Innherji

Óbeinn hlutur Landsbankans í Marel lækkað í virði um sex milljarða á árinu

Hörður Ægisson skrifar
Landsbankinn, sem er nánast alfarið í eigu ríkissjóðs, fer með um 3,5 prósenta óbeinan hlut í Marel í krafti þess að eiga 14,1 prósenta eignarhlut í Eyrir Invest.
Landsbankinn, sem er nánast alfarið í eigu ríkissjóðs, fer með um 3,5 prósenta óbeinan hlut í Marel í krafti þess að eiga 14,1 prósenta eignarhlut í Eyrir Invest. Vísir/Hanna

Mikið verðfall á gengi hlutabréfa Marels, sem hefur lækkað um 26 prósent frá áramótum, þýðir að óbeinn eignarhlutur Landsbankans í félaginu hefur fallið í virði úr 23,5 milljörðum króna í 17,3 milljarða á fjórum og hálfum mánuði, eða um liðlega 6,2 milljarða. Meira en 250 milljarðar hafa samtals þurrkast út af markaðsvirði Marels frá því í lok ágúst í fyrra þegar hlutabréfaverð félagsins var hvað hæst.

Landsbankinn, sem er nánast alfarið í eigu ríkissjóðs, fer með um 3,5 prósenta óbeinan hlut í Marel í krafti þess að eiga 14,1 prósenta eignarhlut í Eyrir Invest. Íslenska fjárfestingafélagið er sem kunnugt stærsti hluthafi Marels með 24,7 prósenta hlut og er hann í dag metinn á um 122 milljarða.

Mikill söluþrýstingur hefur verið á gengi bréfa Marels að undanförnu. Hlutabréfaverð félagsins lækkaði um tæplega eitt prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í gær og stóð í 644 krónum á hlut – það fór hæst í 973 krónur undir lok síðasta sumars – við lokun markaða. Markaðsvirði Marels, sem er verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni, fór við það undir 500 milljarða króna og hefur ekki verið lægra í tvö ár.

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga samanlagt um 30 prósenta eignarhlut í Marel sem er bæði skráð á markað hér landi og í Amsterdam í Hollandi. Þá fara sjóðirnir, einkum LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna, til viðbótar með um sjö prósenta óbeinan hlut í Marel í gegnum eignarhald sitt á Eyri Invest.

Verðþróun hlutabréfa Marels, sem hækkuðu mjög í virði á árunum 2019 og 2020, hafa oft litað nokkuð afkomu Landsbankans á síðustu misserum og árum en eignarhluturinn í Eyri Invest er langsamlega stærsta hlutabréfaeign bankans.

Arðsemi Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi 2022 var þannig aðeins 4,7 prósent á ársgrundvelli, mun lægri en hjá hinum viðskiptabönkunum, og minnkaði hagnaður bankans úr 7,6 milljörðum í 3,2 milljarða. Sá samdráttur skýrist af því að aðrar rekstrartekjur Landsbankans reyndust neikvæðar um einn milljarð en voru jákvæðar um rúmlega fimm milljarða á sama tíma fyrir ári. Þar vegur þungt neikvæð þróun á gengi bréfa Marels sem lækkuðu í virði um rúmlega 13 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins sem dró talsvert niður afkomu bankans.

Þegar hlutabréfaverð Marels var í hæstu hæðum fyrir rúmlega átta mánuðum síðan þá var markaðsvirði óbeins eignarhlutur Landsbankans í fyrirtækinu um 26,2 milljarðar króna. Frá þeim tíma hefur gengi bréfa Marels fallið um þriðjung og virði hlutar Landsbankans lækkað um tæplega níu milljarða.

Eftir þrýsting frá Fjármálaeftirlitinu undir lok ársins 2018, sem fór að leggja dagsektir á Landsbankann til þess að knýja á um að hann minnkaði hlut sinn í Eyri Invest, seldi bankinn í nóvember sama ár um 9,2 prósenta í fjárfestingafélaginu fyrir um 3,9 milljarða króna. Kaupandi að þeim bréfum var nánast alfarið Eyrir Invest. Áður hafði Landsbankinn boðið eignarhlutinn, sem þá nam 23,3 prósentum af hlutafé fjárfestingafélagsins, til sölu í opnu ferli í maí árið 2016. Fimm tilboð bárust og var þeim öllum hafnað þar sem þóttu óviðunandi að mati bankans.

Í árshlutauppgjöri Marels, sem var birt í lok síðasta mánaðar, skilaði félagið enn einum metfjórðungi í mótteknum pöntunum sem námu 442 milljónum evra. Tekjur á fyrstu þremur mánuðm ársins voru 372 milljónir evra, á svipuðu róli og á fjórða fjórðungi en hækkuðu um 11 prósent á milli ára. Fyrirtækið glímdi aftur á móti við aukinn rekstrarkostnað vegna verðbólgu og áskorana tengdum aðfangakeðju.

Samhliða birtingu uppgjörsins tilkynnti Marel um kaup á bandaríska fyrirtækinu Wenger Manufacturing, sem er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á hátæknilausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein, og fóður fyrir fiskeldi. Heildarkaupverðið, sem verður greitt með reiðufé og lánalínum, er 540 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 70 milljarða íslenskra króna.

Kaupin eru sögð mikilvægt skref inn á nýja vaxtarmarkaði og mynda fjórðu tekjustoð Marels, til viðbótar við alifugla-, kjöt- og fiskiðnað. Gert er ráð fyrir að nýtt tekjusvið muni skila 10 prósent af tekjum og 12 prósent af sameiginlegri EBITDA-framlegð hjá sameinuðu félagi.

Heildareignir Eyris námu 1.205 milljónum evra í árslok 2021 og var eigið fé félagsins 919 milljónir evra á þeim tíma, eða sem nemur um 130 milljörðum króna. Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon, stjórnarformaður félagsins, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, en þeir fara samanlagt með nærri 39 prósenta hlut.


Tengdar fréttir

Eyrir keypti níu prósent í sjálfu sér

Fjárfestingafélagið Eyrir Invest, stærsti einstaki hluthafi Marels, keypti í síðustu viku tæplega níu prósenta hlut af Landsbankanum í sjálfu sér. Kaupverðið nam um 3,8 milljörðum króna.

Sektar Landsbankann um hálfa milljón á dag

Landsbankinn hefur þurft að greiða Fjármálaeftirlitinu 23 milljónir króna í sekt frá því í september. Eftirlitið sektar bankann um hálfa milljón á dag til þess að knýja á um að hann selji hlut sinn í Eyri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×