Innherji

Akta sjóðir hagnast um 1.700 milljónir og eignir í stýringu tvöfaldast

Hörður Ægisson skrifar
Stjórn Akta leggur til að greiddur verði út arður til hluthafa að fjárhæð 900 milljónir króna vegna afkomu síðasta árs.
Stjórn Akta leggur til að greiddur verði út arður til hluthafa að fjárhæð 900 milljónir króna vegna afkomu síðasta árs. VÍSIR/VILHELM

Hagnaður Akta sjóða, sem er að stærstum hluta í eigu sex starfsmanna, meira en tvöfaldaðist á síðasta ári og nam samtals 1.665 milljónum króna eftir skatta en félagið greiddi meira en 500 milljónir í skatta vegna afkomu ársins 2021. Umsýslu- og árangurstengdar þóknanir voru 2.554 milljónir og jukust um rúmlega 1.330 milljónir á milli ára.

Samtals voru 11 sjóðir í rekstri félagsins á liðnu ári, sami fjöldi og á árinu 2020, en eignir í stýringu voru samtals um 64 milljarðar króna í lok síðasta árs borið saman við 32,7 milljarða árið áður. Í skýrslu stjórnar Akta kemur fram að þessa miklu aukningu megi rekja til aukins áhuga almennings á fjárfestingum, lágs vaxtastigs og góðs árangurs í stýringu félagsins ásamt meiri sýnileika.

„Stefnt er að því að viðhalda auknum vexti félagsins og áfram verður lögð áhersla á langtímahugsun og virka stýringu,“ segir í skýrslunni.

Stjórn Akta leggur til að greiddur verði út arður til hluthafa að fjárhæð 900 milljónir króna vegna afkomu síðasta árs. Í fyrra nam arðgreiðslan til hluthafa samtals 727,5 milljónum króna.

Stærsti hluthafi Akta, með tæplega 45 prósenta hlut, er félag í eigu Arnar Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Akta, en þar á eftir er Kvika með 19 prósent. Aðrir starfsmenn Akta, fimm talsins, eiga á bilinu 2 til 9,8 prósenta hlut hver um sig.

Samhliða örum vexti hefur starfsmönnum félagsins fjölgaði lítillega og á síðasta ári voru þeir að meðaltali 8,1 talsins borið saman við 6,6 ársverk á árinu 2020. Launakostnaður jókst um tæplega 30 prósent og var 247 milljónir og þá hækkaði annar rekstrarkostnaður Akta um 50 milljónir og var samtals rúmlega 160 milljónir.

Síðasta ár var afar gjöfult á hlutabréfamarkaði en Úrvalsvísitalan hækkaði um 33 prósent og veltan jókst einnig verulega samhliða nýskráningum félaga í Kauphöllina og aukinni ásókn almennings í hlutabréfaviðskipti.

Örn Þorsteinsson er framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi Akta með tæplega 45 prósenta hlut.

Stærsti sjóðurinn í rekstri Akta er hlutabréfasjóðurinn Akta Stokkur, sem stækkaði úr 5,6 milljörðum króna í 15,4 milljarða á liðnu ári, sem skilaði sjóðsfélögum sínum tæplega 48 prósenta ávöxtun í fyrra. Það var þriðji besti árangurinn í samanburði við aðra hlutabréfasjóði sem eru opnir almenningi. Í nýbirtum ársreikningi má sjá að hreint innflæði í Akta Stokk á árinu 2021 nam um 5,8 milljörðum króna.

Á meðal innlendra vogunarsjóða, sem hafa fjárfestingarheimildir til að gíra skort- eða gnóttstöður sínar í verðbréfum margfalt, voru tveir sjóðir í stýringu Akta – HL1 og HS1 – sem skiluðu sjóðsfélögum sínum hæstu ávöxtunni á árinu 2021, eins og Innherji hefur áður fjallað um. Sjóðurinn HL1, sem var um sex milljarðar króna að stærð um síðustu áramót og fjárfestir í hlutabréfum, var með 83 prósenta ávöxtun á meðan gengi HS1, sem fjárfestir bæði í innlendum skuldabréfum og hlutabréfum og er um 8 milljarðar að stærð, hækkaði um liðlega 78 prósent.

Árangur sjóðanna var lítillega lakari en árið 2020 þegar þeir skiluðu báðir yfir 90 prósenta ávöxtun.

Á þessu ári hafa hins vegar hlutabréfasjóðir Akta, bæði Stokkur og gíraði sjóðurinn HL1, skilað einna lægstu ávöxtuninni á meðal sambærilegra innlendra sjóða. Ávöxtun Akta Stokks er þannig neikvæð um liðlega 7 prósent frá áramótum, borið saman við Úrvalsvísitöluna sem hefur lækkað um tæplega 11 prósent, og hefur stærð sjóðsins lækkað niður í um 11 milljarða króna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×