Innherji

AGS segir að efla þurfi eftir­lit með líf­eyris­sjóðum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Sendinefndin hefur verið á landinu undanfarna daga til að leggja mat á stöðu efnahagsmála. Niðurstöðurnar voru kynntar í Seðlabankanum í morgun. 
Sendinefndin hefur verið á landinu undanfarna daga til að leggja mat á stöðu efnahagsmála. Niðurstöðurnar voru kynntar í Seðlabankanum í morgun.  Vísir/Vilhelm

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telur að styrkja þurfi heimildir Seðlabanka Íslands til að hafa eftirlit með stjórnarháttum og áhættustýringu íslenskra lífeyrissjóða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sendinefndarinnar sem hefur verið hér landi undanfarna daga til að leggja mat á stöðu efnahagsmála.

„Í ljósi þess að kerfislegt mikilvægi lífeyrissjóða fer vaxandi og vegna náinna tengsla þeirra við aðrar fjármálastofnanir ætti að efla heimildir Seðlabankans til að hafa eftirlit með stjórnarháttum þeirra og áhættustýringu,“ segir í yfirlýsingu sendinefndarinnar.

Áður hefur komið fram í máli æðstu stjórnenda Seðlabankans, þar á meðal seðlabankastjóra, að ekki sé heppilegt að lífeyrissjóðir starfi á sama sviði og bankar án þess að lúta sömu kröfum.

Það er mat sendinefndarinnar að Íslandi hafi staðið nýleg efnahagsáföll nokkuð vel af sér.

Vel útfærðar aðgerðir og öflugt heilbrigðiskerfi drógu úr áhrifum áfallsins vegna heimsfaraldursins og auðvelduðu kröftugan viðsnúning hagvaxtar og atvinnu. Kröftug innlend eftirspurn og hagfelld viðskiptakjör leiddu til 4,3% hagvaxtar á árinu 2021 þrátt fyrir hægari bata í ferðaþjónustu,“ segir í yfirlýsingunni.

Íslenskt efnahagslíf stendur vel að vígi, að mati sendinefndarinnar, gagnvart mögulegum neikvæðum áföllum, þ.m.t. alþjóðlegum áhrifum stríðsins í Úkraínu, þar sem hreinar opinberar skuldir nema nú um 60 prósentum af landsframleiðslu, gjaldeyrisforði nemur 29 prósentum af landsframleiðslu og bankakerfið stendur traustum fótum.

Draga þarf úr íþyngjandi aðstæðum fyrir sprotafyrirtæki og yngri fyrirtæki og auðvelda reglugerðarumhverfi fyrirtækja

Sendinefndin telur þó að hin fjölmörgu ytri áföll sem dunið hafa á Íslandi síðan 2019 undirstriki þörfina fyrir að auka fjölbreytni efnahagslífsins.

„Áherslan ætti að vera á að auka samkeppnishæfni, stuðla að nýsköpun og bætta nýtingu auðlinda. Draga þarf úr íþyngjandi aðstæðum fyrir sprotafyrirtæki og yngri fyrirtæki og auðvelda reglugerðarumhverfi fyrirtækja til að auka framleiðni og stuðla að vexti,“ segir í yfirlýsingunni.

Bankakerfið hefur staðist heimsfaraldurinn vel að mati nefndarinnar sem bendir á að bankarnir búi yfir nægu lausafé og sterkri eiginfjárstöðu ásamt því að vera arðbærir. En kerfisáhætta í bankakerfinu fer þó vaxandi.

„Þrátt fyrir það hefur áhætta aukist vegna hækkunar húsnæðisverðs umfram ákvarðandi þætti. Skörp leiðrétting húsnæðisverðs gæti veikt efnahagsreikninga heimila og fjármálageirans. Hækkun húsnæðisverðs hefur einnig haft neikvæð áhrif á getu fólks til að kaupa eigið húsnæði, sér í lagi fyrir yngra fólk og þá sem tekjulægri eru. Vel útfærðar og samræmdar aðgerðir eru nauðsynlegar til að takast á við húsnæðisverðssveifluna,“ segir í yfirlýsingunni.

Sendinefndin segir að taka ætti á áhættuþáttum tengdum húsnæðismarkaði með skilvirkum þjóðhagsvarúðartækjum. Hún leggur meðal annars til til innleiðingu á þaki á skuldabyrðarhlutfalli.

„Auka má hagkvæmni húsnæðis með því að draga úr reglubyrði í byggingageiranum og auka framboð húsnæðis. Til þess þarf að einfalda skipulagsreglur, létta á ferlum við öflun byggingarleyfa og innleiða einn vettvang fyrir leyfi og úttektir. Endurhanna ætti stuðning hins opinbera í húsnæðismálum. Markvissari stuðningur við fólk á leigumarkaði og áframhaldandi fjárfesting í félagslegu húsnæði ætti að stuðla að hagkvæmara leiguverði,“ segir í yfirlýsingunni.

Til þess þarf að einfalda skipulagsreglur, létta á ferlum við öflun byggingarleyfa og innleiða einn vettvang fyrir leyfi og úttektir.

Þá kallar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eftir aðhaldssamri stefnu í opinberum fjármálum til að ná verðbólgu í markmið og endurreisa fjárhagslegan styrk opinberra fjármála. Það er lykilatriði að mati stofnununarinnar í ljósi þess að íslenskt efnahagslíf er útsett fyrir stórum áföllum.

„Heildræn nálgun laga um opinber fjármál – sem nær til halla og skulda hins opinbera í heild – hefur verið lykillinn að því að byggja upp varnir og viðnámsþrótt opinberra fjármála undanfarinn áratug. Þá nálgun ber að varðveita.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×