Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3,2 milljörðum króna fyrir einskiptisliði samanborið við 2,8 milljarða króna árið 2020. Félagið hagnaðist um 1,1 milljarð króna árið 2020.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nova en þar segir að hlutafé félagsins hafi verið aukið um 3,5 milljarða króna í apríl síðastliðnum. Markmiðið með aukningunni sé að styðja frekar við fjárfestingar í 5G-fjarskiptakerfi Nova og styrkja efnahagsreikning félagsins. Þetta birtist í lækkun vaxtaberandi skulda og auknu handbæru fé.

Undirbúa skráningu á markað
Eiginfjárhlutfall Nova verður tæp 34% eftir hlutafjáraukninguna og lækka skuldsetningarhlutföll. Að sögn stjórnenda hafa viðskiptavinir félagsins aldrei verið fleiri og Nova fjárfest fyrir um 12,0% til 13,5% af tekjum í innviðum sínum á síðustu árum.
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir að góð afkoma ásamt hlutafjáraukningu muni gera fyrirtækinu kleift að leggja áfram áherslu á fjárfestingar í virkum innviðum, meðal annars uppbyggingu 5G.
„Nova hefur verið í forystu í innleiðingu á nýjustu tækni í fjarskiptum. Einstakur hópur starfsfólks sem leggur sig fram við að veita góða þjónustu, ánægja viðskiptavina og forysta í tæknibreytingum hefur skilað Nova þessum rekstrarárangri.“
Áður hefur verið greint frá því að Nova undirbúi skráningu hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland en stefnt er að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.