Innherji

Öl­gerðin spornar gegn verð­hækkunum í von um að þær gangi til baka

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Í hlutafjárútboði Ölgerðarinnar, sem hefst í byrjun næstu viku, verða seld 29,5 prósent af útgefnu hlutafé.
Í hlutafjárútboði Ölgerðarinnar, sem hefst í byrjun næstu viku, verða seld 29,5 prósent af útgefnu hlutafé. VÍSIR/VILHELM

Ölgerðin, stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, hefur tekið á sig hluta af verðhækkunum aðfanga, sem hafa í mörgum tilfellum numið tugum prósenta, í von um að þær gangi til baka. Fyrirtækið býst við frekari hækkunum frá ýmsum birgjum og ef aðfangaverð heldur áfram að hækka gæti það þurft að endurmeta verðlagningu enn frekar. Þetta kemur fram í skráningarlýsingu Ölgerðarinnar sem var birt í dag.

„Nýverið leiddu hækkanir á hráefni og umbúðum til þess að Ölgerðin sá sér ekki annað fært en að hækka verð innlendra framleiðsluvara um 5,9%, sem þó var minna en raunveruleg hækkunarþörf, en fjöldi aðfanga hafa hækkað um tugi prósenta síðustu misseri m.a. í kjölfar Covid-19,“ segir í skráningarlýsingunni.

Dæmi um aðföng sem hækkað hafa í verði á heimsvísu undanfarið eru korn, kolsýra, dósir, lok, bragðefni, plast, sykur, appelsínusafi og fleira. Þá hefur flutningskostnaður aukist töluvert.

Haldi hráefna- og afurðaverð áfram að hækka er ljóst að Ölgerðin mun þurfa að endurmeta verðlagningu

„Ölgerðin tók hluta af framkomnum hækkunum á sig í von um að hluti þeirra gangi til baka,“ segir jafnframt í skráningarlýsingunni. Þá er bent á að fram undan séu launahækkanir og að búist sé við enn frekari hækkunum frá ýmsum birgjum.

Ölgerðin á mörg af elstu og þekktustu vörumerkjum landsins á sínu sviði, til dæmis Egils Appelsín, Kristal, Egils Gull og Egils Malt, en tæplega helmingur af starfsemi félagsins er framleiðsla á eigin vörumerkjum. Auk þess er Ölgerðin með leyfi til þess að framleiða og selja vörur undir þekktum vörumerkjum frá fyrirtækjum Tuborg, Carlsberg Group og Pepsico.

„Haldi hráefna- og afurðaverð áfram að hækka er ljóst að Ölgerðin mun þurfa að endurmeta verðlagningu, en ljóst er að frekari hækkanir á hráefna- og afurðaverði auk neikvæðra áhrifa vegna verðbreytinga gætu haft neikvæð áhrif á rekstur og afkomu félagsins.“

Í hlutafjárútboði Ölgerðarinnar, sem hefst í byrjun næstu viku, verða seld 29,5 prósent af útgefnu hlutafé. Framleiðslufyrirtækið er verðmetið á 25 milljarða króna samkvæmt útboðsgenginu sem verður að lágmarki 8,9 krónur á hlut.

Stærstu eigendur fyrirtækisins eru framtakssjóðirnir Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa, og Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða, með samanlagt um 43 prósenta hlut. Þá fer OA eignarhaldsfélag, sem er í eigu þeirra Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar, stjórnarformanns, með rúmlega 16 prósenta hlut.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×