Handbolti

Sendi Svövu og Sunnevu í mikið hláturskast í Seinni bylgjunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir og Sunneva Einarsdóttir í miðju hláturskasti í þættinum.
Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir og Sunneva Einarsdóttir í miðju hláturskasti í þættinum. S2 Sport

Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir, nýr sérfræðingur Seinni bylgjunnar, hefur lífgað upp á hlutina í þættinum í vetur og gott dæmi um það er þáttur um undanúrslitin í Olís deild kvenna.

Svava Kristín Grétarsdóttir, Brynhildur og Sunneva Einarsdóttir voru þá að ræða um Framkonur og hversu vel þær hafa komið til baka eftir langa pásu fyrir úrslitakeppnina.

Það var þá sem Brynhildur tók eftir einu þegar nafnið hennar kom á skjáinn. Undir nafni hennar stóð einu sinni bikarmeistari.

„OMG, af hverju stendur einu sinni bikarmeistari. Þetta er svo vandræðalegt,“ sagði Brynhildur Bergmann hlæjandi.

Klippa: Hláturskast í Seinni bylgjunni

„Þú ert bara búin að verða einu sinni bikarmeistari. Það er bara þannig,“ sagði Sunneva.

„Áttu fleiri titla elskan mín,“ spurði þá Svava Kristín.

„Nei, en af hverju stendur ekki bara ekki neitt. Solla: 300 landsleikir. Ég: Einu sinni bikarmeistari,“ sagði Brynhildur og skellihló.

Hún er náttúrulega með svo smitandi hlátur að bæði Svava og Sunneva sprungu líka úr hlátri.

„Ég elska samt að þú sért að taka eftir þessu fyrst núna,“ sagði Svava.

„En ég er mjög ánægð með þennan bikarmeistaratitil,“ sagði Brynhildur og ekki minnkuðu hlátrasköllin við það. Hún vann hann með Stjörnunni árið 2017.

„Við ætlum ekki að ræða þennan bikarmeistaratitil sem Brynhildur vann fyrir löngu síðan en við ætlum að ræða það,“ sagði Svava en komst ekki lengra því hinar tvær voru að kafna úr hlátri á sama tíma.

„Þú ert alltaf að slá okkur út af laginu en það er ágætt því við erum hvort sem er að bíða eftir myndefni. En hættum að hlæja,“ sagði Svava en það var erfitt fyrir þær að hætta að hlæja eins og má sjá í myndbandinu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×