Innherji

Good Good landar 2,6 milljörðum til að efla sóknina vestanhafs

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Agnar Tr. Lemacks, Garðar Stefánsson og Jóhann Ingi Kristjánsson, stofnendur Good Good. 
Agnar Tr. Lemacks, Garðar Stefánsson og Jóhann Ingi Kristjánsson, stofnendur Good Good.  Good Good

Matvælafyrirtækið Good Good hefur lokið 20 milljóna dollara hlutafjáraukningu, jafnvirði um 2,6 milljarða króna. Hlutafjáraukningunni er sérstaklega ætlað að styðja við öran vöxt fyrirtækisins á Bandaríkjamarkaði.

„Í þessari hlutafjáraukningu var lögð áhersla á að styrkja hluthafahóp Good Good til framtíðar. Þetta er fjármögnun sem dugar okkur til næstu ára,“ segir Jóhann Ingi Kristjánsson, stjórnarformaður og meðstofnandi Good Good.

„Við ætluðum upphaflega að safna fimm milljónum dala og mögulega skrá félagið á First North. En viðtökurnar vorum langt umfram væntingar og við sáum að það var mikill áhugi hjá fjárfestum á því sem við vorum að kynna. Þetta var því niðurstaðan og við afar ánægð með framgang hlutafjáraukningarinnar.“

Framtakssjóðurinn SÍA IV, sem er 16 milljarða sjóður í stýringu Stefnis, leiddi hlutafjáraukninguna. Þar með verður framtakssjóðurinn næststærsti hluthafi fyrirtækisins með rúman 24 prósenta hlut en stærsti hluthafinn er Eignarhaldsfélagið Lyng, móðurfélag Ósa, sem á m.a. Icepharma og Parlogis, með tæplega 35 prósent.

Núverandi hluthafar tóku þátt í hlutafjáraukningunni en auk þeirra bættust einnig fleiri innlendir fjárfestar við hluthafahópinn. Samkvæmt heimildum Innherja er fyrirtækið verðmetið á 6,5 milljarða króna eftir fjármögnunina.

Okkar markmið er að setja ekki neitt á markað nema það bragðist vel. Þetta er það sem mörg fyrirtæki í þessum geira flaska á

Good Good, sem var stofnað árið 2015 á grunni stevíudropaframleiðslu í Hafnarfirði, selur matvörur án viðbætts sykurs sem henta meðal annars þeim sem eru á ketó-mataræði. Sykurlausar sultur og súkkulaðismjör eru vinsælustu vörur fyrirtækisins. Í vörúrvali Good Good eru einnig síróp, ketobarir, strásæta og stevíudropar. Hnetusmjör og bökunarmix eru á meðal nýrra vara sem Good Good er að setja á markað á þessu ári.

„Við skilgreinum okkur sem „breakfast and brunch“ vörumerki og einblínum á að hrista upp í þessum markaði með sykurlausum vörum sem bragðast vel. Það er auðvelt að búa til hollar vörur en oftast eru þær með miklu gervibragði eða þá bragðlausar,“ segir Garðar Stefánsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi. Nafn fyrirtækisins, Good Good, stendur fyrir það sem bæði gott á bragðið og gott fyrir heilsuna.

„Súkkulaðismjörið okkar vann blindprufu í Danmörku. Nutella, með allan sinn sykur, var í öðru sæti. Okkar markmið er að setja ekki neitt á markað nema það bragðist vel. Þetta er það sem mörg fyrirtæki í þessum geira flaska á.“

Good Good velti 7,3 milljónum dala, tæplega milljarði króna, á síðasta ári og jókst veltan um 60 prósent milli ára. Veltuaukningin var einkum drifin áfram af Bandaríkjamarkaði – verslanakeðjan Publix tók sulturnar inn í 1268 verslanir um mitt ár – og áttföldum vexti í netverslun fyrirtækisins.

