Innherji

Akta seldi fyrir minnst milljarð í ÍSB, Gildi keypti fyrir nærri tvo

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hækkanir á hlutabréfaverði Íslandsbanka eftir útboðið í mars hafa gengið til baka og vel það. 
Hækkanir á hlutabréfaverði Íslandsbanka eftir útboðið í mars hafa gengið til baka og vel það.  VÍSIR/VILHELM

Akta sjóðir hafa selt hlutabréf í Íslandsbanka fyrir minnst milljarð króna á síðustu dögum og á sama tíma hefur Gildi lífeyrissjóður bætt verulega við hlut sinn í bankanum.

Íslandsbanki birti yfirgripsmeiri hluthafalista fyrir tveimur dögum sem sýndi tuttugu og fimm stærstu hluthafa bankans en ekki einungis þá sem eiga meira en eins prósents hlut eins og áður hafði verið.

Á listanum kom fram að Akta sjóðir ættu rúmlega 14,5 milljónir hluta, eða um 0,73 prósent, í Íslandsbanka að virði um 1.730 milljóna króna miðað við gengi bréfanna í dag.

Þrír sjóðir Akta – Stokkur, HS1 og HL1 – höfðu fengið úthlutun upp á 17,2 milljónir hluta í síðari hlutafjárútboði Íslandsbanka sem fór fram 22. mars, og hafði sjóðastýringarfélagið því minnkað nokkuð við hlut sinn í bankanum frá útboðinu.

Nýr hluthafalisti Íslandsbanka frá því í dag sýnir að Akta sjóðir eru horfnir af listanum sem þýðir að sjóðastýringarfélagið hefur minnkað stöðu sína að lágmarki um 7,6 milljónir hluta í bankanum. Ætla má að sjóðirnir hafi því selt fyrir að minnsta kosti um 950 milljónir króna á síðustu dögum sé litið til þess viðskipti með bréf í Íslandsbanka voru að jafnaði á bilinu 123 til 125 krónur á hlut í lok síðustu viku og í byrjun þessarar.

Gildi lífeyrissjóður átti um 101 milljón hluta í bankanum í byrjun vikunnar, eða sem nemur 5,05 prósenta hlutdeild. Samkvæmt nýjum hluthafalista er lífeyrissjóðurinn er kominn með rúmlega 117 milljónir hluta, um 5,86 prósent, sem þýðir að ætla má að sjóðurinn hafi undanfarna daga keypt bréf fyrir nálægt tvo milljarða króna.

Með kaupunum tók Gildi fram úr Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Capital Group og varð annar stærsti hluthafi bankans.

Dagana eftir hlutafjárútboð Íslandsbanka í mars hækkuð bréfin um 6,5 prósent, eða úr 122 krónum í 130 krónur, en sú hækkun hefur gengið til baka og rúmlega það. Verð bréfanna stendur nú í rúmum 119 krónum á hlut en til samanburðar var útboðsgengið 117 krónur.

Hagnaður Akta sjóða, sem er að stærstum hluta í eigu sex starfsmanna, meira en tvöfaldaðist á síðasta ári og nam samtals 1.665 milljónum króna eftir skatta en félagið greiddi meira en 500 milljónir í skatta vegna afkomu ársins 2021.

Sjóðir í rekstri Akta skiluðu hæstu ávöxtun íslenskra vogunarsjóða síðustu tvö ár. Sjóðurinn HL1 sem fjárfestir í hlutabréfum, var með 83 prósenta ávöxtun í fyrra á meðan gengi HS1, sem fjárfestir bæði í innlendum skuldabréfum og hlutabréfum, hækkaði um liðlega 78 prósent. Árangur sjóðanna var lítillega lakari en árið 2020 þegar þeir skiluðu báðir yfir 90 prósenta ávöxtun.

Á þessu ári hafa hins vegar hlutabréfasjóðir Akta, bæði Stokkur og gíraði sjóðurinn HL1, skilað einna lægstu ávöxtuninni á meðal sambærilegra innlendra sjóða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×