, matvælafyrirtækis sem er í örum vexti á Bandaríkjamarkaði.

Í umfjöllun Innherja fyrr á þessu ári var haft eftir Arnar Ragnarssyni, forstöðumanns sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni, að sífellt væru að koma ný fyrirtæki á sjónarsviðið sem ætli sér að sækja fram á erlendum mörkuðum

„Þetta eru fyrirtæki sem eru að leita að fjármagni til að vaxa og leita til framtakssjóða til að komast á næsta stig í starfsemi sinni. Við erum að sjá mörg ný tækifæri í slíkum fyrirtækjum í bland við rótgrónari rekstrarfyrirtæki sem þurfa vitaskuld áfram að leita eftir tækifærum til að þróast og styrkja sinn rekstur,“ sagði Arnar.

Þá hefur framtakssjóðurinn Iðunn, sem er stýrt af Kviku eignastýringu og einblínir á líf- og heilsutækni, fjárfest í fyrirtækjum á borð við EpiEndo, Coripharma. Köru Connect og NeckCare.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.