Innlent

Úti­lokar að undir­gangast stefnu Sam­fylkingarinnar í borginni

Kjartan Kjartansson skrifar
Einar Þorsteinsson í sjónvarpskappræðum á Stöð 2 fyrir kosningar.
Einar Þorsteinsson í sjónvarpskappræðum á Stöð 2 fyrir kosningar. Vísir/Vilhelm

Oddviti Framsóknarflokksins segir það ekki koma til greina að taka þátt í meirihlutasamstarfi undir stefnu Samfylkingarinnar. Viðræður við flokka í dag hafi verið óformlegar og að ekki hafi verið farið út í nein málefni.

Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna í borgarstjórn féll í kosningunum á laugardag. Framsóknarflokkurinn virðist í kjörstöðu með sína fjóra nýju borgarfulltrúa. Einar Þorsteinsson, oddviti flokksins, hitti oddvita nokkurra annarra flokka í dag.

Í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Einar fundina hafa verið óformlegt spjall þar sem kannað var hvort málefnalegur flötur væri fyrir samstarfi.

Einar var spurður út í hvort hann stæði enn við ummæli sem hann lét falla í kappræðum á RÚV kvöldið fyrir kjördag þar sem hann útilokaði að undirgangast stefnu Samfylkingarinnar í meirihlutasamstarfi.

„Ef ég ætlaði mér að gera það hefði ég bara farið í framboð fyrir Samfylkinguna, þannig að það kemur ekki til greina,“ svaraði Einar.

Sló hann þó þann varnagla við flokkarnir séu margir með sömu málin á stefnuskrá sinni og oft greini þá ekki mikið um hvernig eigi að gera hlutina.

„Fyrst þurfum við bara að finna þá flokka sem okkar langar til að fara í formlegar viðræður við. Við erum ekki komin á þann stað,“ sagði Einar spurður út í hvenær formlegar meirihlutaviðræður gætu farið af stað.


Tengdar fréttir

Vill ekki að fólk oftúlki orð sín – stefnan sé sett á samflot

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir að ekki megi oftúlka orð hennar um að útiloka ekki neinn. Oddvitar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata hafi talað sig saman um að vera í samfloti í gegnum meirihlutaviðræður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×