Skoðun

Að fara illa með at­kvæðið sitt

Flosi Eiríksson skrifar

Í bæjarstjórnarkosningunum 2018 voru 9 framboð í Kópavogi. Á því má segja að séu tvær hliðar, það er fagnaðarefni að sem flestir hafi áhuga á samfélaginu sem við byggjum og séu tilbúin að leggja sitt af mörkum til að efla það og styrkja – hin hliðin á þeim peningi er hvernig fulltrúalýðræðið virkar og hvernig bæjarfulltrúum er úthlutað til flokkanna.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 35% atkvæða í síðustu kosningum en 5 bæjarfulltrúa af 11, í krafti þess hvernig atkvæði skiptust milli framboða. Rúm 25% kusu lista sem fengu engan mann kjörinn og var það ,,það framboð“ sem fékk næst flest atkvæði.

Í krafti þessarar stöðu myndaði Sjálfstæðisflokkurinn síðan meirihluta með Framsóknarflokknum sem fékk 7,9 % og einn mann. Meirihlutinn var með 27,2% kosningabærra Kópavogsbúa á bak við sig.

Meirihlutinn er því með 42,9% gildra atkvæða á bak við sig en fer með öll þau völd sem þau vilja í bæjarstjórninni, og Sjálfstæðisfólk talar þannig eins og það að rúmlega þriðji hver bæjarbúi hafi kosið þau gefi þeim rétt til að fara öllu sínu fram, gera lítið úr íbúðalýðræði, samráði og eðlilegum leikreglum. Að formlega valdið sé þeirra og þau hafi því rétt til að bera hagsmuni einstakra byggingarfélaga frekar fyrir brjósti en íbúanna og öll önnur sjónarmið séu bara ,,minnihlutatuð“. Virðingin fyrir lýðræði og heilbrigðum skoðanaskiptum ristir stundum býsna grunnt.

Mér finnst skipta miklu máli að framboð kynni heilsteypta stefnu fyrir bæinn sem grundvallast á þekkingu á okkar samfélagi og skýrri hugmyndafræði. Það má ekki gleymast að við erum að kjósa fólk til að bera hagsmuni allra fyrir brjósti en ekki einhverra þröngra hópa eða svæða.Í því efni treysti ég félögum mínum, jafnaðarfólki í Samfylkingunni afar vel, það er vel mannaður listi, kannski að mér frátöldum, með skýra og rótfasta stefnu fyrir bæinn okkar. Þeir sem kjósa Samfylkinguna vita fyrir hvað hún stendur og hvað þeir eru fá með atkvæði sínu. En það er líka mjög mikilvægt að vega það og meta í kjörklefanum hvernig atkvæðið nýtist best til að koma í veg fyrir þann lýðræðishalla sem nú er í bæjarstjórninni. Að bæjarfullrúar og skipting þeirra endurspegli vilja bæjarbúa og skoðanir og sá meirihluti sem myndaður verður að loknum kosningum endurspegli það.

Kópavogur á það skilið.

Höfundur var bæjarfulltrúi í Kópavogi 1998 til 2010.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×