Frá stofnun fyrirtækisins hefur það að meðaltali vaxið um 123 prósent á hverju ári. „Við höfum haft það markmið að tvöfalda veltuna á hverju ári og það virðist ætla að ganga eftir í ár eins og staðan er í dag. Á fyrsta ársfjórðungi erum við að vaxa um 190 prósent í Bandaríkjunum á milli ára,“ segir Jóhann Ingi.

Samkvæmt markaðsrannsóknafyrirtækinu SPINS eru sultur Good Good orðnar 16. vinsælasta sultuvörumerkið á Bandaríkjamarkaði þar sem rúmlega 600 sultuframleiðendur berjast um hylli neytenda.

„Bandaríkin eru okkar helsti markaður og er mikil eftirspurn eftir bragðgóðum vörum sem eru án viðbætts sykurs. Rúmlega 10 prósent amerísku þjóðarinnar er með sykursýki og spár gera ráð fyrir því að sú tala geti vaxið í 33 prósent fyrir árið 2050 ef ekkert verður að gert. Þróun yfir í sykurlausar vörur er í raun orðin nauðsynleg,“ segir Garðar.

Viðskiptamódel Good Good er ólíkt mörgum af stærstu matvælaframleiðendum heims. Vöruþróun og hönnun umbúða er unnin innanhús en framleiðslunni er útvistað til sérhæfðra framleiðslufyrirtækja í Hollandi og Belgíu.

„Við uppgötvuðum fljótlega að það svaraði ekki kostnaði að flytja aðföng til Íslands og síðan tilbúna vöru frá Íslandi. Starfsemin er því meira í líkingu tæknifyrirtæki eins og Apple, sænsk fatamerki og dönsk húsgagnamerki sem sjá um hönnun og þróun en útvista framleiðslunni. Þetta er þekkt módel erlendis en á Íslandi erum við svo vön því að vera frumframleiðendur sérstaklega hvað varðar matvæli“ segir Agnar Tr. Lemacks, ráðgjafi og meðstofnandi.

Við komum inn á markaðinn með algjörlega nýja leið í matvælahönnun til þess að framleiða hollari kost fyrir neytendur.

Starfsmenn Good Good eru nú fimmtán talsins og þar af starfa 9 á skrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík, 4 í Bandaríkjunum, 1 í Bretlandi og 1 í Úkraínu.

Viðskiptamódelið gerir Good Good kleift að nýta megnið af hlutafjáraukningunni í markaðsstarf enda þarf ekki að verja neinum fjármunum í stækkun á verksmiðju til að mæta aukinni eftirspurn.

„Sultuframleiðandinn sem við erum í samstarfi við hefur framleitt sultur í 115 ár og kann því vel til verka. Við erum fyrsti og eini viðskiptavinurinn, sem hann framleiðir sykurlausar sultur fyrir. Allt eftir okkar uppskrift sem var þróuð hér á Íslandi. Okkar sérþekking er í nýsköpun og sölu & markaðsmál. Styrkur þessa viðskiptamódels er að allur kostnaður tengdur framleiðslu og vörudreifingunni er breytilegur kostnaður.“ segir Jóhann Ingi.

Agnar segir að lögð sé gríðarleg áhersla á góða umbúðahönnun til að vörurnar skeri sig úr fjöldanum sem má finna í hillum stórverslana og auk þess sé fyrirtækið mjög strategískt þegar kemur að markaðssókn. „Við erum með mjög ákveðna og skilgreinda markhópa og nýtum helstu stafræna miðla til þess að nálgast þessa hópa.“

Hafa stórfyrirtækin í matvælageiranum sett svipaðar vörur á markað?

„Mörg þeirra eru vissulegu að reyna að færa sig í þessa átt. Það er hins vegar okkar reynsla að risarnir hreyfa sig hægt og taka litla áhættu. Oftast notast þeir við gervisætuefnieða þá hreinan sykur. Við komum inn á markaðinn með algjörlega nýja leið í matvælahönnun til þess að framleiða hollari kost fyrir neytendur. Allar vörur Good Good eru án viðbætts sykurs og bragðast vel. Þetta verður að vera Gott Gott“ segir Garðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×